Nýlega var opnað fyrir umsóknir um nafnskírteini á Ísland.is en nafnskírteini er ein af þremur tegundum persónuskilríkja sem hægt er að nota til auðkenningar á Íslandi. Persónuskilríkin eru nafnskírteini og vegabréf, auk ökuskírteina.
Nafnskírteini eru gild persónuskilríki sem auðkenna handhafann og ríkisfang hans. Tvær gerðir eru af nafnskírteinum, annars vegar aðeins til auðkenningar og hins vegar skírteini sem nota má bæði til auðkenningar og sem ferðaskilríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Dæmi um tilvik þar sem krafist er auðkenningar hér innanlands eru þegar lyf eru afhent, þegar sótt er um rafræn skilríki og þegar gengið er til kosninga.
Til þess að fá nafnskírteini þarf að sækja um á Ísland.is og mæta síðan í myndatöku til sýslumanns. Afgreiðslutími í kjölfarið eru allt að sex virkir dagar að viðbættum sendingartíma.
Unnið er að því að gera stafræna útgáfu af nafnskírteinum líkt og ökuskírteinum og vegabréfum. Stafræna skírteinið mun þó aðeins gilda innanlands og telst því ekki gilt sem ferðaskilríki.
Þjóðskrá annast útgáfu nafnskírteina en útgáfa þeirra er samstarfsverkefni með sýslumönnum sem sjá um myndatöku og afhendingu. Að stafrænni umsókn kemur auk þess Stafrænt Ísland.
Nánari upplýsingar um umsóknarferli, kostnað og afgreiðslu nafnskírteina má finna á Ísland.is.
Sækja um nafnskírteini: HÉR