Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 10 í 20 manns, hægt verður að hefja íþróttastarf, sund og heilsurækt með takmörkunum, sviðslistir einnig og skíðasvæðin geta opnað á ný. Í skólum breytast nálægðarmörk á öllum skólastigum úr 2 metrum í 1 og leik- og grunnskólabörnum verður heimilt að stunda skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf á ný. Þetta er megininntak tilslakana á sóttvarnareglum sem heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í dag og eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Reglugerðir um breytingarnar eru í vinnslu og verða birtar síðar í dag. Gert er ráð fyrir að þær gildi í 3 vikur.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að frá því að aðgerðir á landamærum voru hertar síðast, m.a. með kröfu um sýnatöku hjá börnum og ferðamönnum með vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu og auknu eftirliti með þeim sem dveljast í sóttkví eða einangrun, hafi daglegum smitum fækkað. Þannig hafi tekist að koma í veg fyrir stærri hópsýkingu eða útbreiðslu smita. Sóttvarnalæknir bendir þó á að ekki hafi tekist að uppræta veiruna úr samfélaginu. Áfram þurfi að viðhafa fyllstu aðgát vegna mikillar útbreiðslu í nálægum löndum og nýrra afbrigða veirunnar. Ýtrasta varkárni á landamærunum sé lykillinn á tilslökunum innanlands.
Staðan á sjúkrahúsum er góð, aðeins einn sjúklingur er inniliggjandi með COVID-19 og búið er að bólusetja langt yfir 90% þeirra sem eru 70 ára og eldri líkt og sóttvarnalæknir bendir á en hann leggur þó áherslu á að fara beri hægt í að aflétta takmörkunum meðan verið sá að ná góðum tökum á smitum á landamærum og fjölga í hópi bólusettra.
Helstu breytingar á almennum samkomutakmörkunum:
Í meginatriðum verður um sambærilegar takmarkanir að ræða á samkomum og giltu frá 5. febrúar síðastliðnum. Minnt er á mikilvægi þess að fólk gæti vel að sóttvörnum og fylgi reglum.
- Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
- Sund- og baðstöðum og heilsu- og líkamsræktarstöðvum heimilt að opna fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta, auk annarra skilyrða.
- Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna með og án snertinga í öllum íþróttum heimilar, án áhorfenda. Hámarksfjöldi fullorðinna verður 50 manns en fjöldi barna fer eftir sömu takmörkunum og í skólastarfi.
- Skíðasvæðum heimilt að taka á móti 50% af hámarksfjölda móttökugetu hvers svæðis.
- Sviðlistir, þar með talið kórastarf, heimilar með allt að 50 manns á sviði og 100 sitjandi gestum í hverju hólfi, auk annarra skilyrða.
- Hámarksfjöldi við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga áfram 30 manns en fjölgar í 100 manns við útfarir.
- Öllum verslunum heimilt að taka á móti 5 viðskiptavinum á hverja 10 m², þó að hámarki 100 manns, auk 20 starfsmanna í sama rými og viðskiptavinir.
- Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum heimilt að hafa opið með sömu skilyrðum og veitingastöðum þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar.
- Verklegt ökunám og flugnám með kennara heimilt.
Breytingar í skólastarfi:
Heilbrigðisráðuneytið vinnur að gerð nýrrar reglugerðar um takmörkun á skólastarfi frá 15. apríl í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Í meginatriðum verða gildandi reglur óbreyttar nema hvað nálægðarmörk verða 1 metri í stað 2 og leik- og grunnskólabörnum verður heimilt að stunda íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf.