Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að á næstu sólarhringum sjáum við byggjast upp fyrirstöðuhæð svo að segja yfir landinu. Háloftakortaröðin sýnir hvernig hæðin eflist af þrótti og loftið með henni verður sífellt hlýrra fram á fimmtudag. Þetta er spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (ECMWF) af Brunni Veðurstofunnar. Nýjasta keyrsla GFS, þ.e. sú frá Washington er mjög svipuð.
Svona hæðir eru býsna áhugaverðar í eðli sínu og alls ekki algengar hér við land að sumrinu. Hlýja loftið sem þeim fylgir er komið að ofan. Útsláttur á bylgjum vestanvindabeltisins verður það mikill að hlýtt loft sogast til norðurs og það kalda langt til suðurs. Um leið hægir á öllu saman.
Í raun er þetta háþrýstisvæði sem tilheyrir hitabeltishringrásinni, en hún er komin þetta norðarlega. Suður í höfum gufar gríðarmikið úr sjónum vegna hitunar sólar. Með háreistum skúraskýjum berst uppgufunarvarminn hátt til himins og losnar úr læðingi við rakaþéttinguna. Í 8-13 km hæð berst loftið til norðurs og sígur síðan hægt og rólega niður á hæðarsvæðunum. Við það hlýnar sjálft loftið og þenst út. Í raun er það ástæða háþrýstingsins.
Slík “hitapumpa” á okkar slóðum er eins og áður segir fágæt, en t.d. var hún viðvarandi lengi yfir Skandinavíu í fyrrasumar. Í báðum tilvikum mun norðar en normalt þykir allajafna.
Það blása hægir vindar næst miðjunni. Hæðin við yfirborð verður aðeins austar eða yfir landinu svo að segja. Í neðstu lögum kólnar yfir hafsvæðum. Þar myndast þoka. Hins vegar verður athyglisvert að sjá hvað gerist inn til landans og sérstaklega S-lands því N-átt fylgir þegar kjarninn er staðsettur rétt vestan viða land eins og spáð er.
Þurr svörðurinn eykur á hitauppstreymi og lóðrétt blöndun í neðstu lögum getur hæglega aukið á niðurstreymið að ofan og alla leið niður til yfirborðs. Þarf ekki fjöll til eins og veturna þegar beina þarf loft að ofan.. Og höfum hugfast að skraufþurrt loftið hlýnar um 1°C fyrir hverja 100 metra sem það sígur. 10 stigin í 1.000 m verða því að 20 berist slíkt loft alla leið til jarðar. Aðstæður eru óvenju hagstæðar.
En á móti kemur að “bólga” fyrirstöðuhæðarinnar hefur aðeins verið að gefa eftir í síðustu spám. Nær hámarki líklega á fimmtudag (hæð 500 hPa er spáð mest kl. 00), en lægðin úr norðri verður þá farin að naga undirstöðurnar í austri eins og sjá má glöggt.
Sjá frekar: Blika.is
Myndband: Blika.is
Forsíðumynd: Kristín Sigurjónsdóttir