Fjarðargangan 2019 fer fram í Ólafsfirði 9. febrúar næstkomandi kl. 11:00 og er uppselt í gönguna þar sem 150 manns hafa þegar skráð sig. Árið 2018 tóku 60 manns þátt í Fjarðargöngunni svo segja má að þáttaka fari fram úr björtustu vonum þar sem skráningu átti að ljúka 7. febrúar.

Mikill metnaður hefur verið lagður í gönguna og að upplifun keppenda verði sem skemmtilegust. Brautarlögn er sérstaklega unnin fyrir trimmara og er aðal markmiðið að hafa gaman og í leiðinni að skora á sjálfan sig.

Myndin sem tekin var 3. febrúar sýnir að aðstaðan í Ólafsfirði er tilbúin fyrir skemmtilegt mót. Mynd/Kristján Hauksson

Keppt verður í 30 km göngu fyrir 17 ára og eldri, 15 km göngu fyrir 12 ára og eldri og 5 km göngu þar sem ekkert aldurstakmark er.

Glæsilegt veislukaffi verður í Tjarnarborg kl. 16:00 þar sem veitt verða verðlaun og útdráttarverðlaun.

Fjarðargönguhátíð verður í Tjarnarborg, húsið opnar kl. 19:00 og dagskrá hefst kl. 19:30. Í boði verður matur, skemmtiatriði, hópsöngur og ball með hljómsveitinni Aprés Ski.

Skemmtunin verður opin fyrir alla og miðaverð er kr. 6.900 á mann. Skráningarfrestur á skemmtunina er til og með 7. febrúar hjá Leu í síma 783 4310 eða lea@northexperience.is.

 

 

Dásamlegt er um að lítast í Ólafsfirði. Mynd/Kristján Hauksson