Ný tónlistarmiðstöð tekur til starfa snemma á næsta ári, en á undanförnum vikum hefur menningar- og viðskiptaráðuneytið kynnt nýja heildarlöggjöf um tónlist og nýja tónlistarstefnu sem voru í Samráðsgátt stjórnvalda í sumar. Í nýju fjárlagafrumvarpi er lögð sérstök áhersla á stofnun hennar innan málefnasviðs menningar og er gert ráð fyrir 150 milljón króna framlagi til hennar.

 Tónlistarmiðstöð mun verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og tónlistariðnaðar, sinna bæði fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk.

„Í nýrri tónlistarstefnu er lögð áhersla á að Ísland er tónlistarland. Íslenskt tónlistarlíf hefur leitt af sér ríkan menningararf sem á fastan sess í hjörtum landsmanna auk þess að vera mikilvæg atvinnugrein. Tónlist er atvinnuskapandi og nauðsynleg útflutningsgrein Íslendinga og íslenskt tónlistarlíf einkennist af sköpunargleði. Áhersla stjórnvalda með nýrri stefnu og Tónlistarmiðstöð er að hlúa að tónlistargeiranum, styðja við bakið á tónlistarfólki og fagfólki og skapa þeim frjósaman jarðveg til vaxtar,” segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Samráðið um tónlistarstefnu og ný heildarlög gekk vonum framar, en alls bárust 42 umsagnir um tónlistarstefnu og 21 umsögn um heildarlögin.

Mikilvægt er að almenn sátt ríki um þá stefnu sem er mörkuð í málefnum tónlistar og að stjórnvöld hafi sem besta innsýn inn í ólík sjónarmið og verður nú unnið úr þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust í Samráðsgátt stjórnvalda. 

Við mótun tónlistarstefnunnar hefur verið víðtækt samráð, meðal annars við helstu hagaðila innan tónlistar en einnig við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið um þætti tengda tónlistarnámi. 

Heildarfjárheimild til menningarmála fyrir árið 2023 er áætluð 16.715,7 m.kr í nýkynntu fjárlagafrumvarpi. Öll starfsemi sem heyrir undir menningar- og viðskiptaráðuneytið mun þurfa að undirgangast 2% aðhaldskröfu. Markmiðið er að ná tökum á verðbólgunni, með aðhaldi stjórnvalda.

Mynd/pixabay