Í nýliðinni viku fóru fréttamenn Trölla til að hitta Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2019, sem er með opinn markað nú um helgina á Burstabrekkueyri í Ólafsfirði.

Fljótlega skildu leiðir fréttamannanna, konan fór að skoða leirmuni og listaverk, en karlinn varð heldur hissa og forvitinn þegar í ljós kom, að á sama stað er rekin vatnsafls virkjun!

Túrbínan á Burstabrekkueyri.

 

Þau hjónin Hólmfríður Vídalín Arngríms, Bæjarlistamaður Fjallabyggðar og bóndi hennar Þórður Guðmundsson byggðu fyrir nokkrum áratugum mikil hús fyrir loðdýrarækt. Langt er síðan loðdýraræktin var aflögð en í staðinn er hluti húsnæðisins nýttur fyrir listakonuna, og vélasamstæðu virkjunarinnar.

Vélar virkjunarinnar skoðaðar.

 

Þórður er fæddur og uppalinn Ólafsfirðingur, sonur Guðmundar Vilhjálmssonar og Freydísar Bernharðsdóttur, sem bæði eru einnig fædd og uppalin í Ólafsfirði og ættuð af Norðurlandi.

Hólmfríður er fædd í Reykjavík, ólst upp í Kópavogi og hefur búið í Ólafsfirði frá árinu 1976 og hefur starfað að myndlist með leir sem aðalefni í 28 ár.

Þórður var líka með ferðir á snjóbíl upp á Múlakollu, en síðustu vetur hafa verið afar snjólitlir, þannig að nú er bíllinn farinn í önnur verkefni sem Þórður rekur ásamt syni sínum og fleirum.

Skemmtilegt plakat til minningar um ferðirnar upp á Múlakollu.

 

Virkjunin var gangsett 18. október 2003 og framleiðir um 370 KW, sem er álíka mikil raforka og ca 500 manna þorp notar hérlendis. Rafmagnið sem þarna er framleitt fer svo inn á veitukerfi landsins.

Stjórnborð.

 

Þórður raforkubóndi með barnabarn á handleggnum.

 

Vatnið sem knýr virkjunina kemur úr 270 metra fallhæð úr fjallinu fyrir ofan, rennslið er um 240 lítrar á hverri sekúndu. Þrýstingurinn þar sem vatnið kemur inn er gríðarlegur.

Í stöðvarhúsinu, þarna kemur vatnið inn, sem knýr vélina.

 

Þessi skemmtilega mynd hangir uppi í stöðvarhúsinu, frá vinstri: Gunnlaugur Jón ( Gulli Jón ) rafvirki, Þórður Guðmundsson, og Friðrik Sophusson f.v. Iðnaðarráðherra. ( Hann var reyndar “fótósjoppaður” inn á myndina til gamans )

 

Þórður Guðmundsson, enn á sama stað.

 

Trölli þakkar þeim hjónum fyrir viðkynninguna og góðar móttökur á Burstabrekkueyri.