VARÚÐ! Það eru svo sterk og heit orð í þessum pistli að þú gætir þurft 60 kg af sól-gleraugum!

Forsíðumyndin er af Guðmundi Góða (Kristjánssyni) en hann var svo sannarlega einn af mörgum öðruvísi Siglfirðingum.
Meira um hann seinna.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Þarna lengst úti á hrikalegum Tröllaskaganum er okkar fagri fjörður, falinn á milli hárra fjalla.
Svo vel falinn, að það þarf að bora tvö göt á fjöllin til að komast þangað úr sitt hvorri áttinni. Okkur vantar reyndar í rauninni minnst eitt gat í viðbót… helst tvö, því Ólafsfirðingar eru líka Fjallabyggðabúar og þeir vilja líka komast heim til sín og gjarnan fá vini sína í heimsókn.

Fjallabyggð er mér og greinilega mörgum öðrum kær, við skiptumst á að reita af okkur sögur og skiptast á ljósmyndum úr horfnum heimi. Þessi pistla skrif mín sköpuðust eftir samtal við Siglfirska frænku og byrjaði í spurningu minni og svari hennar sem kom mér á óvart.

Fannst þér ekki gaman að lesa söguna frá Leó Óla um kleinurnar hans Gústa Guðsmanns ?
Jú, jú, hún var fín og skemmtileg, en ég er bara orðin svo leið á öllum þessum sögum um Gústa.

Því þessi fjörður var fullur af öðru merkilegu fólki og snillingum sem aldrei er talað um!

Skrítið að þú segir þetta frænka, því bara núna um daginn var ég eitthvað að segja vini mínum frá allskyns merkilegum Siglfirðingum og þegar ég nefni nafnið Guðmundur Góði þá slengdi hann út úr sér undrandi… “Það er ekki nóg að þið séu með þennan heimsfræga Gústa Guðsmann… ha, svo eruð þið með einhvern Guðmund Góða líka.”

Ég reyndi að malda í móinn og benda á að þetta væri nú ekki alveg rétt hjá frænku, því að t.d. skrifaði Örlygur Kristfinns skemmtilega bók um merkilega Siglufjarðar karaktera sem heitir Svipmyndir úr síldarfirði og hana getur þú hlustað á í Story Tell app núna minnir mig og síðan bætti ég við, máli mínu til stuðnings… svo er til fullt af öðrum skemmtisögum.

Tóti í Ljóðasafninu hefur gefið út mörg hefti með Sigló-gamansögum. Í Siglfirðingablaðinu er hellingur af svona sögum, á Sigló.is og á bloggsíðum Steingríms og Leó Óla og núna hátt í 200 sögur á trölli.is.

Já, en ég bý ekki í bænum Nonni, maður þarf að finna þetta og já, þú hefur reyndar verið natinn við að minna á þetta efni í þínum Siglóminningamyndasögum.

Já, en ég bý ekki heldur í bænum… ekki á landinu heldur svara ég og minni líka á að ég hef tekið saman ýmislegt um einkennilega og skemmtilega karaktera, einn kaflinn af 10 í Göngutúrar um heimahaga seríunni heitir reyndar LITRÍKIR KARAKTERAR og þar er fullt af ljósmyndum og minningum af okkur kæru fólki.
Svo gerði ég reyndar heiðarlega tilraun að vekja athygli á núlifandi Siglfirskum Snillingum bæjarins í greinaseríu eins og t.d.:

Snillingar bæjarins! Steingrímur

Snillingar bæjarins! Bátasmiðurinn Njörður

Snillingar bæjarins! Constantín

Snillingar bæjarins! Jón Steinar setur lit á bæinn

Það er hins vegar rétt hjá frænku að það er ekkert svo auðvelt að finna áður birt Siglfirskt sögu efni á gömlum heimasíðum og á heimasíðu Síldarminjasafni Ísland er aðeins vísað í “lítið eigið valið úrval af síldarsögum. Þetta áhugamanna sögusagnaform virðist ekki vera hátt skrifað sum staðar.

Sumir telja því miður að allt sem komið er á netið sé sjálfkrafa almenningseign. Sem er að vissu leyti rétt því efnið er þá alla vega gert aðgengilegt og oftast ókeypis fyrir alla sem hafa áhuga á að lesa og grúska, en margir “gleyma” því miður alltof oft að nefna bæði myndasmiði og nöfn á sögumönnunum/konunum sem lögðu tíma og vinnu í að setja saman efnið og skanna myndir o.fl.

Með þessu deilinga-ÆÐI eru SUMIR, óvart eða hugsunarlaust eigna sjálfum sér söguefni og sjálfboðavinnu annarra. Það eru þarna líka leiðinlegar lagaspurningar, annars heitir þessi hegðuð hreinlega dónaskapur á venjulegu mannamáli.

Það er reyndar augljóst fyrir mér og mörgum öðrum og ég hef reyndar rætt þetta við vissa aðila að það væri æskilegt að til sé einhvers staðar safnsíða með slóðum sem vísa í allar þær áhugamanna síldar og Siglósagnasögur sem nú þegar eru bitar. Sumt efni er nú þegar horfið af netinu og það sem ég kalla, STAFRÆNAR FORNMINJAR er veruleiki sem er alvarlegur… það tínast daglega sögur og myndir í miklu magni.

Mörgu er hreinlega hent á haugana, en jafnvel þar, á sjálfum haugunum, höfum við alþýðufólk sem bjargar bæði munum og SÖGUM.

Stafrænar fornminjar 

Það er sama hvernig maður lítur á þetta og þó svo að “sumir líti niður til” þessa nýja áhugamanna frásagnaforms er það augljóst að OKKAR saga verður ekki bara sögð af “viðurkenndum sjálfútnefndum fræðimönnum” sem liggja yfir skruddum á bókasöfnum og ryksuga netið og raða upp efni sem aðrir hafa nú þegar skrifað.

Úr þessu gamaldags sagnfræði grúski kemur í rauninni sjaldan eitthvað nýtt til sögunnar og það hefur lengi verið augljóst fyrir mér og greinilega líka fyrir 3.400 öðrum meðlimum í Siglfirðingar fyrr og nú- sögur og myndir MARGIR eru sameiginlega stanslaust að bæta við í söguna. Það birtast þarna nær daglega ótrúlega sögulega merkilegar ljósmyndir oftast með tilheyrandi sögum af venjulegu hörkuduglegu vinnandi alþýðufólki með tilheyrandi sögum, um jafnt sorg sem dans og gleði.

Fræðingar, jafnt sjálfútnefndir sem lærðir, sem eru fastir í sínu ” bóka” og “safna” forneskjugrúski eiga það á hættu í þeirri staðreynd sem fylgir þeirri nútímatækni sem við lifum í að hreinlega missa af því að eldri almennir borgarar og aðrir venjulegir dauðlegir Jónar eru daglega að bæta við merkilegum SÖNNUM heimildum um okkar sameiginlegu sögu og sannleikurinn um LÍFIÐ Á SIGLÓ mun ekki og hefur aldrei í rauninni komið bara úr gömlum bókum. Það er ekki til nein reglugerð fyrir því hvernig fólk Á að segja sögur og engum einum gefið að ákveða það eða ráðskast með í hvaða söguformastíl sagan á að koma úr munninum á almenningi… eða hvar og hvernig þær birtast.

Nei, því sagan sem kemur úr t.d. grínsögum, bæjarrevíutextum, gömlu skemmtiefni frá árshátíðum fyrirtækja og félagasamtaka er að öllum líkindum SANNARI og sögð í meiri hreinskilni en ævisögur um fræga forstjóra. Þeir fæddust margir inn í gefinn ættarframa og sumir voru mataðir með silfurteskeið frá fæðingu og svona sögur tala bara ekki til mín af þeirri einu ástæðu að sagan, ferillinn og endalokin eru gefin og augljós frá fæðingu til dauða.

Þá vill ég frekar vita meira um hana “Möggu sem býr í bragga og á ekki fyrir olíu og er alveg, staur.”
Mig langar til að vita hvaðan hún kom, áður en hún bjó í þessum kalda “BRAKKA” Hvað var hún að hugsa, hvað var hennar eina björgun, draumar og von.

Mér líður einkennilega oft eins og það sé til einhverskonar gamaldags sögu “Elít-ismi” Lítill ósýnilegur geiri sem tekur það að sér að lyfta fram sjálfum sér og sínum verkum og öðrum í sínum útvalda vinahópi. Bara þeir kunna þessa sögu og geta sagt hana RÉTT.
Samtímis velja þeir inn það sem þeim finnst duga en eru síðan duglegir líka við að velja burt annað, sem virðist vera nokkurn veginn ALLT sem kemur í gegnum netskrif.

Einkennilegt!

Mig langar stundum hreinlega til hrista vit í suma “fræðinga” og hrópa að honum, já þetta er oftast hrokafullur HANN:

VAKNAÐU! Opnaðu augun, sjáðu hér:
SÍLD, SÍLD, það er komin sögu-síld í land og nýtt fólk og nýjar sögur í fjörðinn og VIÐ hin erum DAGLEGA að segja þessa merkilegu sögu saman, beint fyrir framan nefið á þér.

Ah..það les engin þessar aumu “alþýðu amatör sögur”
Ég nenni vart að svara en:
Komdu nær og hallaðu hausnum aðeins meira fram á við, svo að það rigni ekki svona mikið upp í nefið á ÞÉR. Þú heldur að bara þú og nokkrir aðrir þér líkir eigi þessa sögu og að bara þú og þeir getir sagt þetta allt saman RÉTT.

Það eina sem dugir hjá þessum “stafrænu eftirlegukindum” er að anda inn rykir úr gömlum bókum og endursegja sögur sem allir eru fyrir löngu búnir að heyra… þeir koma sjaldan með eitthvað nýtt inn í söguna… ÚPS!

Síðan bæti ég bara sallarólegur við og segi við hann. Lestu þetta og pældu aðeins í þessu:

SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“ og bæti síðan við… og þetta sem þú sagðir:
Það les þetta enginn!
Þar hefur þú alvarlega RANGT fyrir þér, því lesendur skipta ÞÚSUNDUM, en það er ekki aðalatriðið að telja það, því það sem skiptir mestu máli er að segja söguna OKKAR saman, hver með sínu nefi og að halda henni lifandi.

Verst af öllu er þó að fá yfir sig svona staðhæfingar, eins og þessa hér neðar. Gerist sem betur sjaldan en eitt skipti er reyndar of oft.
Stundum detta úr úr kjaftinum á fólki sem kannski er búið að sækja of mikið hugrekki og anda úr “meðalaglösum” eins og í denn, gegnu litla leynisölulúgu á Schiötara apótekinu gamla góða.

Úr því húsi kemur þó bara góður andi í dag og hafsjór af skemmtilegum Siglfirskum sögum frá núverandi húseiganda.

En þetta….
… Af hverju ert þú?
Einhver sænskur hálfviti, sem býr ekki í bænum og ekki einu sinni á landinu, að skipta þér af okkar sögu og málefnum????

Hvernig á maður að svara þessu?
Er þetta svara vert?
Nei og ég mun auðvitað ALDREI hætta að vera Siglfirðingur eða leggja mig svo lágt að biðjast afsökunar fyrir að vera það.
Ég er rétt eins og þúsundir annarra með mitt hjarta í réttum firði og ég á mér margar dásamlegar æskuminninga sögur og minninga-ljósmyndir þaðan. Sem mér finnst gaman að skrifa um og birta ókeypis á netinu.

Sögur og myndasyrpur frá þessum firði og hans sögu sem enginn einn á.
Þar var og er enn lífið, eitthvað svo einkennilega ÖÐRUVÍSI.

Eða á ég kannski að útskýra þetta betur og segja:

Fyrirgefðu, ég er bara svona lagður, skrítinn sögumaður sem kann ekki að halda kj.. fékk þessa söguáráttu í fæðingargjöf frá afa Pétri Bald. Sem betur fer virðist mér þetta vera mjög svo algengur Siglfirskur fæðingargalli, því ég er greinilega ekki einn í þessu, eða hvað?
Kannski er ég sjálfur, óvart orðin einn af mörgum öðruvísi Siglfirðingum, eins og þeir sem ég er að skrifa um og minna á núna.

Af fenginni reynslu í fyrra er það ljóst að virðing fyrir ritstörfum kemur eingöngu úr bókum, en þetta eina sanna sagnaform er á undanhaldi, við lesum bækur meira í gegnum eyrun en augun í dag og líka gegnum NETIÐ.
Það skrítna er, og þetta er svolítið fyndið, er að þú getur bara gerst meðlimur í Rithöfundasambandi Íslands ef þú hefur gefið út minnst tvær bækur.

Áhugasögu netskrifarar gætu reyndar léttilega, margir hverjir skrifað út efnið sitt og mætt á skrifstofu sambandsins með 60 kg bók fulla af sólskinssögum og spurt: “Má-évar-mem?”

Nei, svarar elskulegur starfsmaður, þetta er bara ein bók.
Svo fór netskrifarinn heim og sagaði bókina í tvennt og mæti daginn eftir tvær 30 kílóa bækur.
Dugir þetta?
Tja… þetta eru vissulega tvær bækur en samt ekki alvöru bækur….

Ef við myndum bæta við þessa áður nefndu 60 kg sögu og skrifa allt út á pappír , allt netsöguefni sem t.d Steingrímur Kristinsson og Leó Ólason hafa skrifað og skráð í áratuga sjálfboða SIGLÓ-söguskráningarsjálfboðavinnu….

Myndi þetta verða minnst tveggja tonna doðrantur, fullur af Siglósólskyns sögum og líklega yrði lyftari að fylgja með bókinni og kannski myndu fylgja leiðbeiningar frá höfundum um að best sé að lána lagerpláss í Mjölhúsinu hans Robba Guðfinns fyrir lestur.

ENGINN af okkur netsögu mönnum hefur í rauninni áhuga á verða kallaðir rithöfundar, við göngum ekki með svoleiðis drauma í maganum. Við erum SÖGU-menn og konur og misskildir netflækingar eins og Sölvi Helgason, sem var svo langt á undan sinni eigin samtíð að það skildu hann fáir og hann passaði hvergi inn… við sjáum ekki snilldina í hans hugsunum, orðum og verkum fyrr en núna.

Alþýða Íslands og annað vellesið, ómenntað, fátækt, venjulegt fólk, skildi og elskaði þennan mann best og mest.

…. Klæðalítill, fátækur
á köldum Íslandsströndum
Hann kemur fram í huga okkar enn…

Ég vil samt undirstrika að sumar sögur gera sig best í bókaformi. Eins og t.d. hin stórkostlega saga sem sögusnillingurinn Hallgrímur Helgason, er að segja okkur í dag. Auðvitað er það augljóst að hann sækir sér innblástur úr ýmsum söguáttum, hvað annað getur hann gert.
En hann sem er EKKI fæddur í okkar fagra firði og hefur aldrei búið þar er að segja okkur okkar sína eigin SKÁLDsögu sem hann syngur svo hátt og fallega með sínu dásamlega stórskálda sagnanefi.

Mér líður eins og smákrakka sem getur ekki beðið eftir jólunum, mig langar til að hringja í Hallgrím og segja:
Geturðu ekki drifið þig í þessu maður, mér er hreinlega illt í öllum kropnum af eftirvæntingu og ég get bara ekki beðið efir næsta kafla…

En ég hugsa þetta bara fyrir sjálfan mig!
Því það hvarflar ekki að mér að hringja og reka á á eftir honum og samtímis bæta við…. já by the way! Ekki gleyma hinu og þessu… og hafðu líka með næst ???, þú gleymdir því síðast og þetta með ??? var nú ekki alveg rétt sagt hjá þér….

Nei, aldrei að ég leggist svo lágt, hann verður að fá að gera þetta eins og hann vill… ég skil bara ekki hvernig hann þekkir MIG og fólkið mitt svona vel…. því hann segir svo ótrúlega spennandi og SANNA sögu um lífið á Sigló og hann af öllum má svo sannarlega sækja sér innblástur í hverju sem er sem ég hef minnst á og birt því ég sjálfur á í rauninni ekkert svo mikið í sögunum mínum. Sögurnar eiga sig sjálfar og fólkið í sögunum sem skapaði mitt og okkar allra, seinnitíma umhverfi á þær mest.

Einu skiptinn sem mér finnst ég hafa einhverskonar Guðdómlegt vald að skipa öðrum fyrir verkum og ráða yfir hvað fólk segir, gerir eða hugsar, er þegar ég skrifa mínar eigin Siglufjarðar smásöguskáldsögur. Þar hefur engin af mínum sögupersónum kosningarétt um eitt eða neitt.

Að ég sjálfur og svo margir aðrir sem hafa lesið 60 kg af sólskyni þekki sig og sína í orðum Hallgríms kemur auðvitað úr þeirri staðreynd að þessi maður er sögusnillingur og einn sá besti rithöfundur sem Ísland og heimurinn á í dag og ég er svo óendanlega stoltur og þakklátur yfir því að Hallgrímur hafi áhuga á lífi okkar, sögu og umhverfi.

Aldrei áður í mannkynssögunni hafa þessir möguleikar að ALLIR geti sagt sína sögu, eða möguleikinn til að bæta í OKKAR sameiginlega ljósmynda og sögufjársjóð, hver og einn/ein af okkur, eftir sinni eigin getur og sögunefi, verið til staðar.

Tími rándýrra PRENTAÐRA ORÐA er liðinn, að tjá sig og að segja sína sögu í bókaformi var FÁUM gefið.

Í bókaútgefandageiranum sátu líka oft Menntasnobbsmafíu gaurar og sorteruðu burt heimspeki og sögur alþýðu Ísland.

Í rauninni nægir það mér að hafa kannski bara vakið upp minningamyndir í einu gömlu Siglfirsku hjarta og það gleður mig óendanlega og eflir mig í að halda áfram að skrifa, að oft fæ ég stutta kveðju frá t.d. eldri konu sem situr úti á svölunum sínum úti á Spáni.

Hún eyðir þar sínum síðustu ævidögum og ferðast mest í huganum í sólstólnum sínum með Ipaddinn sinn í hendinni.
Skoðar myndir og les sögur, brosir, hlær og fellir stundum tár þegar hún í sögunni hverfur inn í sinn eigin söknuð og minningar um liðinn tíma og láta vini sem aldrei koma til baka til hennar… nema í sögum gegnum netið.

Þetta gamla hjarta sem mér tókst að gleðja smástund, er ekkert endilega fætt á Siglufirði, því það eru svo óteljandi margir aðrir sem hafa hug sinn og hjarta í endalausum minningum sem tengjast þessum fagra firði gegnum vinnu, ást, dans, gleði… og sorg.

Síðan er það auðvitað ótrúlega gleðjandi að sjá viðbrögð fólks og áhuga á t.d ljósmynda-listaverkum Hannesar Bald, þeim sögum, 1 og 2 hluta hefur nú verið deilt yfir 1.600 sinnum og það sýnir okkur hvað fólki fannst þetta flottar Siglfirskar myndir og sagan í einmitt myndunum sjálfum, einum og sér, er líka svo augljós og STÓR.

Þar fyrir utan, núna nýlega sat ég lengi í sögusköpun og myndvinnslu í samvinnu við annan frábæran ljósmyndara. Hugsið ykkur krakkar, hann er 87 ára og enn að taka Sigló myndir fyrir OKKUR. Ótrúlegur karakter og virkilega einn af mörgum öðruvísi Siglfirðingum. Ég sjálfur varð ekkert hissa á að myndasyrpusaga um góða vini um borð í tankskipi myndi fara svona víða, hafði fyrir löngu síðan flett mig í gegnu 3000 myndir og tók mér það bessaleyfi að velja út 70 myndir og segja söguna með eigin nefi gegnum dásamlega ljósmyndir meistara Steingríms og honum fannst þetta rosalega gaman því hann var ekki bara að taka myndir, hann var timburmaður líka á Haferninum í nokkur ár.

Strax eftir birtingu og yfir 900 deilingar bárust mér margar ákaflega áhugaverðar viðbóta upplýsingar og þar kemur það sér vel að mitt efni er ekki prentað…. ég hef fullt vald til þess að bæta við söguna og ef eitthvað er rangt þá get ég líka lagað það á 1 mínútu.

Mér líður oft þannig að þegar ég skrifa mínar netsögur og vinn ljósmyndir að ég sé aleinn á söguárabát út á firði. Svo þegar ég er loksins kominn að bryggju og sagan er komin í loftið, þá fyrst byrjar skemmtilegt bryggjuball á netinu…. fullt af skemmtilegu fólki fer allt í einu að dansa með mér síldarsöguvalsa gegnum netið, en við erum samt fæst af okkur stödd á Siglfirskri bryggju í blanka logni… nei… þarna á þessu NETBRYGGJUBALLI eru óteljandi Siglfirskir HEIMSBORGARAR og þeir eru víst samanlagt, samkvæmt áráðannlegum heimildum miklu fleiri en allir Íslendingar.

Það er akkúrat þetta sem ég meina þegar ég segi í áframhaldandi spjalli við Siglófrænkuna mína:
Kæra frænka!

Við erum ÖLL að skrifa þessa sérstöku Siglfirsku sögu saman, því okkur finnst þetta svo gaman.

Talandi um öðruvísi fólk.
Þá var það reyndar þannig að mig langaði mest til að hafa þessa stórkostlegu ljósmynd sem forsíðumynd á sögunni um Haförninn.

En þá hefði sagan orðið að heita Siggi á Eyri sem er með eindæmum dásamlega skemmtilegur og sögufrægur Siglfirskur karakter. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Sjálfur skrifa ég mest minningasögur tengdum Siglufirði og Héðinsfirði. Einfaldlega vegna þess að þar sleit ég mínum barnaskóm og mest lítið í hinum fagra Ólafsfirði þrátt fyrir að ég ætti þar ætíð marga ættingja og góða vini. Ég þekki reyndar alla sem búa í Héðinsfirði og er skyldur þeim öllum. Þegar ég er staddur í þeim friði hvísla góðhjartaðir draugar að mér sögum úr horfinn tíð. Ef þú slekkur á Spotify, smástund, þá geturðu heyrt þessar sögur líka.

Síðan hef ég slitið mörgum fullorðinspörum af skóm í yfir 30 ár á vesturströnd Svíþjóðar. Hitt þar og spjallað mikið við öðruvísi alvöru fólk sem man eftir síldveiðum við Íslandsstrendur og allir höfuð þeir komið heim á Sigló og kunnu margar sögur sem ég hef fengið að endursegja ykkur á íslensku um ævintýralega upplifun þeirra í firðinum fagra sem hingað til var algjörlega óþekkt hliðarspor í síldarsögunni.

Þeir kunnu allir með tölu akkúrat ENGA sögu um Reykjavík… af hverju ekki?

Þeir höfðu einfaldlega EKKERT að sækja í þessa svokölluðu höfuðborg Íslands og fannst bara miklu skemmtilegra að vera í SÍLDAR-sjávarþorpahöfuðborg heimsins fyrir norðan.

En talandi um Ólafsfjörð og slæmar þátíða samgöngur sem buðu því miður ekki upp á tíðar heimsóknir.

Þrátt fyrir að það sé stutt fyrir fugla að fljúga á milli fjarða og maður gæti hugsað sem svo að þessir tveir firðir ( Sigló og Óló) séu líkir og jafnvel systkini, þá myndaðist svo ótrúlega ólík saga, manna- og menningarlíf í akkúrat þessum tveimur nágrannafjörðum.

Sem dæmi um þessa gömlu skrítnu, fyrir ókunnuga, óskiljanlegu fjarðaraðskilnaðar vetrareinangrun og hvað hún getur skapað, langar mig að segja ykkur stutta sögu:

Ég var eins og alla aðra vetur í Dansskóla Heiðars Ástvald. Akkúrat þennan snjóþunga unglinga- þunglyndis vetur, kynntist ég ungri fallegri dansskólakennaralærlingsstelpu frá Reykjavík.
Að loknum skemmtilegum vangadansi, öll kvöld og nætur, fór hún heim aftur… við grétum bæði, smástund, hún kannski pínu meira en ég.
Við hringdumst á og spjölluðum oft í löngum rándýrum landssímasamtölum.

Dag einn hringir hún glöð og æst í að hittast, því hún var núna með dansnámskeið á Ólafsfirði.

Ég svaraði: Því miður elskan mín, ég kemst bara ekki til þín eins og aðstæður eru núna og ég er ekki mikið fyrir að verða úti á gönguskíðum við það að arka yfir fjöll og firði um miðjan vetur. Ég er vissulega mikið fyrir að fljúga langt á stökkskíðum og ég vildi óska þess að ég gæti stokkið alla leið til Ólafsfjarðar… til þín.. elskan mín.

Henni fannst þetta ekkert fyndið eða krúttlega sagt, upplifði bara mitt elskulega heiðarlega Siglfirska svar sem að ég hefði engan áhuga á henni, svo skellti hún bara á mig.

Þremur dögum seinna hringir hún aftur og er svolítið miður sín:
Æii…fyrirgefðu Nonni minn, nú er ég búin að vera hérna í nokkra sólarhringa og ég skil betur hvað þú meinar… við hittumst samt aldrei aftur.

Sigló er auðvitað í margra augum lítið sjávarþorp, en var á einhvern einkennilegan máta lengi vel líka STÓRBORG samtímis.

Höfuðborg síldarinnar og hún, SÍLDIN sjálf, silfur hafsins, dró til sín allskyns öðruvísi fólk.
Þarna og bara þarna sköpuðust atvinnu og menningarmöguleikar sem eru einstakir í sögu Íslands.

Maðurinn á myndinni hér undir er t.d. gott dæmi um þessa einstöku Siglfirsku einangrunar-menningu sem myndaðist hér í þessum falda fræga firði.

Daníel Þórhallsson og synir hans, Þórhallur Daníelsson og Sigurður Daníelsson

Hugsið ykkur… það er þarna sögufrægur Karlakór norður í rassgati… sem kaupir til sín fræga söngvara eins og knattspyrnulið nútímans kaupa leikmenn í gríð og erg í dag.

Sé þetta alveg fyrir mér:
Daníel minn, segir einhver kórmeðlimur í góðri stöðu hjá t.d. SR verksmiðjunum… drífu þig bara norður og þú færð fína vinnu og góð laun.
Hann, konan hans og börn, bjuggu hér lengi og áttu sér öll langt og virkilega öðruvísi og skemmtilegt líf eins og margir aðrir INNFLUTTIR SIGLFIRSKIR SNILLINGAR.

Þarna komum við kannski að kjarna málsins og þegar ég segi þetta, þá er ég ekki að tala niður til annarra venjulegra sjávarþorpa eða upphefja Siglfirðinga upp til skýja sem reyndar bjuggu, allir með tölu í belg og biðu í merkilegu STÓR-borgar-þorpi.

Við erum flest INNFLUTT og bæði hægt og hratt fer þetta allt saman í einn allsherjar menningarhrærigraut, sem líklega skapar sérstaka þolinmæði og þvingar fram umburðarlyndi í okkur öllum, því annars myndum við ekki lifa þessar öru breytingar af.

Allir verða að venja sig við að hitta, vinna með og búa með kannski fyrir þeim í byrjun einkennilegu/skrítnu fólki og útlendingum í miklu magni. Áhrifaheimur Siglufjarðar er svo stór, miklu stærri en frekar þröngur fjarðakrafturinn sem að öllu jöfnu ætti að skapa þröngsýni og varnar menningu…
…við erum við og þið hin eruð ekkert rosalega velkomin hingað… svona höfum við alltaf gert þetta og vert þú ekkert að koma hingað og setja þig á háan hest og segja okkur eitthvað nýtt um hvernig maður getur gert hlutina eða lifað lífinu…”

En á Siglufirði höfum við ekki efni á því að hugsa svona gamaldags þorparahugsanir, höfum hreinlega ekki tíma til þess heldur.
Síldin bíður og það er einfaldlega ÞÖRF fyrir alla.

Allir eru þess vegna velkomnir og margir aðfluttir sem hafa búið víðs vegar um landið segja að akkúrat á Sigló er maður meira velkominn en annars staðar á landinu.

Það er þarna enn í dag sérstakur og fallegur einstakur og umburðarlyndur sér SIGLFIRSKUR ANDI.

Við frænka förum síðan að skiptast á minningamyndum í huga okkar um Guðmund Góða og tala um hvaðan þetta “fallega” viðurnefni kom.
Okkur minnti báðum að hann sjálfur var svona rétt mátulega hrifin af þessu viðurnefni sem kom eftir að hann gaf barnaskólanum ljósalampann fræga, sem sumum fannst gaman að sitja framan við og ÖÐRUM EKKI.

Frænka flutti úr bænum löngu á undan mér og ég gat sagt henni söguna um undrun bæjarbúa þegar Guðmundur Góði allt í einu birtist í bænum á þessum líka forláta Citroen bil.

Citroën DS 20, Baujahr 1974, 4-Zylinder-Motor, 1985 cm³, 99 PS bei 5500/min, Höchstgeschwindigkeit 169 km/h (fiktives Kennzeichen)
Sjá meira hér á Wikipedia: Citroen DS

Guðmundur var í rauninni mikil tæki og vélasnillingur, ómissandi fyrir alla báta, skip og hvað sem er sem bilaði hér norður undir heimskautsbaug.

Ég ætla ekki að endursegja ykkur söguna hans Örlygs Kristfinns sem ég las í þriðja skiptið í bókinni Svipmyndir og Sögur úr Síldarfirði, en þetta eru dásamlegar bækur um virkilega öðruvísi Siglfirskt fólk sem okkur í rauninni, veraldarvönu sjávarþorparstórborgarfólki í rauninni fannst ekkert svo skrítið.
Þið verðið bara að lesa þessa bók sjálf eða hlusta á hana á Story Tell.

Guðmundur var ofan á allt líka misskilinn en góður listamaður, eins og sjá má og lesa um hér:

Hrein og klár heiðríkja
OLÍUMÁLVERK OG SMÍÐISGRIPIR GUÐMUNDUR KRISTJÁNSSON
MBL.IS ágúst 2002 | Myndlist | 611 orð | 1 mynd

og safn minningargreina hjá Steingrími:

Guðmundur Kristjánsson – (1902 – 1994) Guðmundur góði


Við ypptum mest öxlum þegar aðkomufólk eins og lítill drengur sem var í heimsókn hjá ömmu sinni heima á Sigló, sem kom móður og másandi heim: AMMA, AMMA, það er brjálaður öskrandi maður niður á Torgi….
Æi…elskan mín litla, þetta er bara hann Gústi okkar, hann er harmlaus og ákaflega góður maður og svo sagði hún ömmudrengnum sínum það litla sem hún vissi í rauninni um þennan öskrandi skrítna karl, því hún var ekki búinn að lesa bókina sem Sigurður Ægisson lagði 18 ár í að safna “sannleikanum” um þennan fyrir okkur heilaga Guðsmann.

Þegar amman gat ekki svarað spurningaregni barnsins…
…. en ef hann er svona góður, af hverju er hann þá svona öskrandi reiður… og amma, illa klæddur líka… amma, amma segðu mér, segðu mér… SÖGU.

Síðan skáldar elskuleg amma upp ævisögu Gústa sem hún kann ekki, en hún hefur heyrt ýmislegt út undan sér, frá hinum og þessum og í Siglfirskum velvilja sínum að fá blessað aðkomu barnið að skilja hvað okkur þykir öllum vænt um þennan öskrandi sjómann sem núna stendur sem þögul stytta á Torginu segir hún blessuðu barninu mjög svo sannfærandi Siglfirska SKÁLDsögu um öðruvísi mann.


AÐ LOKUM…. úff…loksins

Við þessi skrif var mér þetta lag með þessum frábæra texta um öðruvísi mann, hann Sölva okkar Helgason og í textanum spyrjum við okkur sjálf spurninga aftur og aftur sem við höfum engin svör við og þá fyllum við bara í allskyns sögur og svör sem okkur finnst passa, en ef við nennum að grúska aðeins og lesa okkur til um staðreyndir, þá sjáum við allt í einu að hann eða hún var snillingur sem okkur fannst misskilja lífið…og hvernig maður á að lifa því.

… EÐA VAR ÞAÐ KANNSKI ÖFUGT?

Sölvi Þór yngri sonur minn er Sænsk/Siglfirskur góður strákur sem fékk þetta snillinga Sölva nafn frá móður afa sínum sem fékk það frá einmitt þessum fræga Sölva (Sólon Íslandus)

P.s. Svo bjó líka annað landsþekkt misskilið stórskál á Sigló í um 2 ár. En það var hann MEGAS og við guttarnir kynnumst honum á einkatónleikum í bankaskotinu og svo skiptumst við á við lögguna að drösla honum heim í litla húsið við Lindargötuna.

P.s. P.s.
Þessi saga OKKAR verður sögð með eða án þeirra sem þykjast vita best hvernig á að gera þetta RÉTT… því VIÐ hin, höldum bara okkar striki. Því sannleikur í sögunni liggur í að ÞÚ manst þetta svona… og ÉG svona… Þinn sannleikur og þín saga er hvorki réttari eða rangari en mín.
Þinn sannleikur fyllir upp í mína sögu og gefur mér ný sjónarmið…

… svona…🤔 hmm…já, alveg rétt … það er líka hægt að sjá þetta allt saman SVONA LÍKA.

Youtube, Mannakorn:
SÖLVI HELGASON


Hver var það sem hló
Að sínum litíð sigldu löndum
Sem skildu ekki skáld og förumenn
Klæðalítill, fátækur
á köldum Íslandsströndum
Hann kemur fram í huga okkar enn

Var hann helgur maður
Eða latur flækings hundur
Var hann sendur til að vekja nýja von
Hvað var það, minn kæri
Sem þú vildir okkur segja
þú frægi, skrýtni Sölvi Helgason

Líkt og Kristur forðum
Varstu krossfestur af lýðnum
Sem til leti taldi heimspeki og list
Hög var hönd og hugur þinn
Og að þér hændust börnin
Og marga heita konu fékkstu kysst

Varstu helgur maður
Eða aðeins flækingshundur
Varstu sendur til að vekja nýja von
Hvað var það minn kæri
Sem þú vildir okkur segja,
þú frægi, skrýtni Sölvi Helgason

Oft þú hafðir himininn
Að þaki þínu um nætur
Og þráðir aðeins frelsi og ferða grið
Undir aldrei búandahokri,
Festi hvergi rætur
því hugur stefndi út á önnur svið

Upp til hárra fjalla þar sem
Fálkar einir fljúga
Þú fluttir þína bæn og þína von
Og þó að lýður segði
Að þú þreyttist seint að ljúga
Varstu heill og sannur Sölvi Helgason

Varstu heill og sannur Sölvi Helgason
Varstu heill og sannur Sölvi Helgason
Varstu heill og sannur Sölvi Helgason
Varstu heill og sannur Sölvi Helgason

Credits
Writer(s): Magnús Eiríksson
Lyrics powered by www.musixmatch.com

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Ljósmynd lánuð frá Wikipedia, aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá
 Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Vísað er í ýmsar heimildir gegnum slóðir í pistlinum.

Aðrar sögur, myndasyrpur og pistlar eftir sama höfund finnur þú hér á trölli.is:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON