Þátturinn Tíu Dropar fellur niður í dag, annan sunnudaginn í röð.

Það eru Tröllahjónin, Gunnar Smári Helgason og Kristín Sigurjónsdóttir sem stjórna þættinum, en eins og áður segir verður ekki þáttur í dag.

Ástæða þess að þátturinn fellur niður er sú að annar þáttastjórnenda, Gunnar Smári Helgason lenti í slysi fyrir rúmri viku er hann var að vinna við tæknilega útfærslu á veðurstöð sem hann er að hanna, og liggur Gunnar nú á Hospital Insular sjúkarhúsinu í Las Palmas.

Gunnar Smári varð fyrir því óláni að falla 2,5 metra aftur fyrir sig niður klett við helli þeirra hjóna í Angostura gljúfri á Kanarí.

Hlaut hann nokkur beinbrot og meiðsl, bæði innvortis og útvortis, hefur meðal annars þurft að undirgangast aðgerð á öxl.

Honum líður eftir atvikum og getur ekki beðið eftir því að komast í hellinn á ný, eins og sjá má á vísunum sem hann orti svefnlaus í nótt.

Í lyfjamóki ligg ég hér
leiður, brotinn, stúrinn
er héðan slepp ég hugsa mér
að hald´ áfram með skúrinn

Hugsa upp í hellinn minn
þar fæst við hitt og þetta
þér ég lofa Drottinn minn
að hætta nú að detta

Gunnar fylgist grannt með gangi mála frá sjúkrahúsinu, en veðurlýsing verður að bíða enn um sinn.

Gunnar Smári biður fyrir góðar kveðjur til vina, vandamanna og hlustenda þáttarins.