Fyrir lágu drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veiðigjald á 869. fundi bæjarráðs Fjalabyggðar.

Meðfylgjandi gögnum er jafnframt bókun stjórnar samtaka sjávarútvegssveitarfélaga þar sem lýst er yfir eindreginni andstöðu við tillögu ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda.

Á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þann 3. apríl 2025 voru lögð fram drög að frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjald en umsagnarfrestur um drögin er til og með 3. apríl. Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkir eftirfarandi umsögn um frumvarpið:

„Fjallabyggð er ekki mótfallinn því að útgerðir greiði sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindum sjávar en hafa verður þó í huga hvaða afleiðingar breytingar í þá átt sem frumvarpið gerir ráð fyrir geta haft fyrir fyrirtæki í sjávarútvegssveitarfélögunum og þar með sveitarfélögin sjálf.

Þrátt fyrir augljósa óvissu um afleiðingar fyrir sveitarfélög hafa engin gögn verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina eða einstök sveitarfélög og er það í andstöðu við 129.grein sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að fara eigi fram sérstakt mat á áhrifum lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga.

Rekstur og fjárfestingar útgerðarinnar hafa gríðarleg áhrif á samfélag Fjallabyggðar og má í því sambandi nefna að vægi fiskveiða í útsvarsgrunni Fjallabyggðar var árið 2024, 17,6% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og vægi fiskvinnslu í sama grunni 5,4%.

Fjallabyggð gerir verulegar athugasemdir við stuttan umsagnarfrest sem veittur var, eða aðeins 10 dagar frá birtingu frumvarpsins, sérstaklega í ljósi þess að engin greiningargögn eru lögð fram og eins og áður segir því mikil óvissa um áhrifin. Ómögulegt er fyrir sveitarfélög að afla sér nauðsynlegra upplýsinga með svo skömmum fyrirvara og því gerir Fjallabyggð þá kröfu að umsagnarfrestur verði framlengdur og aflað verði frekari gagna til upplýsinga og samtals við hagaðila með það í huga að minnka þá óvissu sem ríkir um afleiðingar slíks frumvarps fyrir sjávarútvegssveitarfélög.“