Þann 14. júlí hófust reglulegar skemmtiferðaskipakomur í Skagafjörð þegar skipið Hanseatic Nature lagðist að bryggju á Sauðárkróki, skemmtiferðaskip lagðist síðast að bryggju í Skagafirði árið 1977. Er þetta fyrsta skipakoman af fjórum sem von er á í sumar.

Um 180 farþegar voru um borð í Hanseatic Nature. Fóru sumir farþeganna í skipulagðar ferðir á vegum ferðaþjónustunnar í Skagafirði og aðrir kusu að skoða sig um í bænum.

Mikil undirbúnings- og markaðsvinna hefur staðið yfir undanfarin ár við að koma Skagafirði á kortið hjá skemmtiferðaskipum og nú þegar eru fimm skip bókuð á Sauðárkrók næsta sumar og fimm skip bókuð sumarið 2024. Von er á að þær tölur komi til með að hækka.

Byggðarráð Skagafjarðar ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins fóru um borð í skipið og skiptust m.a. á skjöldum við skipstjóra skipsins. Hafði hann orð á því hve tilkomumikið það hafi verið að sigla inn Skagafjörðinn og að flestir farþegar skipsins hafi staðið úti til að sjá það sem fyrir augum bar.

Mynd/skafajordur.is