Meginverkefni Íslenskrar málnefndar er að vinna markvisst að því að tungumálið haldi gildi sínu og sé notað á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Guðrún Kvaran prófessor emerita við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands hefur gegnt stöðu formanns Íslenskrar málnefndar frá árinu 2002, og setið í stjórn hennar frá 1987. Ný málnefnd mun taka til starfa á þessu ári, og af því tilefni funduðu fráfarandi formaður hennar og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra á dögunum.
Í samtal við ráðherra lagði Guðrún Kvaran áherslu á að landsmenn allir þurfi að vera vakandi fyrir enskum áhrifum á orðaforða og setningagerð bæði í töluðu og rituðu máli, einkum hjá börnum: „Samtöl foreldra við börnin og aukinn lestur með þeim og fyrir þau er mjög til bóta. Viðhorf til tungumálsins þarf einnig að breytast. Það er mjög bagalegt að á Keflavíkurflugvelli sé enska fyrsta tungumálið sem blasir við farþegum sem koma til landsins en íslenska í öðru sæti öfugt við það sem sést í nágrannalöndum. Sama er að segja um margar verslanir og veitingahús. Þar er íslenska einnig í öðru sæti ef hún sést yfirleitt. Okkur er alveg óhætt að sýna útlendingum og Íslendingum um leið að við erum stolt af eigin tungumáli. Skólarnir gegna einnig afar mikilvægu hlutverki. Læri börnin þar að meta og virða tungumálið, tala og skrifa vandaða íslensku mun íslensk tunga lifa góðu lífi um komandi tíma.“
„Það er eitt okkar brýnustu samfélagsverkefna að stuðla að sókn íslenskunnar og minna á mikilvægi hennar á öllum sviðum. Þar hefur Guðrún Kvaran verið öflugur liðsmaður og vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka henni öll hennar mikilvægu störf í þágu tungumálsins, ekki síst á vettvangi málnefndarinnar,“ sagði ráðherra.
Hlutverk Íslenskrar málnefndar er meðal annars að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og álykta árlega um stöðu hennar. Undir forystu Guðrúnar Kvaran var mótuð fyrsta opinbera málstefna Íslands sem samþykkt var á Alþingi í mars árið 2009 en fyrsta endurskoðun hennar verður meðal verkefna nýrrar málnefndar líkt og fjallað er um í þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.
Íslensk málnefnd var sett á laggirnar árið 1964 en í henni eiga sæti 16 nefndarmenn. Hver eftirtalinna tilnefnir einn mann í málnefndina: Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Samtök móðurmálskennara, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Íðorðafélagið fyrir hönd orðanefnda, Bandalag þýðenda og túlka, Staðlaráð Íslands, Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Hagþenkir og Samband íslenskra sveitarfélaga. Samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir tvo menn í málnefndina. Ráðherra skipar tvo nefndarmenn án tilnefningar, formann og varaformann. Félags- og barnamálaráðherra tilnefnir þar að auki einn fulltrúa úr röðum innflytjenda.
Á myndinni er: Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ásamt Guðrúnu Kvaran.
Af stjornarradid.is