Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. maí að heimila T.ark arkitektum f.h. Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. að vinna breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar með það að markmiði að útbúa nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem mun m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum og/eða þjónustu.
Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29. október og kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóv. sl. Athugasemdafrestur er frá og með 13. nóvember 2024 til og með 2. janúar 2025.
Alls bárust skipulagsgátt 32 umsagnir vegna fyrirhugaðrar Samkaupsbyggingar og mun Trölli.is birta allar innsendar umsagnir næstu vikurnar.
Sjá fyrri umsagnir: HÉR
Þrítugasta og fyrsta umsögn birt 02.01.2025.
Halldór Þormar Halldórsson
Tillaga um breytt aðalskipulag á Siglufirði sem hér er unnt að gera athugasamdir við, getur ekki talist annað en uppdráttur að stóru skipulagsslysi.
Siglufjörður nýtur ákveðinnar sérstöðu með sitt skipulag, sem er ekki að finna í bæjarfélögum að svipaðri stærð og raunar þótt leitað verði langt út fyrir þann ramma. Tenging miðbæjarins, Aðalötu og Gránugötu við torgið og hafnarsvæðið er eintök og þær breytingar sem gerðar hafa verið á síðustu árum á aðalskipulagi hafa styrkt þessa tengingu og þá heildarmynd sem er til staðar. Með fyrirhugaðri tilfærslu á Gránugötu, er stefnt að því að bæta umferð og umferðaröryggi, fjölga bifreiðastæðum og auka mikilvægi torgsins. Vinna við þetta aðlskipulag hefur kostað verulegar fjárhæðir og verði þessi breyting að veruleika, er allri þeirri vinnu kastað á glæ.
Fyrirhuguð bygging er allt of stór, fyrirferðamikil og passar mjög illa í lágreista byggðina umhverfis hafnarsvæðið. Með henni yrðu til skuggasvæði á milli núverandi bygginga og nýrrar byggingar og með því dregur verulega úr nýtingu á svæðinu. Allar áætlanir um bætta umferð og aukið umferðaröryggi yrðu þar með úr sögunni og í staðinn myndu koma innkeyrslur á svæðið sem myndu valda töfum og teppa á umferð á álgastímum, auk þess sem gert er ráð fyrir vörumóttöku á svæði þar sem alla jafna er töluvert af gangandi umferð, sem skapar verulega hættu. Þá virðist ekkert vera gert ráð fyrir gangandi og hjólandi umferð á þeim teikningum sem fyrir liggja.
Fyrirhuguð bygging eyðileggur það samband sem er á milli miðbæjarins og hafnarsvæðisins, sem styrktist verulega þegar hús Egils Síldar var rifið á sínum tíma, en með því varð til heillandi útsýni sem hyrfi ef þessar áætlanir ná fram að ganga. Veitingahúsin við höfnina og mannlífð í kringum þau myndi missa það aðdráttarafl sem nú er til staðar. Þá má nefna að byggingarstíll hússins er algerlega á skjön við þau hús sem þar standa og eru að grunni til gömul og byggð í gömlum stíl.
Svo virðist sem gert sé ráð fyrir blandaðri þjónustu í því sem myndar hið nýja hús. Á undanförnu ári hefur þjónusta og verslun á Siglufirði verið á miklu undanhaldi og þegar hafa nokkur fyrirtæki lokað og boðað fyrirhugaða lokun vegna skorts á viðskiptum. Því má spyrja hvort það sé ekki eins líklegt að illa gangi að leigja út þau rými sem gert er ráð fyrir og á endanum standi þau tóm og myrkvuð.
Það er einlægur vilji minn sem íbúi Siglufjarðar að bæjaryfirvöld falli frá þessum áformum.
Mynd/úr myndasafni Trölla