Nú standa yfir umfangsmiklar framkvæmdir við Félagsheimilið á Hvammstanga.
Um er að ræða viðgerð á þaki sem er löngu tímabær. Pappi hefur verið rifinn af þakinu, verið er að smíða grind sem á verða lagðar yleiningar.
Í framhaldinu er til skoðunar að ráðast í viðgerðir á ytra byrði hússins á næsta ári en steypuskemmdir á húsinu eru nokkrar. Nú stendur yfir vinna við gerð verk- og kostnaðaráætlunar fyrir það verk í samræmi við úttekt á ástandi hússins sem unnin var fyrir nokkrum árum.
Áform eru uppi um meiri nýtingu á Félagsheimilinu en verið hefur með tilkomu samfélagsmiðstöðvar þar sem meðal annars verður Fab Lab smiðja. Vinna við tækjakaup í smiðjuna er hafin en styrkur til tækjakaupa fékkst úr byggðaáætlun.
Einnig er áformað að í húsinu verði aðstaða fyrir hvers kyns félagsstarf. Mótun starfsins stendur yfir og hefur Jóhann Örn Finnsson nýráðinn tengslafulltrúi umsjón með vinnunni. Gert er ráð fyrir að haldinn verði íbúafundur í lok sumars til að fá fram hugmyndir íbúa um skipulag starfseminnar í húsinu.