Sigurlaug Ýr Sveinbjörnsdóttir var í sumarfríi með fjölskyldunni sumarið 2015 að skoða landið. Þau voru komin til tengdaforeldra hennar á Hvammstanga þegar stefnan var tekin á Vatnsnesið til að skoða Hvítserk.

Sigurlaug var á leið út á útsýnispallinn við Hvítserk þegar hún “flaug á hausinn” og slasaðist illa, hlaut mjög slæmt olnbogabrot á vinstri handlegg. Hún hafði starfað sem sjúkraliði og sá ekki fram á að geta sinnt því starfi framar.

Á vefsíðu VIRK má lesa opinskátt viðtal við Sigurlaugu þar sem hún rekur langa og mjög erfiða sjúkrasögu.

“Eitt er ég alveg viss um; ef ég hefði ekki komist í þjónustu hjá VIRK veit ég ekki hvar ég væri stödd í dag. Hvort ég hefði yfirleitt komist aftur út á vinnumarkaðinn” segir Sigurlaug meðal annars.