Vibekka Arnardóttir leikskólakennari á leikskólanum Leikskálum á Siglufirði sendir okkur stundum skemmtilegar frásagnir og myndir af lífinu hjá þeim. Í gær, fimmtudaginn 14. júlí sendi hún þessa frásögn:

Í einni gönguferðinni um daginn fórum við niður á bryggju. Við bryggjuna var skemmtiferðaskipið Ocean Diamond.

Í hópnum heyrðist “erum við að fara að skoða skipið”? En klukkan var orðin 11 og við orðin of sein að athuga hvort við mættum fara um borð.

Við hittum svo Leno Passaro hafnarvörð og spurðum hann hvort það væri möguleiki að fá að skoða skipið næst þegar það kæmi og hann sagðist ætla að skoða það.

Anita Elefsen hafði svo samband við okkur og sagði okkur að leyfi væri fengið ég þyrfti bara að senda henni nafnalista.

Og í dag var sko mikil ævintýraferð sem við fórum í.

Það var komið og tekið á móti okkur við landganginn, farið yfir nokkrar reglur og hengdur passi á mig og Bellu svo allir vissu að við værum lögleg um borð.

Við vorum lóðsuð um allt skipið og sagt frá hvað væri á hverjum stað, sundlaug á þilfarinu, æfingasalur, margir veitingasalir, bókasafn, bíósalur, barir, herbergi sem fólk gistir í og fleira og fleira.

Það var komið fram við okkur og börnin eins og prinsa og prinsessur og vorum við dekruð í 1 og ½ klukkutíma.

Þegar við fórum upp í brú þá tók skipstjórinn vel á móti okkur, leyfði öllum sem vildu að koma við stýrið og reyna að koma kompásnum á 0 og svo lyfti hann þeim til að leyfa þeim að skoða í stóra kíkinn í brúnni.

Í einum veitingasalnum var okkur þjónað til borðs þar sem borið var fram heitt súkkulaði, smákökur og svo ís í skálum og dinnermúsík spiluð fyrir okkur.

Rétt í lokin sungum við svo nokkur lög við undirspil píanóleikara skipsins.

Trölli.is þakkar Vibekku fyrir þessa skemmtilegu frásögn.

Myndir/aðsendar