Bókin “Síldarárin 1867 – 1969” hefur verið talsvert í sviðsljósinu að undanförnu, bæði fyrir að vera tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna, en ekki síður fyrir þær sakir að komið hefur í ljós að ýmislegt í þeirri bók er sótt úr verkum annarra án nauðsynlegra leyfa, bæði texti og myndir.

Siglfirðingurinn Jón Ólafur Björgvinsson hefur ítrekað leitað réttar síns gagnvart Forlaginu ehf sem gefur út bókina, en Jón Ólafur hefur sýnt fram á með óyggjandi hætti að efni frá honum var notað í bókina án leyfis. Höfundurinn, Páll Baldvin Baldvinsson hefur beðist afsökunar og þar með viðurkennt verknaðinn.

„Þetta eru mis­tök sem áttu sér stað. Þau eru viður­kennd. Það er búið að biðja Jón af­sök­un­ar á því að það skyldi vera gengið á hans sóma,“ sagði Páll Baldvin í sam­tali við Morg­un­blaðið þann 13. janúar síðastliðinn.

Nú er svo komið að Jón Ólafur hefur leitað til lögmanna, til að knýja fram réttlæti í málinu.

Í niðurlagi bréfs sem Forlagið ehf fékk sent frá lögmannsstofunni Logos segir:
Þar sem umbj. minn telur skýrlega vegið að höfundarrétti sínum er þess krafist að dreifingu bókarinnar verði hætt þegar í stað og af henni verði látið þar til sátt kemst á í málinu.

Verði erindi þessu ekki svarað og dreifingu bókarinnar ekki sannanlega hætt fyrir þann 7. febrúar næstkomandi má eiga von á frekari aðgerðum til fullnustu á rétti umbj. míns, þ.á.m. að farið verði fram á lögbann á dreifingu bókarinnar. Er réttur til skaða- og miskabóta jafnframt að fullu áskilinn.

Jón Ólafur segir í viðtali við Trölla:

„Þeir fengu kröfubréf fyrir viku síðan gegnum lögmannsstofuna Logos sem sinnir mínum málum með boði um enn einu sinni, að reyna að ná sáttum um hvernig á að leiðrétta þessa vitleysu, en hefur ekki einu sinni þóknast að svara.“

“Það er sorglegt að ég lítill áhugaskrifari sé tilneyddur til og þurfi að leggja út stórar peningasummur og að hreinlega hóta með gefa þeim rauða spjaldið með því fara fram á LÖGBANN á þessa bókarútgáfu.

Það er Hjördís Halldórsdóttir Hdl. sem er sérfræðingur í höfundarréttarmálum sem hefur farið yfir rök Jóns Ólafs sem hann færði fram í grein sinni sem birtist hér á Trölla þann 11. janúar. Sjá hér: VAFASÖM-SÍLDARSÖGU-SAGNFRÆÐI ? COPY & PASTE BÓKMENNTIR

Jón Ólafur heldur áfram:
“Það er sorglegt að ég áhugamaðurinn er að vanda mig meira í mínum vefmiðlaskrifum en þessir svokölluðu atvinnumenn.
Ég vil einnig að það komi skýrt fram að ég er ekki að leggja út stórfé í þessi leiðindi til þess að eingöngu verja mín hingað til ókeypis rituðu orð og vinnu sem nú er til sölu án leyfis hjá stærsta bókarforlagi Íslands heldur er það algjört prinsipp mál að það verður að vera á hreinu að AÐRIR hafa treyst mér fyrir sögum og ljósmyndum o.fl. og gefið birtingarleyfi með vissum skilmálum og þessi leyfi geta ekki í mínum huga sjálfkrafa færst yfir í bækur eða sjónvarp án leyfis. Ég hef staðið í miklum samskiptum við ýmsa aðila sem hafa treyst mér fyrir söguefni og ljósmyndum o.fl. hér úti í Svíþjóð og þeir spyrja allir: Eru ekki til höfundarréttarlög á Íslandi?”

Bréfið frá Logos má nálgast í heild sinni á pdf formi með því að smella hér.

Samsett mynd: Trölli.is