Sigurður Ægisson sóknarprestur á Siglufirði er mikill fuglaáhugamaður og náði mynd af sjaldséðum flækingsfugli þann 14. október síðastliðinn. Birti hann mynd og texta á facebooksíðu sinni á dögunum og gaf Trölla góðfúslegt leyfi til birtingar á honum.

Sjaldséður hrakningsfugl hefur undanfarna daga glatt fuglaskoðara landsins, sem flykkst hafa að Höfnum á Reykjanesi til að berja hann augum. Um er að ræða gulerlu (Motacilla flava). Hún er langt að komin og hefur borist upp til Íslands með sterkum vindum úr austri eða suðaustri fyrir einhverjum vikum síðan, því sumarheimkynnin eru í Evrópu, stórum hluta Norður- og Mið-Asíu og í Norður-Afríku. Vetrarstöðvarnar eru í Norður- og Mið-Afríku og í öllum löndum neðar í álfunni — ekki nema að hluta þó í Botswana, Namibíu og Suður-Afríku — og á Indlandi og þar í kring.

Gulerlan er skyld og áþekk maríuerlu, eins og nafnið gefur til kynna, mjóslegin, stéllöng og háfætt, en liturinn er allur annar, því að hún er í fullorðinsbúningi skærgul að neðanverðu. Hún er 16,5–17 cm að lengd, 11,2–26,4 g að þyngd og með 23–27 cm vænghaf. Karlfuglarnir eru ívið stærri en kvenfuglarnir. Deilitegundir eru 10–12 og mikill breytileiki innan þeirra; sumir fuglafræðingar vilja raunar telja einhverjar þeirra sjálfstæðar. Kjörlendið er engi, mýrar og rakt akurlendi, oftast nærri vatni.

Þetta er byggðafugl sem lifir eingöngu á skordýrum, einkum flugum, og tekur þær mest á jörðunni, sjaldan í loftinu. „Gulerlan þykir einn af hinum fegurstu smáfuglum Norðurlanda“, ritar Bjarni Sæmundsson í bók sinni, Fuglarnir, sem kom út árið 1936, og bætir við: „er fjörug og snyrtileg, eins og frænka hennar, maríuerlan, syngur lítið og tekur ekki eins mikil stökk á fluginu og hún, og er aldrei eins hænd að mönnum, né sækist eftir skipum á sjó …“.

Í elstu trúarritum heimsins, Pýramídatextunum, frá tíma gamla egypska konungdæmisins, en þá er að finna á veggjum grafhýsa og steinkista í borginni Memphis, við Nílarósa, og eru frá þriðja árþúsundi f. Kr., er gulerlan talin birtingarmynd frumguðsins Atums sjálfs og kann að vera á bak við fyrstu hugmyndir manna um Bennu-fuglinn, sem aftur er álitinn kveikjan að Fönix hjá Grikkjum.

Fuglinn í Höfnum er ungfugl. Myndin var tekin á laugardag, 14. október.

Á Norðurlöndum er gulerlan vorboði.

Mynd/Sigurður Ægisson