Blátunga, sem er sjúkdómur í jórturdýrum, hefur geisað í mörgum löndum Evrópu undanfarið ár og blossað upp í Danmörku, Noregi og Svíþjóð á síðustu vikum. Þetta er veirusjúkdómur sem er algengur víða um heim en hefur ekki oft komið upp á Norðurlöndunum. Hann berst milli dýra með flugum sem eru af sömu ætt og lúsmý. Mjög ólíklegt er að blátunguveira berist til Íslands en þó er ávallt mikilvægt að vera á verði gagnvart útbreiðslu sjúkdóma og vakandi fyrir sjúkdómseinkennum.

Útbreiðsla

Það afbrigði blátunguveirunnar sem nú geisar á Norðurlöndunum (BTV-3) greindist fyrst í Hollandi í september 2023. Þetta afbrigði hefur síðan greinst á þúsundum nautgripa- og sauðfjárbúa í fjölmörgum löndum. Á sama tíma hafa önnur afbrigði veirunnar líka verið að finnast.

https://wahis.woah.org/#/dashboards/country-or-disease-dashboard

Smitleiðir og dýrategundir

Aðeins jórturdýr geta sýkst, svo sem sauðfé, geitur, nautgripir og hreindýr. Önnur dýr og fólk smitast ekki.

Veiran berst aðallega milli dýra með ákveðnum tegundum af lúsmýi en getur líka smitast með sprautunálum og sæði. Jafnframt getur veiran borist frá móður til fósturs. Smit verður ekki með beinni snertingu og ekki með afurðum.

Til að lúsmý geti borið veiruna þarf það að hafa sogið blóð úr smituðu dýri og vera af tegund sem getur verið smitferja. Að því er virðist geta ekki allar tegundir lúsmýs ferjað veiruna milli dýra og ekki er vitað hvort það lúsmý sem fundist hefur hér á landi gæti gert það.

Mjög ólíklegt verður að teljast að blátunguveiran berist til Íslands, bæði vegna þess að ekki eru flutt inn lifandi jórturdýr og erfitt er fyrir lúsmý að komast lifandi til Íslands frá Evrópu. Það hefur verið sýnt fram á að lúsmý geti borist með vindi allt að 700 km vegalengd en fullorðið mý drepst ef hitastigið fer niður fyrir 10°C.

Sjúkdómseinkenni

Sum sýkt dýr geta verið án einkenna en önnur orðið veik og jafnvel drepist. Í þeim faraldri sem nú geisar á Norðurlöndunum hafa komið fram mun alvarlegri einkenni í sauðfé en nautgripum.

Helstu sjúkdómseinkenni í sauðfé eru: andnauð, bjúgur á höfði, hiti, deyfð, sár á slímhimnu í munnholi, bláleit tunga, helti vegna sára á klaufrönd og sár á spenum.

Helstu sjúkdómseinkenni í nautgripum eru: bjúgur á höfði, sár á slímhimnu í munnholi, slefa, rennsli úr grönum og augum, helti og sár á spenum.

BTV-3 afbrigði veirunnar veldur alvarlegri einkennum en BTV-8 sem geisaði í Evrópu árið 2008.

Viðbrögð

Þar sem blátunga hefur greinst að undanförnu eru viðbrögð opinberra aðila í sumum tilfellum engin en í öðrum er bann sett við flutningi jórturdýra frá smituðum hjörðum, nema til slátrunar. Í flestum löndum er bændum frjálst að láta bólusetja dýrin sín á eigin kostnað en velji þeir að gera það er þeim skylt að skrá bólusetninguna. Það er vegna þess að ekki er hægt að aðgreina mótefni sem dýrin mynda við sýkingu annars vegar og bólusetningu hins vegar. Því er gert skylt að skrá þau dýr sem bólusett eru, til að hægt sé að fylgjast með uppkomu og útbreiðslu nýrra tilfella. Bólusetning kemur ekki alfarið í veg fyrir að dýrin veikist en dregur úr sjúkdómseinkennum.

Ítarefni

Vefsíða Fødevarestyrelsen í Danmörku: https://foedevarestyrelsen.dk/dyr/dyresundhed/dyresygdomme/bluetongue/bluetongue-nyheder-og-viden 

Vefsíða Mattilsynet í Noregi: https://www.mattilsynet.no/dyr/dyresykdommer/blatunge 

Vefsíða Jordbruksverket í Svíþjóð: https://jordbruksverket.se/djur/djurskydd-smittskydd-djurhalsa-och-folkhalsa/aktuellt-lage-for-smittsamma-djursjukdomar/blatunga