Mikil ánægja er meðal forsvarsmanna Síldarminjasafnsins með tólf prósent aukningu í gestafjölda fyrstu sex mánuði ársins, miðað við sama tímabil í fyrra.
Sú mikla breyting hefur orðið á undanförnum árum að gestir heimsækja nú safnið allan ársins hring. Vetrarferðamennska á staðnum hefur tekið stakkaskiptum í kjölfar opnunar Héðinsfjarðargangna og má til gamans geta að fyrir tíu árum síðan, árið áður en göngin opnuðu, voru gestir safnsins fyrstu sex mánuði ársins tæplega 200% færri en þeir eru nú.
Gistimöguleikum hefur fjölgað svo um munar á Siglufirði, mikil flóra veitingastaða er á staðnum, frábær aðstaða til skíðaiðkunar og annarrar útivistar dregur að ferðafólk allan ársins hring, auk þess sem söfn og setur á staðnum eru mikið aðdráttarafl.