Mikill velvilji er í samfélaginu vegna ástandsins í Úkraínu og nágrannalöndum þess sem hafa tekið á móti fólki á flótta. Á sérstöku vefsvæði þar sem tekin eru saman viðbrögð íslenskra stjórnvalda við innrás Rússlands í Úkraínu er að finna upplýsingar um hvernig einstaklingar geta veitt stuðning til Úkraínu þannig hann nýtist sem best.
Um leið og fréttir bárust af innrásinni ákvað Ísland að veita þá þegar 150 millj. kr. til mannúðaraðstoðar vegna Úkraínu sem skiptast jafnt á milli Alþjóðaráðs Rauða krossins, Úkraínusjóðs samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Viðbótarframlag að upphæð 150 millj. kr. var svo veitt þann 2 mars sem skiptist á milli Rauða krossins á Íslandi, Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).
Beinn fjárhagstuðningur og sending hjálpargagna til Úkraínu
Bein fjárframlög frá almenningi koma eins og sakir standa að betri notum en útbúnaður og gögn. Því er mælst til þess að þau sem vilja leggja hjálparsamtökum og öðrum lið vegna stöðunnar í Úkraínu skoði beinan fjárstuðning við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og félagasamtök sem nú þegar eru á vettvangi.
Hér eru upplýsingar um einstaka fjársafnanir á vegum íslenskra félagasamtaka sem eiga í samstarfi við utanríkisráðuneytið:
Barnaheill – Save the Children á Íslandi
Sendingar sem ekki hefur beinlínis verið óskað eftir eiga það á hættu að teppa flutningsleiðir fyrir forgangssendingum. Rétt er því að vekja athygli á því að ekki er æskilegt að hefja sendingar á birgðum eða vistum á eigin spýtur nema móttaka og ráðstöfun gagnanna hafi fyrirfram verið tryggð af hálfu móttakanda. Sendingar með ýmsum varningi eru þegar teknar að hrannast upp í hjálparmiðstöðvum grannríkja Úkraínu.
Almannavarna- og mannúðarsamhæfingardeild Evrópusambandsins
Yfirvöld vinna af fullum krafti við að skipuleggja sem best allar hliðar hjálparstarfs. Ísland er aðili að Almannavarna- og mannúðarsamhæfingardeild Evrópusambandsins (The Emergency Response Coordination Centre ERCC) sem gegnir samhæfingarhlutverki neyðaraðstoðar vegna Úkraínu og nágrannaríkjanna. Lögð er mikil áhersla á að löndin veiti skipulagða aðstoð sem er vandlega forgangsraðað. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er tengiliður Íslands við þetta samstarf og sér um samhæfingu vegna þess hér innanlands.
Sjálfstæð félagasamtök vinna jafnframt af fullum krafti að því að veita liðsinni í gegnum þau skipulögðu úrræði og tengingar sem þau samtök hafa á alþjóðavísu.
Fólk á flótta
Ef þú þekkir til eða ert í samskiptum við fólk á flótta sem vill leggja leið sína til Íslands er þér bent á upplýsingasíðu Útlendingastofnunar á íslensku og á ensku. Þar koma alltaf fram nýjustu upplýsingar fyrir fólk frá Úkraínu sem hyggst koma til Íslands.
Að undangengnu samráði, innan lands sem utan, hefur dómsmálaráðherra ákveðið að virkja 44. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 þegar í stað, vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Þessi ákvörðun er í samræmi við þá ákvörðun ESB að virkja samskonar úrræði með tilskipun nr. 2001/55/EB um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta. Móttaka flóttamanna hérlendis mun ná til sömu skilgreindu hópa og þeirra sem ESB hefur ákvarðað. Þessi aðferð er fyrst og fremst til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð, nánar tiltekið tímabundna vernd, án þess að móttakan og aðstoðin verði verndarkerfi Íslands ofviða.
Útlendingastofnun hefur tekið saman upplýsingar sérstaklega fyrir fólk sem er að flýja frá Úkraínu.
Upplýsingasíða á íslensku fyrir ríkisborgara Úkraínu
Information in English for Ukrainian citizens
Aðstoð á Íslandi
Flóttamannanefnd hefur verið falið að fylgjast náið með framvindu mála er varða fólk á flótta frá Úkraínu, bæði í samráði við Norðurlönd, önnur Evrópuríki sem og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem að fylgjast sérstaklega vel með aðstæðum á landamærum nágrannaríkja landsins.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur skipað sérstakt aðgerðateymi vegna komu einstaklinga á flótta frá Úkraínu. Teymið fer með yfirstjórn aðgerða og vinna að skipulagningu á móttöku fólks frá Úkraínu.
Þá er ráðgert að opnuð verði sameiginleg rafræn gátt fyrir tilboð um aðstoð svo tryggja megi yfirsýn og meta þörf og eftirspurn. Sérstaklega á það við um tilboð um húsnæði til skemmri eða lengri tíma.