Hjónin Auður Ösp Magnúsdóttir og Daníel Pétur Baldursson eiga og reka veitingastaðinn Torgið á Siglufirði. Daníel Pétur er lærður matreiðslumaður og hefur staðið vaktina í eldhúsinu síðastliðin 2 1/2 ár með mikilli prýði.
Torgið býður upp á fjölbreyttan matseðil eftir kl. 18.00 alla daga og í lok september verður kynntur nýr matseðill með gómsætum kræsingum og fullt af nýjungum. Pizzurnar eru sívinsælar og nú er hægt að fá bæði súrdeigs og venjulega botna.

Sýnishorn af nýja matseðlinum sem tekur gildi í lok september
Á milli 30 – 50 manns koma alla virka daga og fá sér hádegismat á Torginu. Allmörg fyrirtæki hér í bænum nýta sér þjónustuna, ferðamenn fá sér góðan málsverð á góðu verði, heimamenn koma og færst hefur í aukana að eldri borgarar fái með sér heim staðgóðan heimilismat, enda geta allir fengið eins og þeir geta í sig látið.

Hér er tekið hraustlega til matar síns
Daníel hefur fisk tvisvar í viku á mánudögum og miðvikudögum, sömu dögum og skólarnir, síðan er ein kjötmáltíð á fimmtudögum og svo kjúklingur, pasta eða súpa hina dagana.
Sumarið hefur verið gott, en að sögn Daníels hefur ferðamönnum fækkað á milli ára og fann hann það á rekstrinum í sumar.
Veturinn leggst vel í þau hjónin og eru þau farin að huga að hinum geysivinsælu jólahlaðborðum sem verða auglýst von bráðar. Hægt er að sjá matseðla, opnunartíma og aðrar upplýsingar inn á heimasíðu og facebooksíðu Torgsins

Fjölskyldan tekur þátt í rekstrinum með þeim hjónum. Ósjaldan er faðir Daníels drifinn í uppvaskið og móðir hans með honum í hádeginu

Það er fiskur tvo daga í viku og kemur hann úr Fiskbúð Fjallabyggðar

Gylfi og Úlfar eru að vinna við skíðasvæðið og finnst þeim verkið ganga sent vegna bleytu í sumar en voru mjög sáttir með matinn

Þessar tvær eru frá Bandaríkjunum og hafa ferðast hringveginn um Ísland, eru mjög ánægðar með ferðina

Hér fer enginn svangur frá borðum
Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir Gunnar Smári Helgason