Hjónin Auður Ösp Magnúsdóttir og Daníel Pétur Baldursson eiga og reka veitingastaðinn Torgið á Siglufirði. Daníel Pétur er lærður matreiðslumaður og hefur staðið vaktina í eldhúsinu síðastliðin 2 1/2 ár með mikilli prýði.
Torgið býður upp á fjölbreyttan matseðil eftir kl. 18.00 alla daga og í lok september verður kynntur nýr matseðill með gómsætum kræsingum og fullt af nýjungum. Pizzurnar eru sívinsælar og nú er hægt að fá bæði súrdeigs og venjulega botna.
Á milli 30 – 50 manns koma alla virka daga og fá sér hádegismat á Torginu. Allmörg fyrirtæki hér í bænum nýta sér þjónustuna, ferðamenn fá sér góðan málsverð á góðu verði, heimamenn koma og færst hefur í aukana að eldri borgarar fái með sér heim staðgóðan heimilismat, enda geta allir fengið eins og þeir geta í sig látið.
Daníel hefur fisk tvisvar í viku á mánudögum og miðvikudögum, sömu dögum og skólarnir, síðan er ein kjötmáltíð á fimmtudögum og svo kjúklingur, pasta eða súpa hina dagana.
Sumarið hefur verið gott, en að sögn Daníels hefur ferðamönnum fækkað á milli ára og fann hann það á rekstrinum í sumar.
Veturinn leggst vel í þau hjónin og eru þau farin að huga að hinum geysivinsælu jólahlaðborðum sem verða auglýst von bráðar. Hægt er að sjá matseðla, opnunartíma og aðrar upplýsingar inn á heimasíðu og facebooksíðu Torgsins
Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir Gunnar Smári Helgason