Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. maí að heimila T.ark arkitektum f.h. Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. að vinna breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar með það að markmiði að útbúa nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem mun m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum og/eða þjónustu.
Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29. október og kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóv. sl. Athugasemdafrestur er frá og með 13. nóvember 2024 til og með 2. janúar 2025.
Alls bárust skipulagsgátt 32 umsagnir vegna fyrirhugaðrar Samkaupsbyggingar og mun Trölli.is birta allar innsendar umsagnir næstu vikurnar.
Níunda umsögn birt 10.12.2024.
Rósa Sigurlaug Eiríksdóttir
Kæra bæjarstjórn.
Siglufjörður með alla sína sérstöðu á ótal sviðum er einstakur bær á heimsvísu. Hann er minning um horfinn tíma í sögu síldveiða á Íslandi, sögu byggingarlistar og minning um þann sérstaka andblæ sem varð þá til, og að hluta til hvílir enn í faðmi bæjarins. Minningar í hjörtum fullorðinna Siglfirðinga og annarra sem eru stoltir af að hafa tekið þátt í að byggja upp eða verða vitni að þegar sagan varð til.
Fyrirhuguð uppbygging á lóð miðbæjarkjarnans fyrir verslunarhúsnæði (og þar ofaná með nýtískulegum arkitektúr) væri óafturkræft stórt umhverfisslys fyrir Siglufjarðarbæ. Vel má finna slíkri verslun annan stað í bænum sem minni umhverfisskaði hlytist af.
Kæru hæstráðendur, nú er mál að linni. Hafið þetta í huga og ótalmargt fleira sem bent hefur verið á, framkvæmdinni til vansa áður en farið er af stað með þessi byggingaráform.
Með kveðju,
Rósa Eiríksdóttir
Forsíðumynd/úr myndasafni Trölla.is