Jón Trausti Traustason bóndi, vitavörður og veðurathugunarmaður á Sauðanesi við Siglufjörð sendir Veðurstofunni mánaðarlega tíðaryfirlit yfir veðráttu mánaðarins.
Yfirlit yfir veðrið í maí 2019 frá veðurstöðinni á Sauðanesvita.
Tíðarfar í maí mánuði var mjög einsleitt í heildina. Ákveðnar A.N.A. áttir langtíðastar en heldur hægari undir lok mánaðarins. Hitastig þá 1 – 6 stig. Frávik voru frá þessu var þ. 4. og dagana þ. 12. til og með þ. 16. Þá voru hægari landáttir með hærra hitastigi.
Meðalhiti mánaðarins var + 4,05 stig og úrkoma mældist 18,8 mm.
Hæst komst hitinn í + 15,6 stig þ. 15. og lægst þ. 11. er frost fór niður í – 2,0 stig.
Í heild séð telst þessi Maí mánuður góður. Snjólag var gefið dagana þ. 10. til og með þ. 12. Mesta snjódýpi mældist þ. 11., fjórir sentímetrar. Þess utan varð jarðlag gefið og þá oftast sem rök jörð. Úrkoma var mjög lítil heilt yfir í mánuðinum. Alls voru 12 dagar í mánuðinum þar sem engrar úrkomu varð vart.
Meðalúrkoma per alla daga mánaðarins var því 0,6 mm. og 0,98 mm var meðalúrkoma þeirra daga sem hennar varð vart. Gróður var farinn vel af stað strax um miðjan mánuð og grænn litur kominn á tún og sumpart á úthaga. Líkt og í undangengnum apríl mánuði var það skortur á úrkomu sem gerði það að verkum að grasspretta náði sér ekki betur á skrið.