Á bráðamóttöku eiga heima alvarleg veikindi sem geta leitt til innlagnar á sjúkrahús, s.s. skyndileg mæði, meðvitundarskerðing/breyting á meðvitundarástandi, bráðir brjóstverkir, bráðir kviðverkir, bráðir bakverkir, ofnæmisviðbrögð, hratt versnandi bólgur og sýkingar, krampar, geðrofseinkenni, sjálfsvígshugsanir, skyndilegur hár hiti eða bráður slappleiki o.s.frv. Einnig stærri slys og áverkar s.s. beinbrot, liðhlaup, umferðarslys, háorkuáverkar (mikil hæð, mikill hraði), stærri sár og skurðir.

Á heilsugæslu leita þeir sem eru ekki bráðveikir og þurfa ekki tafarlausa aðhlynningu eða lífsbjargandi inngrip s.s. fólk með hækkaðan blóðþrýsting, fótasár, hósta, minni háttar sár og sýkingar, langvarandi einkenni ýmiss konar (t.d. verki, kláða, hægðavandamál, kvíða, depurð), þvagfærasýkingar, hálsbólgu, eyrnabólgu, hellu fyrir eyrum, hita, slappleika o.þ.h. Skoðun eftir umferðaróhapp þar sem einstaklingur er ekki með áverka eða óþægindi getur að öllu jöfnu farið fram á heilsugæslu.

Í vafatilfellum skal hringja í upplýsingasímann 1700.Lyf:

Á bráðamóttöku eru skrifuð út lyf til meðhöndlunar á þeim einkennum/sjúkdómi sem greindur er við komu. Þar eru ekki endurnýjuð föst lyf sjúklinga.Heilsugæslan sér um lyfjaendurnýjanir.

Vottorð:Við komu á bráðamóttöku eru stundum gerð vottorð til vinnuveitenda og beiðnir um sjúkraþjálfun. Áverkavottorð eru aldrei gefin út samdægurs; þau þarf að sækja um til ritara bráðamóttöku.

Heilsugæslulæknar sjá um gerð vottorða vegna ökuleyfa, skotvopna, starfsréttinda og lyfjaskírteina, auk endurhæfingar- og örorkuvottorða.

Mikilvægt er að minna veikir og fólk með langvarandi einkenni leiti til heilsugæslunnar svo starfsfólk bráðamóttöku hafi tíma og svigrúm til að sinna bráðveikum og slösuðum.Þeir sem leita á bráðamóttöku verða metnir af reyndum hjúkrunarfræðingi eins fljótt og mögulegt er. Þeim sem hjúkrunarfræðingur metur ekki í þörf fyrir bráðameðferð verður beint á heilsugæsluna.