Jón Trausti Traustason bóndi, vitavörður og veðurathugunarmaður á Sauðanesi við Siglufjörð sendir Veðurstofunni mánaðarlega tíðaryfirlit yfir veðráttu mánaðarins.
Yfirlit yfir veðrið í apríl 2019 frá veðurstöðinni á Sauðanesvita.
Fyrstu tvo daga mánaðarins og fyrri hluti þess þriðja voru einu dagarnir þar sem frost var á þurran mæli ef undan eru teknar tvær athuganir kl. 06:00 að morgni þar sem hiti var rétt neðan frostmarks.
Utan þessara daga var hitastig ávalt í plús og á köflum vel hlýtt. Hægar landáttir voru svo til allsráðandi í þessum mánuði með örfáum undantekningum. Voru það sem fyrr segir fyrstu tveir dagarnir og svo þ. 22. og þ. 23. er gerði ákveðna A.N.A. átt með slyddu og kalsarigningu. Þ. 25. var svo rykmistur greinilegt sem takmarkaði skyggni í léttskýjuðu veðri niður í um 60 – 70 km.
Svo kvaddi mánuðurinn með hægri N. lægri vindátt um kvöldið með þoku.
Meðalhiti mánaðarins var + 5,84 stig og úrkoma mældist 27,1 mm.
Hæst komst hitinn í + 16,2 stig þ. 25. og lægst þ. 8. er frost fór niður í – 5,4 stig.
Í heild séð telst þessi Apríl mánuður sérlega góður. Snjólag var gefið til og með þ. 15. en aðeins flekkótt jörð og snjódýpi ekki mælanlegt frá þ. 5. Mesta snjódýpi mældist dagana þ. 2. og þ.3. = 8 sm. að meðaltali. Eftir þ. 15. var jarðlag gefið og þá oftast sem rök jörð.
Gerð var athugun á frosti í jörð á nokkrum stöðum á láglendi tvisvar í mánuðinum með járnkarli. Fyrst þ. 12. og þá fannst þunnt frostlag á þremur stöðum en annars frostlaust. Aftur var þetta skoðað þ. 21. og þá fannst hvergi frost.
Úrkoma var mjög lítil heilt yfir í mánuðinum. Alls voru 17 dagar í mánuðinum þar sem engrar úrkomu varð vart. Meðalúrkoma per alla daga mánaðarins var því 0,9 mm. og 2,1 var meðalúrkoma þeirra daga sem hennar varð vart.
Gróður var farinn vel af stað strax um miðjan mánuð. Skortur á úrkomu gerði það hins vegar að verkum að grasspretta var ekki meiri en raun bar vitni.