Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. maí að heimila T.ark arkitektum f.h. Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. að vinna breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar með það að markmiði að útbúa nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem mun m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum og/eða þjónustu.
Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29. október og kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóv. sl. Athugasemdafrestur er frá og með 13. nóvember 2024 til og með 2. janúar 2025.
Alls bárust skipulagsgátt 32 umsagnir vegna fyrirhugaðrar Samkaupsbyggingar og mun Trölli.is birta allar innsendar umsagnir næstu vikurnar.
Sjá fyrri umsagnir: HÉR
Þrítugasta umsögn birt 02.01.2025.
Valtýr Sigurðsson
Skipulagstillaga í auglýsingu
Ekki veit ég hversu margir hafa kynnt sér fimm þátta samkomulagið frá 2012 milli Fjallabyggðar og Rauðku ehf. um uppbyggingu Siglufjarðar í þeim tilgangi rífa staðinn upp úr áratuga hningnun.
Þá eru það eflaust fáir sem geta látið sér til hugar koma að það hafi verið erfitt að ná þessu samkomulagi sem gekk einkum út á að Rauðka ehf. réðist í hundruð milljóna króna fjárfestingu á staðnum en Fjallabyggð var þar að mestu þiggjandinn. Um þetta er mikið til af gögnum í umsjón bæjarins sem væntanlega verður gripið til í fyllingu tímans er þessi kafli í sögu bæjarins verður skráður. Því miður var blekið vart þornað eftir undirritun samkomulagsins þegar deilur risu um rekstur skíðasvæðisins sem leyst var með skynsemi þar sem skipaður gerðardómur var ekki fær um það. Þá blossaði upp deila milli Rauðku ehf. og Báss ehf. um skipulag tangans sem fór fyrir Hæstarétt. Síðan hafa samskipti aðila verið ein sorgarsaga til tjóns fyrir bæinn okkar.
Ég hafði ákveðið að ergja mig ekki frekar á þessum málum en fór illu heilli að skoða umsagnir um tillögu að auglýsingu að breytingu á deiliskipulagi bæjarins í þeim tilgangi að byggja verslunarkjarna milli torgsins og smábátahafnarinnar.
Þarna var að finna margra málefnalegar og góðar athugasemdir sem aðallega sýndu fram á að bygging sem þessi myndi breyta ásýnd kjarna bæjarins og skera sig úr í því umhverfi. Bent var á að nægt pláss væri fyrir slíka bygginu á hentugri stað. Þetta leiddi hugan að því að áður en smábátahöfnin var gerð að því leiksviði sem hún nú er þekkt fyrir langt út fyrir landsteinana kom til álita að reisa þar olíutanka til hagræðis fyrir bátana.
Af umsögnum bæjarbúa og velunnara Siglufjarðar hnaut ég sérstaklega um ítarlega umsögn Elíasar Péturrsonar fyrrverandi bæjarstjóra sem tengir þessi áform við samkomulagið frá 2012 og segir m.a „Með uppbyggingu undanfarinna ára og vinnu við markaðssetningu svæðisins hefur tekist að skapa bænum ákveðna ímynd sem í felast verðmæti og aukin tækifæri til framtíðar. En líkt og að framan er lýst þá virðist með framlagningu tillögunnar ákveðin stefnubreyting hafa átt sér stað hjá bæjarstjórn, sérstaklega hvað varðar ásýnd og andblæ miðbæjarins og þar með afstöðu sveitarfélagsins til hins svokallaða fimm liða samkomulags. Ef fyrir liggur vilji kjörinna fulltrúa til að breyta um áherslur í skipulagi sveitarfélagsins, atvinnuuppbyggingu, almennri framtíðarsýn þess og samkomulagsins frá 2012 þá þarf það að koma fram með skýrum hætti.“
Ég tek heilshugar undir framangreint og endurspeglar sýn og áherslur Elíasar sem bæjarstjóra Fjallabyggðar.
Sagt er að slysin geri ekki boð á undan sér. Umhverfisslys gera það hins vegar iðulega eins og sjá má t.d.af græna veggnum í Breiðholti.
Af fyrirliggjandi gögnum má sjá að umrædd bygging breytir kjarna Siglufjarðar til muna og virðist þar hvorki skeytt um fagurfræðileg sjónarmið né virðingu fyrir því umhverfi sem náð hefur að skapast. Það er einlæg von mín að þessi áform raungerist ekki.
Með bestu kveðju
Valtýr Sigurðsson fyrrverandi formaður Leyningsáss ses.