Gerhard Schmidt eins og hann var jafnan kallaður, var fæddur 14. sept. 1929 í Ronneburg í Thuringenhéraði í Þýzkalandi. Faðir hans sem var vefari og verkstjóri í þess konar verksmiðju, tók ekki í mál að hann stefndi á að verða atvinnutónlistarmaður þrátt fyrir að hann hafi sjálfur starfað sem tónlistarmaður meðfram vefarastörfunum. Það varð því að samkomulagi milli þeirra feðga að Gerhard lærði vefaraiðnina fyrst, en eftir það mætti hann leggja á tónlistarbrautina. Eftir að hann var orðinn löggiltur iðnaðarmaður nam hann við tónlistarskólann í Gera, þá við skólann í Erfurt þar sem hann lauk prófi árið 1954 og að síðustu lauk hann prófi við tónlistarháskólann í Leipzig vorið 1961 með trompet sem aðalhljóðfæri. Í þeim skóla hékk svört auglýsingatafla og einn daginn var þar auglýst eftir tónlistarkennara sem kenna skyldi við tónskólann á Siglufirði, en einnig að stjórna þar lúðrasveit. Mun Óskar Garibaldason að öllum líkindum hafa staðið fyrir auglýsingunni. Hann ræddi við einn kennara sinn sem hafði einnig verið kennari Páls Ísólfssonar og þekkti því eitthvað til landsins af afspurn. Hann sagði að þar byggi gott fólk og örugglega engir Eskimóar og hvatti hann til að fara. Gerhard fór í framhaldinu að íhuga hvort það væri ekki svolítið spennandi að sækja um þetta starf og varð sér úti um allar þær bækur sem hægt var að fá um Ísland, en þær reyndust ekki vera mjög margar á þessum tíma.

Hann kom til Siglufjarðar í október 1961 þá nýorðinn 31 árs gamall ásamt eiginkonu sinni Giselu Elisabeth Frieda Schmidt, og starfaði þar með litlum hléum til ársins 1975. Hann var gríðarlega mikil lyftistöng allri tónlistariðkun á Siglufirði þau ár sem hann bjó nyrðra og stjórnaði m.a. lúðrasveitinni, karlakórnum, kvennakórnum, stóð fyrir uppsetningu á kabarettum og gerðist einnig listrænn stjórnandi og höfundur þeirra að hluta. Hann vann því náið með leikfélagi staðarins auk þess að leika með danshljómsveitinni Gautum og síðar Miðaldamönnum.

Gerhard hlaut íslenskan ríkisborgararétt árið 1966 ásamt konu sinni og var þá gert að taka upp íslenskt nafn sem hann gerði og nefndist eftir það Geirharður Valtýsson samkvæmt opinberum gögnum. Þegar nýja nafnið bar á góma skellti hann yfirleitt upp úr og fannst það í raun alveg óborganlega fyndið.

Gerhard Schmidt lést í Þýskalandi í septembermánuði árið 2010 eftir að hafa átt við veikindi að stríða um nokkurt skeið.

Á þessu ári eru liðin 60 ár síðan Gerhard Walter Schmidt tók við stjórn Karlakórsins Vísis og 62 ár síðan hann kom fyrst til Siglufjarðar.

Ókunnur ljósmyndari – tölvugrafík Leó R. Ólason.

Hitlersæskan og heimstyrjöldin.

Hann hefur líklega ekki verið nema 15 ára gamall þegar það var barið að dyrum á heimili hans í Ronneburg skömmu fyrir stríðslok. Fyrir utan stóðu menn frá þýska hernum sem sögðust vera komnir til að sækja unglinginn Gerhard og koma honum í þjálfunarbúðir Hitlersæskunnar. 

Gerhard sagðist aldrei geta gleymt því sem hann sá og upplifði af þeim hörmungum sem fylgir stríðsrekstri. Hann og vinur hans sem hann hafði þá nýverið eignast eftir stutta þjálfun í búðunum, voru sendir út á akur þar sem sýnt var að Rússneskir skriðdrekar myndu að öllum líkindum sækja fram. Drengirnir voru þar látnir grafa sig niður og vopnaðir með skriðdrekabyssu eða sprengjuvörpu en fengu aðeins eitt skot á mann því birgðastaðan hjá Þjóðverjunum var orðin mjög bágborin þarna þegar var farið að hylla undir lokin hjá þriðja ríkinu. Þeim var sagt að ef skriðdreki nálgaðist áttu þeir að bíða með að skjóta þar til hann væri kominn mjög nálægt, en til að komast í skotstöðu þurftu þeir að standa upp úr holunum til að miða. Þeir urðu því að hitta með þessu eina skoti ef þeir áttu að komast sjálfir af, því ef þeir gerðu það ekki var óvinurinn búinn að koma auga á þá og þeir þar með dauðans matur. Og þar kom að skriðdrekarnir nálguðust eins og við var búist, en vinur hans hafði ekki taugar til að bíða nógu lengi og hleypti af. Hann var of fljótur á sér og missti marks, en það síðasta sem Gerhard vissi var að drekinn breytti lítillega um stefnu og stefndi á holu félaga hans. Þar stoppaði hann með framhluta annars beltisins yfir holunni, setti það í bremsu og snéri sér þar í hring en hélt síðan áfram. „Mér flaug ekki í hug að reyna að skjóta“ sagði Gerhard, ég reyndi bara að gera eins lítið úr mér og ég gat. Þegar hljóð þessara stríðstóla var dáið út skreið hann skelfingu lostinn yfir að næstu holu þar sem skriðdrekinn hafði snúið sér. Þar tók ekki fögur sjón á móti honum því líkamsleifar vinar hans voru þar tættar saman við jarðveginn.

Öðru sinni kom hann ásamt fleirum til að aðgæta loftvarnarbyrgi eftir að gerð hafði verið loftárás. Þegar inn var komið sat þar fjöldi fólks og starði út í tómið eins og í leiðslu og enginn hreyfði sig. Þegar farið var að aðgæta hverju sætti, kom í ljós að enginn þarna inni var á lífi og engu var líkara en höfuð fólksins hefðu sprungið. Hann fékk seinna þær skýringar að sprenging hefði að öllum líkindum orsakað snögga þrýstingsbreytingu eða lofttæmi, en aðkoman var auðvitað skelfilega óhugnanleg. Kannski varð það okkar manni til lífs að hann særðist lítillega og dvaldi því undir lok stríðsins á hersjúkrahúsi.

Að loknu stríðinu tók svo hungur og fátækt við. Gerhard svo og aðrir drengir á hans reki laumuðust að herjeppum bandamanna þar sem oft var að finna heilmiklar birgðir af súkkulaði og ýmsu öðru góðgæti. Þar sem lítið var hugað að því að gæta þess gerðust þeir auðvitað fingralangir og björguðu sér þannig um næringu, en auðvitað vissu hermennirnir af þessu. Þeir kusu hins vegar að líta undan og láta sem þeir tækju ekki eftir neinu. Þetta virtist þannig hafa verið á einhvers konar sálfræðilegum nótum. Þeir átt nóg af öllu en við nánast ekkert, og því var auðvitað fýsilegur kostur að vingast við þá og fylgja þeim jafnvel að málum.

Frá vestrinu og austur fyrir járntjald.

Við stríðslok skiptist Þýskaland í hernámssvæði Breta, Frakka, Bandaríkjamanna og Rússa. Thuringenhérað var framan af hernámssvæði BNA en í einhverjum leynisamningum færðist það undir Rússnesk yfirráð, en vesturveldin fengu Vestur-Berlín í staðinn. Við þessa breytingu færðist fjölskylda Gerhards austur fyrir línuna sem skildi að áhrifasvæði Rússa annars vegar og vesturveldanna hins vegar og var í daglegu tali nefnd Járntjaldið. Þar bjuggu menn hins vegar við takmarkað ferðafrelsi og ekki virðist alveg vera ljóst hvernig unga tónlistamanninum tókst að sleppa vestur fyrir og til Íslands. Einhvern tíma minntist hann eitthvað í þá veru að “góðir kommúnistar” á Íslandi hefðu komið honum til aðstoðar og hló þá við, en rétt er að geta þess að talsverð viðskipti voru milli Íslands og Austur-Þýskalands á þessum árum. Þegar Gerhard hóf störf á Siglufirði störfuðu þar tveir tónlistarskólar, Tónskóli Siglufjarðar og Tónskóli Vísis. Mér virðist hann hafi starfað til að byrja með við Tónskóla Siglufjarðar sem naut styrkja frá verkalýðsfélögunum auk nokkurra dugandi og velviljaðra bakhjarla á Siglufirði, en fyrsta veturinn var Sigursveinn D. Kristinsson kennari þar ásamt honum. Sá skóli geggst einnig fyrir námskeiðum í Ólafsfirði og styrkti bæjarsjóður Ólafsfjarðar þau námskeið að einhverju leyti. Einnig eru sögur af því að hann hafi átt stuttan stans inni á Akureyri á allra fyrstu árunum. Árið 1963 voru tónlistarskólarnir sameinaðir og Gerhard Smith var ráðinn skólastjóri hins nýja skóla, en það ár hóf hann einnig að stjórna karlakórnum Vísi. Aðrir kennarar þá um haustið voru Mohamed Massouidikh og Sigurður Gunnlaugsson.

Hann virðist þó aðeins hafa fengið tímabundið leyfi til dvalar hérna framan af, en að lokum fengu þau hjónin íslenskan ríkisborgararétt 1966 eins og áður sagði. 

Meistari Gerhard með trompetinn. 

Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson/Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Tónskólinn.

Fyrstu kynni mín af þessum fjölhæfa manni komu til eftir að mér tókst að komast að í Tónskólanum á Siglufirði á frekar óhefðbundinn hátt, en á árið 1969 voru einhverjir biðlistar eftir að komast í þann skóla því hann var þá orðinn eini kennarinn þótt það breyttist fljótlega eftir það. Óttar frændi minn Bjarnason síðar bakari á Sauðárkróki hafði þá verið í píanótímum um nokkurt skeið, því foreldrar hans töldu það gera honum gott eitt að læra á eitthvert hljóðfæri. Hann sýndi píanóinu hins vegar lítinn sem engan áhuga, en hafði hins vegar talsverða löngun til að eignast trommusett. Það varð því að samkomulagi okkar á milli að ég gengi einfaldlega í tímana hans, kennarinn virtist sáttur við þessi skipti, afi og amma voru það líka og Óttar keypti trommusettið sem virtist eiga mun betur við hann en slagharpan. Hvort foreldrar hans voru svo alveg jafn sáttir með þessar aðgerðir okkar strákanna veit ég reyndar ekki, en varð samt aldrei var við neitt annað. Gerhard hafði einstakt lag á að kveikja elda á tónlistarsviðinu sem brunnu lengi og hann vakti í mínu tilfelli þann áhuga sem enn er til staðar og er óhætt að fullyrða að hann var ekkert annað en kraftaverkamaður á sínu sviði.

Gisela Elisabeth Frieda Schmidt. 

Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson/Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Með víkingaskipi til fjarlægra landa.

Gerhard hafði einstakt lag á að virkja fólkið í kring um sig. Það segir sig sjálft að ef sá hæfileiki hans hefði ekki verið fyrir hendi, hefði örugglega verið erfitt að koma saman kabarettsýningunum vinsælu snemma á sjöunda áratugnum þar sem karlakórinn, Gautarnir, lúðrasveitin, leikfélagið, kvennakórinn og ýmsir fleiri stóðu að. Þar hélt Gerhard um flest alla þræði, valdi tónlistina, útsetti og átti drjúgan þátt í að skrifa handrit af söguþræðinum sem var reyndar hæfilega lausbeislaður, en fullur að góðum og skemmtilegum hugmyndum. Síðan voru þeir kallaðir til sem sáu um frekari útfærslu texta og annara atriða og auðvitað verður það svo að fylgja að Hafliði Guðmundsson kennari og Halla Haraldsdóttir listakona sáu um að mála hin glæsilegu leiktjöld sem ávalt voru til staðar. Í einum þessara kabaretta var faraskjótinn víkingaskip sem sigldi um heimsins höf, en staldraði við í fjarlægum löndum þar sem áhöfnin gat lent í ýmsum ævintýrum. Þá var gjarnan leikið og sungið lag frá því landi sem stoppað var í hverju sinni og það oft með verulegum tilþrifum. 

Þá fjallaði annar kabarett um himnaríki og helvíti og ýmis samskipti sem þar fóru á milli. Jónas Tryggva lék þá djöfulinn og komst að sögn vægast sagt ákaflega vel frá því hlutverki. eitt skiptið varð Gerhard sér úti um blacklight kastara og málningu sem varð sjálflýsandi þegar slíkt ljós féll á hana. Það var oft haft töluvert fyrir hlutunum og mikið gert út á smáatriðin, en þannig varð líka allt bæði áhrifaríkara og skemmtilegra.

Víkingaskipið sem „ferjaði“ söng og leikhópinn milli staðanna sem staldrað var við á. 
Ljósmyndari óþekktur/Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

“Love is blue”.

Píanótímarnir gengu oftast þannig fyrir sig að ég spilaði lagið sem mér hafði verið sett fyrir í síðasta tíma, en hann hlustaði og handskrifaði í leiðinni annað lag sem ég skildi æfa mig á og læra fyrir næsta tíma. Eitt sinn gekk það einmitt þannig fyrir sig að ég var búinn að komast í gegn um verkefni dagsins en hann var enn að skrifa. Ég var með lag fast í kollinum sem ég hafði heyrt í útvarpinu og hrifist af, en þar sem ég sat við píanóið fór ég að spila melódíuna eftir minni. Það gekk ágætlega þar til í blálokin að vitlaus nóta slæddist inn. Ég reyndi aftur og sagan endurtók sig. Ég sá að kennarinn var orðinn svolítið órólegur í sæti sínu, virtist vera farinn að skrifa hraðar eins og hann vildi flýta sér til að geta sinnt næsta verkefni og gaut til mín augunum eins og hann vildi leggja eitthvað til málanna. Ég byrjaði í þriðja skiptið og sá út undan mér að hann fylgdist vel með. Þegar kom að nótunni sem hafði verið vitlaus, þoldi hann greinilega ekki meira, stökk á fætur og sveif yfir herbergið eins og stangastökkvari, hamraði niður réttu nótuna á lyklaborðið nánast áður en fætur hans námu við gólfið og gekk svo rólega til baka og lauk við að skrifa verkefni næsta tíma. Ég komst síðar að því að lagið hét “Love is blue”, var eftir franska lagasmiðinn André Popp og hafði skorað hátt á vinsældarlistum um allan heim árið 1968 í flutningi hljómsveitar Paul Mauriat.

Að spila eftir eyranu.

Ekki eru allir sammála um hvort eðlilegt og gott sé að tónlistarfólk venji sig á að spila mikið eftir eyranu frekar en af nótum. Ég man eftir því að eitt sinn þegar ég var að spila undir hjá söngvara nokkrum á Hótel Höfn fyrir einhverjum áratugum síðan, kom þar að hljóðfæraleikari úr symfóníunni sem leit á mig og spurði síðan í hneykslunartón og fullur yfirlætis hvar nóturnar mínar væru. Til eru þeir sem ekki geta spilað einföldustu lög nema eftir nótum og svo auðvitað hinir sem spila nánast hvað sem er án þess að hafa nokkurn tíman lært að lesa nótur. Mér er minnisstætt að þegar ég var eitt sinn staddur í afmælisveislu þar sem píanóleikarinn spilaði hvern standardinn eftir annan, en allt eftir nótum og komst mjög vel frá því. En þar kom að veislustjórinn steig fram og sagði „Nú syngjum við öll afmælissönginn“, en það lag er í eðli sínu ekkert mikið flóknara en Gamli Nói. Það kom sér ekki vel fyrir píanóleikarann sem ruglaðist nokkrum sinnum á leiðinni þar sem hann hafði engar nótur af því.

Við Gerhard tókum stundum svolítið spjall saman í tímum og ræddum þá um allt mögulegt milli himins og jarðar. Eitt sinn sagði hann mér frá því að þegar hann var að læra í tónlistarskólanum í Efurt, sóttu nemendur oft krá í nágrenninu og áttu það þá til að taka sér hljóðfæri í hönd og djamma saman uppi á sviði við mikinn fögnuð gestanna. En það var alltaf einn sem varð að hafa nótur og hann átti auðvitað erfitt með að fylgja okkur eftir í spunanum sagði Gerhard og hló við. Þú þarft nefnilega að geta gert bæði sagði hann því annars ertu bara ekki góður bætti hann við.

Gautar 1967 þegar þeir gáfu út fjögurra laga plötu, en myndin var jafnframt notuð framan á plötuumslagið. Talið frá vinstri: Baldvin Júlíusson, Guðmundur Þorláksson, Jónmundur Hilmarsson, Þórhallur Þorláksson og Elías Þorvaldsson. Ljósmyndin er tekin við Hótel Blönduós en ljósmyndarinn er óþekktur.

Rjómahnuplararnir í Sléttuhlíðinni

Gerhard spilaði á bassa milli þess sem hann blés í trompetinn í hljómsveitinni Gautum frá 1966 til 1974. Hljómsveitin var geysivinsæl og spilaði mikið á dansleikjum víða um land, en þeirri spilamennsku fylgdu þess vegna mikil ferðalög og menn voru oft orðnir svolítið lúnir og slæptir þegar haldið var heim undir morgun. Meðlimirnir voru því oft svangir á þeim ferðalögum og hugsuðu sér oft að það væri auðvitað heillaráð að nesta sig betur næst, en slík loforð sem menn gefa sjálfum sér vilja nú engu að síður oft gleymast þegar á hólminn er komið.

En björgin beið við brúsapallinn og þar mun Gerhard hafa gengið nokkuð ákveðið fram. Þegar ekið var leiðina að vestan, þ.e. úr Skagafirðinum eða Húnavatnssýslunni, voru þeir félagar alltaf orðnir sársvangir og þá skapaðist sú hefð að stoppa við brúsapall bóndabæjar eins í Sléttuhlíðinni og súpa rjómann ofan af mjólkinni.

Stundum meðan Gerhard Schmidt spilaði með Gautunum, mætti hann þegar hljómsveitaræfingar voru að hefjast og spurði hvort hann mætti ekki sleppa æfingu, þar sem hann langaði til að hafa samband við heiminn. Að hafa samband við heiminn, þýddi að hann ætlaði í bíó!

Félagar í karlakórnum Vísi á leið niður á Hafnarbryggju þar sem þeir eru að fara a taka á móti kór frá Akureyri. Fyrir miðri mynd eru þau Gerhard og Gisela með barnavagn, en það mun að öllum líkindum vera Sandra María sem er barnið í vagninum.

Ljósmyndari óþekktur.

Rúgbrauðið hans Gerhards.

Seint á sjöunda áratugnum átti kaupfélagið á Siglufirði Wolksvagen rúgbrauð sem notað var til að sendast með vörur til viðskiptavina þess, auk þess sem það var nýtt í ýmis konar snatt eins og gengur. Með árunum fór gripurinn að lýjast og lokum var hann seldur fyrir slikk og fjárfest í Land Rover jeppa sem tók við hlutverki rúgbrauðsins. Kaupandinn var stórmúsíkantinn Gerhard Schmidt og menn veltu fyrir sér hvað sá góði maður hygðist gera með þennan útkeyrða bíl. Aðspurður svaraði Gerhard fáu um það, en varð yfirleitt svolítið íbygginn á svipinn og eyddi gjarnan talinu um þessa sérkennilegu fjárfestingu. Sumarið eftir fór hann í frí heim til Þýskalans og tók bílinn með sér. Að einhverjum vikum liðnum kom hann aftur ásamt bílnum sem nú virtist heldur betur hafa fengið andlitslyftingu. Ýmsir urðu til þess að dást að vinnu þýsku bílasmiðanna, því allt ryð var horfið og bíllinn virtist vera eins og nýsprautaður, en þó ekki alveg. Einhverjir gáfu það í skyn að eitthvað væri nú undarlegt við þessar endurbætur og veltu upp þeim möguleika að þetta væri bara alls ekki sami bíllinn. Ég skal ekkert fullyrða neitt um það, en skömmu síðar kvisaðist það út að einhverjir eftirmálar hefðu orðið vegna meints “bílainnflutnings” að hálfu tollyfirvalda. Einhverju sinni þegar ég mætti í píanótíma til meistarans, áræddi ég að spyrja hann út í bílamálin, en fór þó mjög varlega í það. Gerhard hló svolítið vandræðalega og sagði þetta kannski ekki hafa verið eins góðan bissness og til hefði staðið, en spurði síðan í beinu framhaldi; “hvað ætluðum við svo að spila í dag”.

Gerhard og blómin hennar Gisellu.

Á meðan Gerhard lék með Gautunum og á ferðalögum sem fylgja þess konar útgerð, hugsaði hann oft til Gisellu sinnar og keypti oft eitthvað fallegt handa henni á þessum ferðum. Eitt sinn keypti hann stóran blómvönd og lagði hann gætilega til á klappstól aftur í bílnum fyrir aftan hljóðfærin þegar lagt var af stað heimleiðis. Þetta var á þeim tíma sem Jónmundur Hilmarsson gerði út hljómsveitarbílinn og enn var farið um Siglufjarðarskarð. Ekki vildi þá betur til en svo að það sprakk á bílnum í Skarðinu og auðvitað farið í að skipta um dekk í framhaldinu. Það gekk greiðlega fyrir sig og lá þá ekkert annað fyrir en að koma sér af stað á ný. Þegar bílnum var startað eftir dekkjaskiptin, reyndist hann vera í gír og lyfti sér nokkuð vel upp að framan við þá aðgerð. Við það færðust hljóðfærin aftar og klappstóllinn lokaðist með smelli. Það varð til þess að blómvöndurinn flattist út og varð heldur óásjálegur eftir meðferð klappstólsins og okkar maður varð að vonum heldur súr yfir útkomunni.

Það varð auðvitað að gera betur við næsta tækifæri sem kom fljótlega til, og að þessu sinni hélt hann ýmist á blómvendinum eða lagði hann varlega á sætið við hlið sér eftir að haldið var heim á leið eftir dansleikinn. Allt gekk vel þar til komið var á Hólaveginn þar sem Gerhard og Gisella bjuggu og hann steig út úr bílnum. Við það spratt sætið upp að bakinu og það heldur snögglega, svo að blómvöndurinn varð á milli og flattist aftur út. Þá hrópaði okkar maður hástöfum eitthvað á þýsku mót upprisu nýs dags, reytti hár sitt og hljóp í framhaldinu fáeina hringi í kring um bílinn.

Meðan þau Gerhard og Gisella bjuggu í bænum sagði hún eitt sinn frá því að það væri sennilega eitthvað í hreina loftinu eða þá í vatninu sem virkaði alveg einstaklega vel á þau hjón. Þau hefðu lengi reynt að eignast börn meðan þau bjuggu í Þýskalandi, en ekkert hefði gengið fyrr en þau komu til Siglufjarðar, en þá eignuðust þau tvær dætur Söndru Maríu f. 10. ágúst 1967 og Silju Ellu f. 21. júlí 1970.

Úrklippa úr blaði frá 1967. Karlakórinn á æfingu að búa sig undir söngferðalag.

Ljósmyndari óþekktur.

“Úti á túni”.

Það hefur líklega verið einhvern tíma upp úr 1974 eða 75 að Gerhard festi kaup á tveimur notuðum vefstólum því hann hugðist þá setja upp vefstofu á Siglufirði. Hann fékk vin sinn Magnús Guðbrandsson sem spilaði á þeim tíma með honum í Miðaldamönnum til að fara með sér til Reykjavíkur á rúgbrauðinu til að að sækja vefstólana og keyra bílinn. Ferðin gekk vel framan af, en eftir því sem sunnar dró bætti sífellt í vind og þeim félögum var alls ekki farið að standa á sama þegar þeir fóru um veginn undir Hafnarfjallinu. Það var farið að myrkva og á Kjalarnesinu skömmu eftir að þeir óku um Tíðaskarðið fengu þeir svo á sig svo snarpa hliðarvindhviðu að það skipti engum togum að bíllinn fauk út af veginum, valt heila veltu, en stoppar á hjólunum og með háu ljósin á. 

Á þessum tíma var yfirleitt ekki farið að nota bílbelti, en heppnin lék við þá félaga því hvorugur slasaðist neitt sem heitið gat. Glerbrot dreifðust að vísu um bílinn en Magnús sem sat enn undir stýri þegar hann stöðvaðist, tók eftir var að Gerhard er ekki lengur í sætinu hliðina á honum og ekki einu sinni sætið heldur. Honum brá auðvitað við að farþeginn væri horfinn svo hann fer út og byrjar að kalla, en fær til allrar hamingju fljótlega svar utan úr myrkrinu.

“Maggi, það er allt í þessu fína lagi með mig. Konan var hvort sem er alltaf á móti þessum fjandans eplakassa.

Hafði hurðin farþegamegin opnast þegar bíllinn fór á hliðina og Gerhard dottið út ásamt sætinu sem hann sat í, en þegar bíllinn hélt svo áfram að velta lokaðist hurðin aftur en Gerhard sat eftir, sat ennþá í sætinu sem var fast ásamt honum í túngirðingunni við veginn.

Bíltúr yfir á Ráeyri. Frá vinstri talið: Aðeins sést í Óskar Garibaldason, síðan koma Kristján Sigtryggsson, Gerhard Schmidt, Silke eiginkona Hlyns, Hlynur Óskarsson og Annie eiginkona Óskars Garibaldasonar. Ljósmynd: Gestur Fanndal/Ljósmyndasafn Síldarmingjasafnsins.

Pósturinn í skóginum.

Stundum var sett upp leikrænt atriði á konsertunum hjá karlakórnum tengt trompettleik Gerhards. Það lag sem mjög oft var notað og hentaði vel við það hét „Pósturinn í skóginum“. Þá lét Gerhard sig hverfa af sviðinu og Sigurður Gunnlaugsson tók þá oftast við stjórn kórsins. Þegar kom að trompetkaflanum í laginu hljómaði hann gjarnan einhvers annars staðar frá. Stundum aftast í salnum eða uppi á svölum ef einhverjar slíkar voru til staðar. Magnús Guðbrandsson sagði mér að eftirminnilegast og áhrifamest hefði það verið þegar kórinn söng eitt sinn í Ásbyrgi á kóramóti. Þar lét stjórnandinn sig hverfa eins og ráð var fyrir gert og eins og þeir vita sem á þann stað hafa komið, er staðurinn skeifulaga lægð í landinu sem er umlukin háum hamraveggjum. Innarlega er svo lítið vatn eða tjörn þar sem svæðið er einnig skógi vaxið.

Þarna hóf kórinn að syngja lagið undir stjórn Sigga Gull og á hárréttu augnabliki kom trompetinn til sögunnar innan úr skóginum. Áheyrendur urðu furðu lostnir og vissu ekki hvaðan þessir tónar komu því þeir endurómuðu frá klettunum í kring og hljóðheimurinn varð þannig alveg einstakur. Fljótlega sást þó til hans þar sem hann kom út úr skóginum og nálgaðist kórinn. Óhætt er að segja að hrifning áheyrendanna hafi verið takmarkalítil þar sem þeir fylgdust dolfallnir með atriðinu og eflaust hafa einhverjir fundið fyrir gæsahúðareinkennum við þennan magnaða gjörning. Í Bíóinu á Siglufirði laumaðist hann hins vegar út um hurð sem er á bak við sviðið og hljóp í kring um húsið, kom inn að framan og fór upp á svalirnar þaðan sem tónarnir bárust síðan yfir salinn.

Síðasta söngförin með Vísi.

Um vorið 1973 er karlakórinn Vísir að æfa af kappi fyrir söngferðalag um Suðvesturland. Fimmtán manna hljómsveit skipuð hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir ásamt Gautunum og Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir lék einleik á píanó, fimm einsöngvarar komu einnig fram með kórnum svo og auðvitað hinn margrómaði blandaði kvartett. Einhverra hluta vegna fór fyrsta æfingin kórsins með hljóðfæraleikurunum úr Sinfó fram í Sjálfstæðishúsinu við Grundargötu, en við félagarnir í hljómsveitinni Frum höfðum það þá á leigu og við slepptum auðvitað ekki tækifærinu að vera á staðnum og hlusta á galdurinn sem fyrir eyru bar. Einhvern veginn fékk ég það á tilfinninguna að þessum lærðu hljóðfæraleikurum fyndist þeir vera að taka að einhverju leyti niður fyrir sig með því að vera að spila með þessum amatörum. Mér fannst svipbrigðin og augnagoturnar gefa til kynna að þeir byggjust nú ekki við miklu af körlunum sem byggju í þessum útnára, en mér virtist það heldur betur hafa breyst þegar æfingin var afstaðin.

Fyrsti konsertinn var haldin í Nýja Bíói á föstudaginn langa, en þá stóð yfir skíðalandsmót á Siglufirði og var því óvenjulega mikill fjöldi fólks staddur í bænum og komust mun færri að en vildu. Síðan var haldið á Akranes, til Keflavíkur og sungið á suðurlandi. Söngferðalagið endaði svo í Háskólabíói næsta laugardag eftir páska þar sem kórinn söng fyrir fullu húsi, en á eftir var haldið hóf á Hótel Loftleiðum. Eftir þetta er ekki að finna neinar heimildir um frekari tónleikaferðir kórsins undir stjórn Gerhards, en árið eftir varð Karlakórinn Vísir 50 ára.

Gerhard á leið heim í snjónum. 

Ljósmynd Svavar Berg Magnússon.

Flutti suður og svo aftur norður, en að lokum heim til Þýskalands.

Þau Gerhard og Gisella skildu og í kjölfarið flutti hún á suður og starfaði í verslun í Kópavogi. Gerhard flyst frá Siglufirði í október 1973 á eftir Gisellu og það fréttist norður að þau hafi náð sáttum og búi saman að Kársnesbraut 89 í Kópavogi. Meðan á dvölinni syðra stóð, snérist allt meira og minna um tónlist hjá honum eins og við mátti búast. Hann starfaði með Lúðrasveit Reykjavíkur, lék með 18 manna hljómsveit FÍH og hann gerðist einnig meðlimur hins nýstofnaða tríós Æsir sem ásamt honum var skipað þeim Hafsteini Snæland trommuleikara frá Búðardal og Vilhelm Guðmundssyni harmonikkuleikara. Þá stjórnaði hann um skeið Karlakór Keflavíkur. Gerhard var nú kominn þar sem vissulega var meira um að vera í tónlist og hann nýtti sér það óspart, var duglegur að sækja tónleika og mætti gjarnan líka á lokaæfingar Sinfóníuhljómsveitarinnar ef hann kom því við.

Árið 1974 var farið að undirbúa ný lög um tónlistarskóla sem bætti mjög allan rekstrargrundvöll þeirra og kannski hafði það eitthvað að segja um að Gerhard kom aftur norður. Tónlistarskóli Siglufjarðar var stofnaður árið eftir eða 1975 og var Gerhard ráðinn skólastjóri hans. Aðstæður hans voru þó ólíkar því sem áður var því Gisella varð eftir í Kópavogi, en hann bjó í hluta af jarðhæðinni í Einco við Tjarnargötu þar sem hann hafði einnig aðstöðu fyrir vefstólana sem hann hafði keypt. Sá staður hentaði hins vegar ekki sérlega vel til íbúðar og þar var m.a. engin aðstaða til eldunar.

Á árinu 1975 starfaði Gerhard með siglfirsku hljómsveitinni Miðaldamönnum og tókst mikill og góður kunningsskapur með honum og Magnúsi Guðbrandssyni sem var þá gítarleikari þeirrar sveitar.

Meðan á þessari síðari dvöl hans stóð, kom hann stundum í heimsókn til þeirra Magnúsar og Gullu þegar degi tók að halla og stundum með pylsupakka eða fáein egg meðferðis sem hann bað þau að sjóða fyrir sig. Það var auðvitað auðsótt mál og var honum undantekningalítið boðið í kvöldmat og spjall á eftir. Eitt sinn rakst Magnús á hann að vetri til á göngu sunnarlega í bænum illa haldinn af kulda og spurði hann hverju sætti, en þá hafði hann til að dreifa huganum gengið langleiðina upp í Siglufjarðarskarð og aftur til baka. 

Hljómsveitin Æsir sem var skipuð þeim Hafsteini Snæland, Vilhelm Guðmundssyni og Gerhard. 

Ljósmyndari er ókunnur.

Að lokum.

Í desember árið 1975 spilaði Gerhard með Miðaldamönnum í síðasta sinn á Hótel Höfn og bar þá svo við að hann sagði að þannig stæði á hjá sér að hann yrði að fá uppgert strax um nóttina eftir ballið og sótti það fast. Þetta var óvenjulegt svo ekki sé meira sagt, en hann vildi sem minnst um það tala hvers vegna þannig væri í pottinn búið. Magnús Guðbrandsson fór þá til Steinars Jónassonar hótelstjóra og fékk hann til að ganga þannig frá málum að Gerhard fékk sinn hlut strax. Daginn eftir þegar aðrir hljómsveitarmeðlimir mættu til að taka saman hljóðfærin og ganga frá þeim var allt sem tilheyrði Gerhard þegar farið og hann farinn úr bænum. Ekkert fréttist af honum fyrst um sinn þrátt fyrir einhverja eftirgrennslan, en skömmu síðar mun hafa komið í ljós að hann var farinn ásamt fjölskyldu sinni til Þýskalands.

Þar með var Íslandsdvöl Gerhards lokið og flutti fjölskyldan til Berlínar þar sem Gerhard hóf störf með hljómsveit og kór lögreglunnar í Berlín þar sem hann starfaði uns hann fór á eftirlaun. Og eins og áður sagði voru þeir Gerhard og Magnús Guðbrandsson miklir mátar eftir að þeir fóru að vinna saman og kom viðskilnaður Gerhards við samstarfsmenn sína, svo og aðra á Siglufirði Magnúsi verulega á óvart. En árin liðu og oft hugsaði Magnús sér að gaman væri að heilsa upp á trompetleikarann ef hann ætti leið til Berlínar. Það var svo seint um haustið 2010 að hann var sendur í vinnu og innkaupaferð til Berlínar á vegum Gámafélagsins þar sem hann starfaði. Hann hafði þá samband við Jóhann Sv. Jónsson fyrrverandi tannlækni á Siglufirði sem var einn sennilega mjög fárra sem hafði verið í sambandi við hann síðan hann fór svo skyndilega af landi brott, en fékk þá að vita að þessi meistari hefði látist fyrir u.þ.b. tveimur vikum rúmlega áttræður að aldri.

Það var svo um jólin 2013 að hjónin Anna Marie Jónsdóttir og Steingrímur Garðarsson fóru til Þýskalands áttu þá leið til Berlínar og á meðan dvöl þeirra í Þýskalandi stóð fóru þau ásamt Jóni Garðari syni sínum og fjölskyldu til Gisellu Schmidt. 

Gisella vildi þá nota tækifærið og bað þau að koma kærri kveðju til allra Siglfirðinga með þökk fyrir árin sem þau hjónin áttu þar.

Bíði Sumarlandið sæla eftir okkur öllum hinum megin fljótsins mikla þegar jarðvistardögunum lýkur, má telja víst að þar hafi verið tekið á móti okkar manni með miklum lúðrablæstri um leið og ferjumaðurinn lagði að bakkanum. Englar hinna efri byggða munu þá eflaust hafa myndað glæsilegan heiðursvörð á bryggjusporðinum, boðið hann velkominn í úrvalsbrassband sitt og væntanlega ætlað honum að leika þar fyrsta trompet um allra framtíð.

Samantekt: Leó R. Ólason.

Heimildir: Einherji, Þjóðviljinn, Siglo.is Glatkistan, Magnús Guðbrandsson, Elías Þorvaldsson, Jónmundur Hilmarsson, Anna Marie Jónsdóttir, Helga Skúladóttir.