Mikael Sigurðsson nemandi á fyrsta ári í MTR hefur áhugamál sem teljast verður óvenjulegt hjá svo ungum einstaklingi.

Áhugamálið er fuglaskoðun og fuglaljósmyndun. Hann stefnir að því að slá Íslandsmet með því að verða yngstur til að sjá og mynda 200 fuglategundir. Hann er aðeins fimmtán ára og er kominn í 171 tegund. Fuglarnir verða að vera lifandi þegar mynd næst af þeim. Síðan þarf að senda myndina til Flækingsfuglanefndar og hún þarf að staðfesta tilvikið.

Mikael náði í síðustu viku að mynda Ormskríkju, lítinn amerískan spörfugl, við Reykjanesvita. Fleiri náðu mynd af fuglinum, en þessi tegund hefur aðeins einu sinn áður sést hér á landi.

Flækingsfuglar sjást oftast á Reykjanesi og á svæðinu í grennd við Höfn í Hornafirði þannig að það er um langan veg að fara frá Siglufirði til að mynda þá. Mikael er á tónlistarbraut en segist einnig hafa áhuga á náttúrufræðibraut. Hann spilar á bassa og gítar og er í hljómsveitinni Ronja og ræningjarnir sem hefur komið fram opinberlega meðal annars með Karlakórnum í Fjallabyggð.

Mikael er sonur Sr. Sigurðar Ægissonar sem er forfallinn fuglaáhugamaður og segist hafa elt pabba sinn í náttúruskoðun og fuglaljósmyndun síðan hann var þriggja ára. Áhugi á lífríki og náttúruvísindum er líka ríkur í móðurætt Mikaels þannig að hann hefur frá blautu barnsbeini átt góðar stundir við margvíslega iðkun í íslenskri náttúru.

Á forsíðumyndinni er Ormskríkja, myndin er að sjálfsögðu eftir Mikael Sigurðsson.