Sr. Sigurður Ægisson

Heit umræða braust út á samfélagsmiðlum vegna aðkomu sr. Sigurðar Ægissonar að lausagöngu katta, þegar hann sendi inn erindi til bæjarráðs Fjallabyggðar þar um. Málið var tekið fyrir og hægt er að lesa nánar um það í eldri fréttum hér að neðan. Sigurður Ægisson skrifaði grein um málið sem var birt í Morgunblaðinu í framhaldinu.

„Ertu fáviti?“

“Ég er dýraníðingur og réttast væri að taka mig og gelda. Og þar að auki er ég einstaklega leiðinlegur maður og biskup ætti að reka mig fyrir að leggja stóran hóp fólks í einelti. Eða senda mig í eitthvert afdalabrauð, þar sem ekki er net- eða símasamband. Alla vega er þetta skoðun margra kattaeigenda á Facebook og víðar. Og ýmislegt fleira er þar sagt í líkum dúr.

Forsagan er sú, að 28. janúar síðastliðinn ritaði ég bréf til skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar og hvatti til að lausaganga katta yrði bönnuð í sveitarfélaginu frá 1. maí til 15. júlí. Þetta er varptími fugla. Sumir eru reyndar byrjaðir löngu fyrr. Erindið var samþykkt. En bæjarstjórn guggnaði – vegna utanaðkomandi þrýstings, er mér sagt.

Barátta mín spurðist út um landið og kallaði m.a. fram ofannefnd viðbrögð, þ.m.t. yfirskrift þessa greinarkorns.

Þegar ég tók vígslu, 16. júní 1985, og gekk í raðir presta þjóðkirkjunnar, afsalaði ég mér engum mannréttindum. Ég missti ekki kosningaréttinn, ótrúlegt en satt, og hef ekki á kosningadögum sett X við alla lista sem í framboði eru hverju sinni, þótt mér hafi líkað við hvern og einn frambjóðenda. Ég hef þurft að taka afstöðu. Þar að auki er ég innfæddur Siglfirðingur og tel mig hafa leyfi til að tjá mig um málefni sem í Fjallabyggð eru á baugi hverju sinni. Í þessu umrædda tilviki, sem setti allt á annan endann, gerði ég það sem fuglavinur. Hins vegar er prestaspilinu gjarnan veifað, þegar ég á í hlut, og það var eins núna. Sennilega út af því, að í rökfæðinni er auðveldara að beina spjótunum að ævistarfi mínu en að taka umræðuna, fara í manninn en ekki boltann. Það er gömul og þekkt taktík. Og helst að reyna að gera jafnframt lítið úr honum.

Lausaganga katta í Fjallabyggð bönnuð á varptíma

Sláandi tölur

Þar sem kötturinn (Felis catus) er ekki náttúrulegur hluti af evrópsku fánunni hafa margir þar flokkað hann sem „a top-ranking invasive alien species“ – mjög svo ágenga, framandi dýrategund.

Norðurþing, sem varð til við sameiningu Húsavíkurbæjar, Kelduneshrepps, Raufarhafnarhrepps og Öxarfjarðarhrepps árið 2006, er eina sveitarfélagið á Íslandi þar sem lausaganga katta er bönnuð. Mýs og rottur tóku samt ekki yfir, þótt hræðsluáróður kattaeigenda gengi út á að slíkt myndi verða, ef bannið yrði staðfest. 

Í nokkrum sveitarfélögum öðrum er bannað að halda ketti nema með sérstöku leyfi.

Ekki hefur verið gerð rannsókn á því, mér vitanlega, hversu marga fugla kettir, óskráðir og skráðir, tamdir eða villtir, drepa árlega hér á landi. En upplýsingar eru til erlendis frá. Og þær eru sláandi. Þar kemur fram, að þeir eigi sök á útdauða tveggja skriðdýrategunda, 21 spendýrategundar og 40 fuglategunda og séu nú á tímum ógn við a.m.k. 367 tegundir í útrýmingarhættu. Heimiliskettir eru í þriðja sæti yfir þær framandi tegundir í vistkerfum jarðar sem hryggdýrum stafar mest hætta af. Í Kanada er talið að þeir drepi 100–350 milljónir fugla árlega, í Ástralíu 377 milljónir og að auki 649 milljónir skriðdýra, í Bandaríkjunum 95–299 milljóna froskdýra, 258–822 milljóna skriðdýra, 1,3–4,0 milljarða fugla og 6,3–22,3 milljarða spendýra. Í rannsókn sem gerð var á afráni heimiliskatta á Bretlandseyjum og stóð yfir í fimm mánuði var áætlað að þeir hefðu borið inn á heimili sín á þeim tíma 5 milljónir frosk- og skriðdýra, 27 milljónir fugla og 57 milljónir spendýra. Í Hollandi gaf ein rannsókn til kynna, að þar í landi dræpu kettir 141 milljón dýra árlega og heimiliskettir þar af um 60% tölunnar. Í Finnland var talið, að lausagönguheimiliskettir dræpu 1 milljón dýra í hverjum mánuði, og þar af a.m.k. 144 þúsund fugla. Í Póllandi voru kettir á sveitabæjum taldir ábyrgir fyrir dauða 136 milljóna fugla á ári og 583 milljóna spendýra. Í einni rannsókn í Svíþjóð var talið að heimiliskettir, sem voru 1,44 milljónir talsins árið 2017, dræpu 13,4 milljónir fugla á ári, í annarri var talan 16 milljónir og í hinni þriðju 17,5 milljónir. Og í Noregi er talið að séu 770 þúsund kettir og gert ráð fyrir að þeir drepi hver um sig a.m.k. tíu fugla á ári; það eru 7,7 milljónir. Villikettir drepa fleiri.

Kattaeigendur í Fjallabyggð ósáttir

Að meðaltali 25% heimila í Evrópu eiga a.m.k. einn kött, má lesa í skýrslu FEDIAF, samtaka evrópskra fóðurframleiðenda um árið 2019. Lægst er hlutfallið í Tyrklandi, 10%, hæst í Rúmeníu, 47%. Í Danmörku er þetta hlutfall í 26%, í Noregi 31%, í Svíþjóð 19% og Finnlandi 22%; meðaltalið er 24,5%. Ekki liggja fyrir tölur um Færeyjar og Ísland. Í Evrópu er fjöldi heimiliskatta áætlaður um 106,5 milljónir, hunda 87,5 milljónir.

Bandarískum fuglafræðingi var hótað lífláti eftir að hann ritaði bók um ágang kattanna þar  í álfu og lagði fram hugmyndir um mótvægisaðgerðir. Heiftin var svo mikil. Og er. En þessa umræðu verður að taka, þar og hér og annars staðar, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

Veiðieðlið segir kettinum að drepa, en við getum stýrt honum og lágmarkað þannig skaðann. Um það snýst málið.

Hér mætti rifja upp, að í alþjóðasamþykkt um fuglavernd frá 1956, sem Bernarsamningurinn hefur að mestu tekið yfir, en hann var undirritaður 19. september 1979 og staðfestur hér á landi árið 1993, skuldbinda aðildarríkin sig m.a. til að veita villtum fuglum vernd á varptímanum. 

Er það gert?

Sigurður Ægisson að fóðra fugla

Dýrið gengur laust

Svo undarlega sem það nú hljómar, er ekkert ráðuneyti eða aðrar stofnanir ríkisins sem halda utan um fjöldatölur skráðra katta á Íslandi. 

Ég ritaði því 12. maí síðastliðinn tölvubréf og sendi á öll sveitarfélög í landinu, 69 talsins, og spurði um þetta. Því miður verður ekki hægt að komast til botns í þessu af svörunum. Og furðu vekur hvað utanumhald er í miklum ólestri víða. Á Suðurnesjum var t.d. hætt að skrá ketti fyrir um 15 árum, en hundarnir, um 700 talsins, verða samt að lúta því enn. Það sama er upp á teningnum í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Reykjavík, engar tölur finnast um hversu margir kettir eru þar, en skráningarskylda er á hundum; reyndar er sums staðar gerð krafa um skráningu á köttum, en eftir því er ekki farið, og einnig að þeir séu örmerktir af dýralækni; þeir eru skráðir í gagnagrunninn dyraaudkenni.is, en hann er ekki aðgengilegur heilbrigðiseftirlitinu nema til uppflettingar varðandi handsömuð dýr til að finna eigendur þeirra. Í Reykjavík er þó að verða jákvæð breyting á, með tilkomu Dýraþjónustunnar. 

Fálæti hinna er með ólíkindum og segir jafnframt mikið um þann stall, sem kettir eru á víða. Í mörgum öðrum sveitarfélögum í landinu er að auki hvorki til skrá yfir ketti né hunda. En svo eru þau sveitarfélög líka til þar sem þetta er til mikillar fyrirmyndar, allar upplýsingar til staðar, m.a. í Árborg – en þar eru skráðir kettir 464 talsins og sennilega margir óskráðir líka, eins og oft var nefnt í svarbréfum til mín hjá öðrum sveitarfélögum – og Fjarðabyggð kemur líka upp í hugann.

Sé mið tekið af áætluðum fjölda heimiliskatta í Noregi og Svíþjóð eru þeir á Íslandi um 50 þúsund. Og ef norska reikniaðferðin er notuð, drepa þeir 500 þúsund fugla á ári; Svíar gera ráð fyrir að heimiliskettir þar drepi 12 fugla hver, þá erum við að tala um 600 þúsund hér. Mófuglar eru líka teknir og því rétt að minna á, að Íslendingar bera mikla ábyrgð á nokkrum fuglastofnum heims, þ.m.t. heiðlóu; varppör hér voru árið 2010 talin vera um 310 þúsund, sem eru 50–74% af Evrópustofninum. 

Samþykktir um kattahald eru fremur bragðdaufar hvað varðar ábyrgð eigenda á varptíma fugla. Og stundum er ekki minnst einu orði á slíkt. 

Snævarr Örn Georgsson umhverfisverkfræðingur var með athyglisvert innlegg á einum spjallþráðanna á Facebook, þar sem barátta mín var til umfjöllunar á dögunum. Hann sagði: 

„Við skulum hafa það á hreinu að það er nákvæmlega ekkert náttúrulegt við rándýr frá Afríku sem gengur laust á Íslandi. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að kettir eru ekki hluti af íslenskri náttúru þá fá þeir skjól í vondum veðrum og mat allan ársins hring, eitthvað sem fuglarnir sem þeir veiða fá ekki, og því myndast ekkert fylgnisamband milli stofnstærðar rándýrs og bráðar. Í náttúrunni eru kettir jafnframt einfarar (ljón undantekning) sem helga sér stórt óðal. Í þéttbýli er ekki slíku fyrir að fara, þéttleiki katta er mjög mikill og mjög ónáttúrulegur. Hver einasti garður á t.d. Akureyri er skoðaður af ketti svo til hverja einustu nótt, ófleygir fuglsungar eiga því margfalt minni möguleika en í náttúrunni þar sem rándýr þurfa að helga sér stór óðul til að framfleyta sér. Það er ekkert náttúrulegt við lausagöngu katta á Íslandi.“

Tilkynning til íbúa Fjallabyggðar varðandi kattahald

„Það er ekki að ástæðulausu að eyjasamfélögin í Flatey á Breiðafirði, Grímsey og Hrísey banna lausagöngu katta … Á öllum þessum stöðum er ríkt fuglalíf og lausir kettir myndu valda óbætanlegum skaða,“ bætir hann við á öðrum stað.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) var samþykktur á heimsráðstefnu um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro í Brasilíu árið 1992. Ísland undirritaði samninginn á ráðstefnunni og gekk hann í gildi hér á landi árið 1994. Markmið hans er m.a. að vernda líffræðilega fjölbreytni. Á heimasíðu Stjórnarráðsins er þessar athyglisverðu upplýsingar að finna í því sambandi:

„Tilgangurinn með verndun líffræðilegrar fjölbreytni hér á landi er að styrkja og varðveita til framtíðar þær tegundir sem hafa frá upphafi skapað íslenska náttúru og þrifist hér á landi í árþúsundir og að koma í veg fyrir að tegundir deyi út af mannavöldum … Aðildarríki samningsins skuldbinda sig meðal annars til þess að greina og vakta ýmsa þætti í lífríki landsins svo sem hvað þarfnast verndar og hvaða þættir hafa skaðleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni.“ 

Í slíkri vinnu hljóta yfirvöld fyrst að þurfa að geta horft yfir sviðið, til að ná að meta núverandi ástand, annað væri fúsk. Upplýsingar eru til um stofnstærðir allra fuglategunda hér á landi, um fjölda búfjár, hunda og margt fleira, en svo er bara eitt risaspurningarmerki varðandi kattahaldið. Það bara getur ekki verið í lagi. 

Ég hvet því ráðamenn til að sýna ábyrgð í verki og láta hendur standa fram úr ermum. Og það strax. Það er ekki eftir neinu að bíða. 

Hitt er ekki verjandi.

Hafa skal holl ráð þó heimskur kenni.”

Sigurður Ægisson að merkja fugl