Afhending umhverfisviðurkenninga Sveitarfélagsins Skagafjarðar fór fram í fimmtánda sinn í síðustu viku við hátíðlega athöfn í Húsi frítímans, en það er Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar sem hefur umsjón með útnefningu þessara viðurkenninga fyrir Sveitarfélagið.

Viðurkenningarflokkarnir sem koma til greina eru sjö talsins, en ekki er alltaf veitt verðlaun í öllum flokkum á sama ári.

Flokkarnir eru:

  • Sveitabýli með búskap
  • Sveitabýli án búskapar
  • Lóð í þéttbýli
  • Lóð við fyrirtæki
  • Lóð við opinbera stofnun
  • Snyrtilegasta gatan
  • Einstakt framtak

Í ár voru veittar sjö viðurkenningar í sex flokkum, en þá hafa verið veittar 94 viðurkenningar á 15 árum.

Býli með búskap sem hlaut viðurkenninguna í ár er Hátún 1. Þar eru eigendur Gunnlaugur Hrafn Jónsson og Helga Sjöfn Helgadóttir.

Býli án búskapar sem hlaut viðurkenninguna í ár er Syðra-Skörðugil. Þar eru eigendur Ásdís Sigurjónsdóttir og Einar E. Gíslason, sem lést fyrir skömmu.

Í ár voru veitt tvenn verðlaun í flokknum lóð í þéttbýli:

Drekahlíð 8, Sauðárkróki. Drekahlíð 8 er í eigu Ástu Ragnarsdóttur og Magnúsar Sverrissonar.

Brekkutún 4, Sauðárkróki. Brekkutún 4 er í eigu Margrétar Grétarsdóttur og Páls Sighvatssonar.

Lóð við opinbera stofnun sem hlaut verðlaun í ár er Hóladómkirkja. Það voru Laufey Guðmundsdóttir, formaður sóknarnefndar og organistinn Jóhann Bjarnason sem tóku við viðurkenningunni fyrir Hóladómkirkju.

Lóð við fyrirtæki sem hlaut verðlaun er Bændagistingin á Hofsstöðum. Eigendur þar sem og gestgjafar eru Elínborg Bessadóttir og Vésteinn Vésteinsson.

Að lokum var veitt viðurkenning fyrir einstakt framtak. Það voru hjónin Herdís Sæmundardóttir og Guðmundur Ragnarsson sem hlutu verðlaun í flokknum einstakt framtak. Þau stóðu að því að reisa minnisvarða um Hrafna-Flóka í mynni Flókadals í Fljótum sem vígt var árið 2012.

Sveitarfélagið Skagafjörður og Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar óska öllum sem viðurkenningarnar hafa fengið til hamingju og þakkar þeim fyrir að láta umhverfið skipta sig máli.

Á myndinni eru verðlaunahafar umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2019. Mynd Páll Friðriksson.

Af skagafjordur.is