Í samfélaginu sem við búum í eru stöðugar breytingar og þeim fylgja breyttar þarfir barna og fjölskyldna. Ör samfélagsþróun kallar á aukna nýsköpun, lausnir og verkfæri sem mæta þörfum barna, fjölskyldna og starfsfólks á vettvangi skóla- og frístundastarfs. Til að mæta nýjum áskorunum og svara kalli fagaðila á víðum vettvangi setti mennta- og barnamálaráðherra nýlega af stað vinnu við að greina hvaða úrræði og stuðning vantaði inn í skóla og frístundastarf hér á landi. Um var að ræða kortlagningu á skólaþjónustu á Íslandi, sem var unnin í nánu samráði við fagfólk, hagaðila og börn um land allt. Niðurstaða þessa samtals benti til að þörf væri á auknum stuðningi við skólasamfélagið allt, verkfæri og lausnir sem styddu við farsæld barna á víðu sviði, á þeirra forsendum.

Á grundvelli þessarar greiningar og samtals er nú kynnt nýtt frumvarp um skólaþjónustu og inngildandi menntun í Samráðsgátt stjórnvalda. Um er að ræða eina af stærri breytingum sem ráðist hefur verið í innan menntakerfisins á Íslandi, en í því felst m.a. heildræn umgjörð um skólaþjónustu og aukið samræmi milli hagaðila til að mæta þörfum barna og skóla í síbreytilegu samfélagi.

Með frumvarpinu er aðgerð um heildstæða skólaþjónustu úr menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 hrint í framkvæmd. Í fyrsta sinn verður skipulag, umfang og framkvæmd skólaþjónustu leik-, grunn- og framhaldsskóla skilgreind með samræmdum hætti í lögum. Þar gegnir ný Miðstöð menntunar og skólaþjónustu lykilhlutverki. Markmið frumvarpsins er einnig að bregðast við neikvæðri þróun í niðurstöðum PISA á grundvelli raunprófaðrar þekkingar og svara ákalli barna, foreldra, kennara og starfsfólks skóla um aukinn stuðning.

Frumvarpið fellur vel að lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Meginstefið er sem áður að veita snemmtækan stuðning án hindrana þar sem þörf er á. Skólar eru sá staður þar sem finna má nánast öll börn hér á landi á einum stað. Með því að grípa snemma inn í og mæta þörfum barna á vettvangi skóla og frístundastarfs er hægt að koma í veg fyrir stærri vanda síðar meir og meiri þjónustuþörf. Ef markmið frumvarpsins nást verður hægt að auka farsæld barna, fyrirbyggja vanda og stytta biðlista eftir þjónustu. Horft er sérstaklega til barna sem þurfa aukinn stuðning, m.a. barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og barna með fjölþættan vanda.

Mikið samtal hefur átt sér stað um útfærsluna frá því að samráðsferli um ný heildarlög um skólaþjónustu hófst haustið 2022. Þátttaka á þjóðfundi og samráðsfundum var umfangsmikil með alls yfir tvö þúsund þátttakendum. Safnað var endurgjöf frá skóla- og fræðasamfélaginu samhliða samráði við rúmlega þúsund börn og ungmenni um land allt.

Samhliða kynningu í Samráðsgátt verða hagaðilar boðaðir á samráðsfundi með ráðherra um frumvarpið. Það teygir anga sína víða og mikilvægt að öll komi að borðinu. Opið er fyrir umsagnir til 12. mars. Í kjölfarið verður haldinn opinn fundur til að ræða frumvarpið. 

Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fyrir Alþingi á vorþingi og að lögin öðlist gildi 15. ágúst 2024.

Um frumvarpið

Lögin fjalla um inngildandi menntun barna og ungmenna í leik-, grunn- og framhaldsskólum og frístundastarfi um allt land. Þau skilgreina fyrirkomulag, ábyrgð og hlutverk skólaþjónustu og rétt barna, ungmenna og foreldra á þjónustunni. Markmið laganna er að útfæra, samræma og lögbinda þjónustu við inngildandi menntun í skóla- og frístundastarfi með það að augnamiði að efla stuðning við börn og ungmenni, foreldra og starfsfólk skóla og frístundastarfs.

Inngildandi menntun

Í samráðinu kom fram mikil áhersla á inngildingu og tekur frumvarpið mið af því. Í leik-, grunn- og framhaldsskólum og frístundastarfi skal samkvæmt lögunum fara fram inngildandi menntun. Inngildandi menntun felur í sér heildstætt skipulag kennslu, starfshátta og stuðningsúrræða í skóla- og frístundastarfi, eftir eðli og umfangi þarfa hvers barns og ungmennis. Það byggir á þverfaglegri teymisvinnu, markvissu símati og hagnýtingu gagna til að auka skilvirkni, efla gæði starfs og styðja við farsæla skólagöngu allra barna og ungmenna. Ráðherra skal setja reglugerð um fyrirkomulag, framkvæmd og skipulag inngildandi menntunar á hverju skólastigi á grundvelli laganna.

Við inngildandi menntun og þjónustu við hana eiga öll börn og ungmenni rétt á

  1. að þörfum þeirra sé mætt í skólastarfi í leik-, grunn- og framhaldsskóla og í frístundastarfi. Þau eiga rétt á að njóta þjónustu og stuðnings sem byggir á bestu þekkingu og er veittur í samræmi við þörf og á forsendum þeirra án hindrana.
  2. að njóta skólagöngu sinnar og taka framförum í námi og þroska í samræmi við eigin forsendur.
  3. að njóta allra þeirra réttinda sem þeim er tryggður í stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist, þar á meðal í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Þrískipt skólaþjónusta

Skólaþjónustan er samkvæmt frumvarpinu þrískipt:

  1. Innri skólaþjónusta er innra stoðkerfi skóla- og frístundastarfs á vettvangi viðkomandi skóla.
  2. Ytri skólaþjónusta á við um faglegan stuðning sveitarfélaga við leik- og grunnskóla innan sveitarfélagsins. Ytri skólaþjónusta við framhaldsskóla, sem reknir eru af ríkinu, verður hjá nýrri Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem einnig getur tekið að sér ytri skólaþjónustu við leik- og grunnskóla með samningi við sveitarfélög. Ytri skólaþjónusta felur m.a. í sér ráðgjöf til starfsfólk skóla við kennslu- og starfshætti, starfsþróun og samstarf heimila og skóla, ráðgjöf til barna, ungmenna og foreldra vegna þarfa barna, auk mats á þáttum sem hafa áhrif á nám, líðan og velferð barna eða ungmenna í skóla- og frístundastarfi.
  3. Landsstuðningur við skólaþjónustu er miðlægur samræmdur stuðningur nýrrar Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu sem gengur þvert á sveitarfélög og skólastig. Stuðningurinn felur m.a. í sér að styðja við og samhæfa fagleg vinnubrögð skólaþjónustu á ólíkum skólastigum, styðja við starfsþróun, skólaþróun og ferli stöðugra umbóta í skólum og veita ráðgjöf og leiðsögn í málefnum barna og ungmenna sem eru í viðkvæmri stöðu í skólakerfinu. Hlutverk hvers þjónustustigs er skilgreint í lögunum og verður nánar útfært í reglugerð. Samstarf skal á öllum stigum í hávegum haft.

Frumvarpið má nálgast í heild sinni í Samráðsgátt stjórnvalda.

Mynd/aðsend