Allar umsóknir frá sveitarfélögum og þjónustusvæðum um framlag til gildandi samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) á árinu 2024 hafa verið samþykktar af hálfu ríkissjóðs. Alls var sótt um framlag vegna 123 samninga, sem er aukning um 26 samninga frá síðasta ári.
Í bráðabirgðaákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, kemur fram að á innleiðingartímabili þjónustunnar veiti ríkissjóður framlag til allt að 172 samninga á árinu 2024. Fjárframlag sem nemur hlutdeild ríkissjóðs í 172 samningum hefur þegar verið fært yfir til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og hafa sveitarfélög verið upplýst um það.
Til stóð að uppfærð reglugerð um NPA tæki gildi um áramót, en því ferli hefur verið frestað til ársins 2025. Samráð um breytingar á reglugerð hófst árið 2023 og verður því fram haldið á næstu misserum. Áréttað er að reglugerð nr. 1250/2018 um NPA heldur gildi sínu þar til ný reglugerð tekur gildi.
Umsýsla með umsóknir um framlag ríkisins færist hins vegar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga nú um áramót og verður fyrirkomulag vegna umsókna frá sveitarfélögum því með breyttu sniði á næsta ári. Mun Jöfnunarsjóður kynna það umsóknarferli með góðum fyrirvara.
Mynd/Hari