Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. maí að heimila T.ark arkitektum f.h. Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. að vinna breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar með það að markmiði að útbúa nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem mun m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum og/eða þjónustu.

Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29. október og kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóv. sl. Athugasemdafrestur er frá og með 13. nóvember 2024 til og með 2. janúar 2025.

Alls bárust skipulagsgátt 32 umsagnir vegna fyrirhugaðrar Samkaupsbyggingar og mun Trölli.is birta allar innsendar umsagnir næstu vikurnar.

Sjá fyrri umsagnir: HÉR

Tuttugasta og níunda umsögn birt 02.01.2025.

Kristján Lúðvík Möller

Umsögn til Skipulags og umhverfisnefndar Fjallabyggðar vegna hugmynda um ný byggingu verslunarkjarna á Siglufirði.
 
Undirritaður sem er íbúi og með lögheimili á Siglufirði, vill með bréfi þessu senda inn skoðun mina, athugasemd og eða umsögn, vegna fyrirhugaðara byggingar verslunarhúsnæðis samanber auglýsta tillögu að deiliskipulagi sem var heimiluð og samþykkt samhljóða í skipulags og umhverfisnefnd 22 maí s.l og samþykkt samhljóða í Bæjarstjórn Fjallabyggðar þann 30. maí s.l.
 
1.  Miðbær Siglufjarðar.
Á Siglufirði er einn skýrasti og best skipulagði miðbær sem fyrir finnst í sveitarfélagi á Íslandi, hannaður af Séra Bjarna Þorsteinssyni á sínum tíma.
Miðbærinn er sannkallaður miðbær og þar er bæjarlíf og ýmsa þjónustu að fá í og í næsta nágrenni miðbæjarins.
Undirritaður telur því að matvörverslun bæjarins og sá kjarni sem nútíma matvöruverslanir eru í dag verði að vera og falla inn í hinn sögufræga, vel skipulagða og fallega miðbæ Siglufjarðar.
Undirritaður þekkir það af eigin reynslu við að reka verslun í miðbænum að það var staðsetning sem gaf versluninni og bæjarlífinu mikið gildi. Á þeim tíma voru fleiri verslanir í og við miðbæinn og miðbæjar líf mikið nær allan daginn.
Má í þessu sambandi nefna tvær bankastofnanir, tvær matvörubúðir, nokkrar verslanir, ýmsa opinbera starfsemi og stofnanir,ýmiss  einka fyrirtæki og margt margt fleira.
Á þessum tíma var mikið líf í miðbænum þegar fólk sótti þá þjónustu sem í boði var á þeim tíma.
Undirritaður er því þeirrar skoðunar að væntanleg nýbygging  matvöruverslunar verði að vera sem næst eða í námunda við miðbæjarkjarnann og hið eiginlega Ráðhústorg. Ef farið væri með aðal matvöruverslun bæjarins langt frá miðbænum, myndi mikill skaði verða hvað varðar hinn glæsilega og vel skipulagða miðbæ.
 
2.  Bygginarmagn fyrirhugaðrar verslunar.
Undirritaður hefur lesið yfir og skoðað bæði teikningar og myndir sem lagðar eru fram af arkitektum og veltir því fyrir sér í framhaldi þess hvort bygginagarmagn hússsins sé og mikið m.v. þetta viðkvæma svæði.
Ég spyr mig t.d. hvort að nauðsynlegt sé að byggja verslunarhúsnæði merkt C og D sem eru 150 fm hvort og að leigjendur séu að því húsnæði. Nefni ég í því sambandi þróun sem á sér stað hvað netverslun varðar sem er að aukast mikið um þessar mundir.
Smávöru og sérvöru verslunarrekstur á því miður í vök að verjast um þessar mundir ekki bara úti á landi heldur og á höfuðborgarsvæðinu m.a. vegna aukinnar netverslunar eins og áður er sagt. Einnig má geta þess að við Aðalgötu bæjarins er töluvert verslunarhúsnæði  sem bæði er í rekstri og einnig ónotað.
Ekki kann ég að meta stærðar þörf fyrir nýtísku dagvöruverslun á stað eins og Siglufirði, en geng út frá því að þarfa greining hafi verið gerð af þeim sem þarna ætla að reka verslun og að þessi stærð ( 750 fm ) í húsi A sé hvorki of mikil né of lítil til framtíðar.
Ennfremur að stærð verslunarrýmis í byggingu B ( 250 fm ) sé líka innan þarfagreiningar en heyrt hef ég að það pláss komi til greina fyrir Vínbúð bæjarisn sem er í dag í 200-300 m fjarlægð frá Ráðhústorginu þ.e. Eyrargötu 25 þ.e. á horni Túngötu og Eyrargötu.
Ef stytta má eða fella út verslunarrými C og D samanber framanritað, eykst viðkvæmt útsýni frá austur hluta Ráðhústorgs og fram á fjörð þ.m.t. smábátadokkina og drottningu Siglfirskra fjalla – Hólshyrnuna.
Þetta er útsýnis horn sem okkur Siglfirðingum er afar kjært um ( eins og rætt er um í gögnum málsins og myndir birtar um ) Benda má t.d á að hið nýbbyggða glæsilega Sigló hótel skerðir auðvitað og skyggir á það útsýni sem var frá Ráðhustorgi og fram í fjörð. Undirritaður er þrátt fyrir skert útsýni mjög ánægður með hótel bygginguna og staðsetningu í nágrenni miðbæjarins og telur hana fallega og falla vel að umhverfi sínu og bæjarins á þessu viðkvæma svæði.
Að þessu framantöldu legg ég til við bæði fyrirhugaðan rekstraaðila og hönnuði að farið sé vel yfir þarfa greiningu húsnæðis þannig að hvorki sé verið að byggja of mikið né of lítið.
Undirritaður lýsir yfir bæði stuðningi og ánægju með að í austur enda aðalhússins ( A bygging ) sé gert ráð fyrir lager og móttöku vara, og tel einnig að svæði fyrir notaðar umbúðir eigi að vera í pressugámi innan húss en ekki fyrir enda hússins, með áherslu öra losun. Ljótir gámar eiga ekki við nútíma legar og fallegar dagvöruverslanir og eru til lýta og jafnframt geta þær breytt ásýndinni og gert hana ruslalega. Undirritaður vonast til að gert sé ráð fyrir þessu í húsinu að autan verðu.
 
3.  Umhverfi hússins/ húsanna.
Undirrituðum lýst vel á aðkomu að versluninni úr vestri og öll þau bílastæði sem þar eru hugsuð eða um 50 stæði alls.
Ennfremur lýst mér vel á það opna svæði sem hugsað er á milli verslunar kjarnans og veitingastaðanna Hannes Boy og Blá hússins og tel þar mikla möguleika til að skapa huggulegt útivistarsvæði þar sem m.a. væri hægt að setjast niður og njóta veitinga. Undirritaður leggur til að kannað verði að svæðið austast á milli lagerhúsnæðisins og Blá hússins verði athugað frekar og þar bætt við bílastæðum fyrir veitingahúsin sem þarna eru.
Ennfremur legg ég til að athugað verði hvort plássið austan við byggingu A sé nægjanleg fyrir flutningabíla til að stoppa þar meðan verið er að affrema þá af vörum verslunnarinnar.
Að lokum vil ég benda á að gatan vestan við fyrirhugaðan verslunarkjarna heitir þarna Snorragata en ekki Túngata.
 
4.  Útlit húsanna:
Undirritaður vill að lokum benda hönnuðum á að slæm reynsla er á Siglufirði á svona þaki eins og sýnt er á teikningum þ.e þessi ris með svo lágu þaki á milli. Svona þakbygging kallar á mikla snjósöfnun á þessu lága svæði á milli risanna og getur valdið mjög miklum vandamálum þegar snjór blotnar og þyngist mjög, sem er alltaf að aukast út frá loftlagsbreytingum. Dæmið sem við Siglfirðingar höfum eru af stóra Mjölhúsinu sem var í upphafi byggt með svona þaki, sem svo hrundi vegna snjóþunga og þakið síðan byggt upp eins og það er núna. Benda má einnig á að þök á nærliggjandi húsum eru öll með hallandi þaki, nema Ráðhús bæjarins, þar sem marg oft hefur verið unnið að lagfæringum til að stöðva leka sem þar var oft í hláku tíð. Þess vegna legg ég til að hönnuðir hússins gaumgæfi þessi atriði mjög vel m.t.t. reynslu og veðurskilyrða, sérstaklega að vetri til
 
Þetta eru þær athugasemdir/ ábendingr og umsögn sem mér er boðið upp á að senda samanber skipulagslög og auglýsingu.
Að lokum fagna ég mjög þeim áformum KSK eigna ehf að byggja upp nýtt húsnæði fyrir dagvöruverslun bæjarins.Þar sem matvöruverslunbæjarins er nú  er, er löngu komin til ára sinna- allt of þröng og lítil og engan vegin fullnægjandi og boðleg árið 2025.
Virðingarfyllst
Kristján L Möller Laugarvegi 25 Siglufirði

Mynd/úr myndasafni Trölla