Í byrjun júní kemur út ný hljómplata frá bassaleikaranum Sigmari Þór Matthíassyni en platan er gefin út af Reykjavík Record Shop. Af því tilefni blæs Sigmar og hljómsveit hans til tónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði miðvikudagskvöldið 9.júní kl.21:00. Tekið er við frjálsum framlögum við innganginn.

Á plötunni, sem ber titilinn Meridian Metaphor, kveður við nýjan tón í lagasmíðum Sigmars en tónlistin er undir miklum áhrifum frá austrænni heimstónlist sem blandast við nútímalegan jazz á áhugaverðan hátt. Kveikjan að verkefninu var samstarf og vinátta Sigmars við tónlistarmenn sem hann kynntist á námsárum sínum í New York borg, þá Taulant Mehmeti frá Kosovo og Ayman Boujlida frá Túnis.

Þannig má segja að áhrifa gæti bæði úr austri og vestri þar sem Sigmar bregður upp einskonar tón-myndlíkingum með fjölbreyttum skírskotunum í fólk, staði og upplifanir sem hafa mótað hann í gegnum tíðina.

Ásgeir Ásgeirsson – oud
Haukur Gröndal – klarinett
Ingi Bjarni Skúlason – píanó
Matthías Hemstock – trommur
Sigmar Þór Matthíasson – kontrabassi