Þorvaldur Gröndal, þjóðfræðingur og meistaranemi í safnafræði hefur verið í starfsnámi hjá Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði frá því í september.

Þorvaldur Gröndal

Safnafræði er tveggja ára framhaldsnám við Háskóla Íslands og er námið bæði hagnýtt og fræðilegt og er nemendum gert að fara í níu vikna starfsnám hjá safni.

Markmið starfsþjálfunar á söfnum er að veita nemendum innsýn í og reynslu af verkefnum safna og flétta þannig saman hagnýta og fræðilega hluta námsins. Þorvaldur hefur tekið þátt í hinum fjölbreytilegustu verkefnum á Síldarminjasafninu undanfarnar vikur auk þess sem hann hefur fengið að kynnast umfangi safnsins, safnkosti þess og húsakosti sem og helstu verkefnum og viðfangsefnum. Hann hefur tekið þátt í faglegum störfum á borð við skráningu safngripa og ljósmynda, yfirferð á heimildum og viðtölum, uppsetningu sýningar, viðhaldsvinnu á sýningarrými, málningarvinnu á Gránustafninum og frágangi safngripa af planinu við Róaldsbrakka til vetrargeymslu. Þar að auki hefur hann tekið þátt í gestamóttöku og vikulegum ljósmyndasýningum á Skálarhlíð svo dæmi séu nefnd.

 

Það er Síldarminjasafninu dýrmætt að geta boðið upp á starfsnám fyrir nemendur á háskólastigi – þannig skapast kjörið tækifæri til miðlunar á þeirri þekkingu og reynslu sem safnið og starfsfólk þess býr yfir. Þar að auki munar sannarlega um viðbótar starfskraft á stóru en fámennu safni.

 

Af vefsíðu Síldarminjasafnsins sild.is