Á dögunum hafði Trölli.is samband við unga konu ættaða frá Siglufirði, sem nýverið stofnaði sitt eigið fyrirtæki. Okkur lék forvitni á að fá nánari upplýsingar um þessa öflugu konu og áhugavert fyrirtæki sem hún rekur.

Fyrirtækið heitir María dýrasnyrting og er hægt að skoða það nánar á facebook síðu fyrirtækisins.

Hver ert þú?

Ég heiti María Lísa Thomasdóttir, 24 ára dýravinur og bý í Garðabæ. Ég á hund, Esju sem er 4 ára Golden Retriever tík, kött, Hnoðru sem er 19 ára norskur skógarköttur og svo er ég með 180 lítra fiskabúr.

Mamma mín er Siglfirðingurinn Rakel Fleckenstein Björnsdóttir og pabbi minn er þýskur og heitir Thomas Fleckenstein. Bróðir minn er Björn Thomasson.

María Lísa ásamt foreldrum sínum Rakel Fleckenstein Björnsdóttur og Thomas Fleckenstein

Hvernig ert þú tengd til Siglufjarðar?

Amma og afi, Ásdís Kjartansdóttir og Björn Jónasson áttu heima á Suðurgötunni allt fram til ársins 2015. Þau eru bæði dáin.

Langafi minn og langamma voru Hrefna Hermannsdóttir og Jónas Björnsson og Ingimar Þorláksson og Elsa Björnsdóttir.

Þau bjuggu öll á Skálarhlíð þegar ég var að koma lítil í heimsókn. Heimili ömmu og afa á Suðurgötunni var mitt annað heimili. Önnur hver jól vorum við fjölskyldan hjá þeim og hin jólin þau hjá okkur og við notuðum hvert tækifæri til að hittast.

Ég dvaldi hjá þeim á sumrin og í vetrarfríum og bara hvenær sem tækifæri gafst.

María Lísa með einn af viðskiptavinum sínum

Átt þú einhverjar minningar þaðan? Ef svo er, hverjar eru skemmtilegastar?

Ég á svo margar minningar þaðan, bæði góðar og slæmar, en mér þykir mjög vænt um allar þessar minningar.

Ég átti ekki marga vini á Siglufirði. Amma mín var minn besti vinur og við gerðum svo margt skemmtilegt saman. Amma var mjög listræn og var alltaf að föndra eitthvað og búa eitthvað til svo það var alltaf nóg að gera. Ég fékk það frá henni að ég hef gaman af alls kyns hönnun og er fyrir löngu byrjuð að hanna útlitið á mínu eigin fyrirtæki.

Stóri garðurinn hennar ömmu á Suðurgötunni var endalaus uppspretta ævintýra og verkefna og svæðið allt í kring bauð upp á endalausa möguleika til sköpunar. Við byggðum ófá snjóhús saman á veturna og á sumrin fórum við daglega yfir um til að leika í fjörunni þar og óðum í læknum í skógræktinni. Ísrúntur á kvöldin var svo fastur passi.

Amma vissi allt um fugla og var óþreytandi í að fræða okkur Björn um þá. Krían var uppáhalds fuglinn hennar. Ég var skíthrædd við kríur en eftir að hún sagði mér að krían væri bara að passa ungana sína og að það gerði það enginn eins vel og hún þá róaðist ég og mér þykir vænt um kríur í dag.

María Lísa að störfum

Hvað varð til þess að þig langaði að fara út í dýrasnyrtinganám?

Mig hefur alltaf langað til að vinna með dýrum. Hugmyndin var að verða dýralæknir en fljótlega fór ég að færast meira í þá átt að annast dýr og vera góð við þau (öðruvísi góð en dýralæknar). Ég fór því í líffræði í Háskólanum eftir stúdentspróf til opna á möguleg tækifæri til að vinna til dæmis í dýragörðum erlendis eða einhverju sambærilegu.

Vinna í dýragörðum erlendis virtist á tímabili fjarlægur draumur og alvara lífsins einhvern veginn tók yfirhöndina. Ég hætti því í náminu eftir aðeins eina önn og skipti yfir í tölvunarfræði. Ég mat það svo á þeim tíma að það væri miklu gáfulegra og auðveldara að fá góða vinnu og svona með gráðu þaðan en þetta var ekki draumajobbið. Hitt blundaði alltaf í mér.

Amma og afi á Suðurgötunni voru lengi mikið veik. Veikindi þeirra og andlát hafði mikil áhrif á mig og þrekið í náminu var lítið. Allskyns aðrir hlutir eins og þunglyndi og depurð voru líka að flækjast fyrir mér og námið varð mér ofviða. Ég vildi þó ekki hætta alveg svo ég ákvað að skrá mig frekar í kvöldskóla í NTV skólanum og þar er ég að ljúka námi í forritun í vor.

Eins og fram hefur komið er ég með mörg gæludýr. Esja kom til okkar í apríl árið 2020, þá þriggja ára, og við það einhvern veginn opnaðist aftur á þennan draum minn að vinna með dýrum og hlutirnir fóru að gerast. Mig langaði til að vinna með dýrum og langaði líka til að læra í útlöndum og datt þá niður á þessa hugmynd að læra dýrasnyrtingar – og opna þá mína eigin stofu.

Ég komst í samband við frábæran dýrasnyrti, Sóley Möller, sem leyfði mér að fylgjast með sér að störfum í nokkra daga og þá var ekki aftur snúið. Sóley hafði lært í Englandi svo ég ákvað bara að feta í fótspor hennar og fann nám á netinu sem mér leist vel á.

Hvar lærði þú ?

Ég fór í skóla í Hastings, á suðurströnd Englands, sem heitir Gillsmans Dog Grooming Salon & School og dvaldi þér í 6 vikur. Ég lærði að snyrta allar tegundir af feldum á hundum og lærði einnig skyndihjálp fyrir hunda og ketti. Ég útskrifaðist með OCN Level 3 diploma gráðu.

Hundurinn Skorri fyrir og eftir snyrtingu hjá Maríu Lísu


Hvernig aðstöðu ert þú með og hvernig var að koma henni upp?

Ég mun verða með aðstöðu í bílskúrnum heima hjá okkur að Hörgslundi 8 í Garðabæ en framkvæmdir standa yfir sem stendur.

Það er engin dýrasnyrtistofa í Garðabæ og Dýraspítalinn í Garðabæ er í næstu götu svo staðsetningin er mjög heppileg. Sem stendur er ég með aðstöðu í þvottahúsinu en framkvæmdum miðar vel svo það styttist í að stofan mín í bílskúrnum verði tilbúin.

Mamma og pabbi hafa sýnt ótrúlegt jafnaðargeð í þessu brölti mínu og æsa sig ekkert þó ég baði hundana í sturtunni á baðinu á meðan ég er með aðstöðuna í þvottahúsinu. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir stuðning þeirra. Ég gæti þetta ekki án þeirra.

Hver eru framtíðaráform og draumar þínir varðandi vinnuna þína?

Mér líður eins og ég hafi dottið í lukkupottinn og sé búin að finna framtíðarstarfið. Ég sé mig fyrir mér í þessu áfram, sjálfstæð, með mitt eigið fyrirtæki og mína eigin hönnun, kannski búandi í útlöndum en umfram allt umkringd dýrum.

Trölli.is þakkar Maríu Lísu fyrir áhugaverð, skemmtileg og einlæg svör og óskar henni velfarnaðar í starfi og lífi.

Myndir/ úr eikasafni