Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.
Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).
Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.
Tónleikar með öllu
Óskalög sjómanna voru kærkomin liður í dagskrá Ríkisútvarpsins. Fólk um allt land sendi sínum kæru kveðjur með óskalagi. Þessi þáttur var alltaf skömmu eftir hádegi, ef ég man rétt.
Ofan við húsaröðina ofan við Hvanneyrarbrautina, rétt ofan við hús Valda á Grund, voru nokkrir kofar, sem krakkarnir baukuðu við að reisa. Þetta voru nýbyggingar sem byggingarnefnd hafði aldrei fjallað um, en í augum okkar krakkanna var þetta nýja hverfi bara fínt í alla staði. Þarna fóru fram allskonar leikir og gaman. Við reyndum að líkja eftir hinu samfélaginu, þess sem fullorðna fólkið réði yfir. Við stofnuðum sjoppu og seldum sælgæti. Gosdrykkir voru framleiddir á staðnum. Stundum var það berjasaft, sem einhver hafði fengið heima, sem svo var blönduð með sykurfufti úr poka sem hægt var að kaupa í Versló. Við kölluðum þetta bara “drykk”, sem átti að setja út í vatn og þá líktist það gosdrykk. Sælgætið var keypt í búð. Lakkrísbitar voru skornir í tvennt og seldir á sama verði og heilir. Súkkulaðibitar og hálfar kexkökur. Allt var þetta á tvöföldu verði, að minnsta kosti. Ágóðinn af þessari starfsemi var heldur rýr, en það var ekki álagningunni að kenna, heldur því að viðskiptavinirnir voru fáir og margir komu auralitlir eða auralausir. Til þess að auka ágóðann og ekki síst aðsóknina auglýstum við einn dag tónleika í garðinum hjá Elíasi. Stundin rann upp og útvarpið var stillt á Óskalög sjómanna og krakkar fóru að koma. Sumir fóru strax heim til þess að biðja um pening og komu brosandi aftur.
Þegar Óskalögum sjómanna lauk tók Elías upp nikkuna og spilaði allan sjómannaþáttinn frá upphafi til enda. Krakkarnir fögnuðu og viðskiptin voru hin allra bestu þetta sumarið. Það var greinilegt að þarna var Elías komin á tónlistarbrautina, braut sem hann hefur aldrei farið út af.
Á sjó – Þorvaldur okkar
Forsíðumynd/Einar Albertsson