Eins og íbúar og gestir Siglufjarðar hafa eflaust tekið eftir hefur verið óvenju mikið þyrluflug yfir bænum.

Ástæðan er vinna við snjóflóðavarnir í fjallinu vestan við bæinn.

Trölli.is náði tali af Óla Öder, að loknum vinnudegi í heita pottinum á Sigló hóteli, sem hefur þann starfa í þessu verkefni að vera augu þyrluflugmannsins í fjallinu og segja til hvenær þarf að hækka sig eða lækka, fara aðeins til hægri eða vinstri, sem er mikið nákvæmnisverk, því fjallið er bratt og þyrlan á flugi þegar 50-60 kílóa stálstykki eru ferjuð á sinn stað.

Með krana á jörðu niðri væri þetta einfalt verk, en með farminn hangandi í þyrlu er það mun flóknara. Þyrlan tekur aðeins 1/4 af eldsneyti og getur þá borið 750 Kg í ferð. Ekki er notað spil bara 20 metra spotti, sem stundum þarf að vera tvöfalt það, þegar brattinn er meiri.

Auk stálsins er flutt sérstakt lím í sekkjum sem þeir félagar kalla “boltagraut”.
Líminu eða “grautnum” er dælt um plaströr innst inn í holuna þar til það vellur út með stálinu.
Boltarnir eru 35-40 millimetrar í þvermál og þar sem festa er góð í fjallinu eru þeir boraðir 2 metra inn í fjallið en allt upp í 6 metra þar sem festa er ekki eins góð.

Einu vélarnar sem notaðar eru við að koma festingunum fyrir eru díselrafstöð sem framleiðir rafmagn og dælir glussa, og svo borinn sjálfur. Rafstöðin er 80 kíló. Hægt er að bora í allt að 60 metra fjarlægð frá rafstöðinni, en þá þarf að taka borinn í sundur og bera hann ásamt rafstöðinni á næsta stað, allt með handafli. Að meðaltali bora þeir 12 göt á dag.

“Þeir eru mjög fimir í brekkunum litháarnir og þurfa að bera dótið út um allt” segir Óli, “ég var eins og skjaldbaka”.

Vegna þoku í fjallinu var farin “aðeins” 41 ferð í gær og áætlaðar eru 45 ferðir í dag.
“Við náðum að hræra aðeins í þokunni í gær, sem stundum gerir illt verra en í þetta sinn virkaði það” segir Óli.

Í veðurblíðunni síðastliðinn föstudag voru farnar 80 ferðir.

Köfunarþjónustan diving.is er aðal verktakinn en Óli og félagar sem vinna verkið eru frá Norðurflugi sem er undirverktaki og býr yfir stærsta þyrluflota landsins.


Myndir og myndbönd: Óli Öder og Gunnar Smári