Rannsóknarinnviðir eru aðstaða, aðföng og þjónusta sem vísindamenn nýta við rannsóknir og til að stuðla að nýsköpun á fagsviðum sínum. Til þeirra teljast t.d. sérhæfður tækjabúnaður eða -samstæður, skjala- og gagnasöfn, rafrænir innviðir, samskiptanet og önnur tæki sem eru nauðsynleg til að ná árangri í rannsóknum og nýsköpun. Á síðustu árum hefur verið mikil áhersla á uppbyggingu rannsóknarinnviða í nágrannalöndum Íslands. Flest ríki Evrópu hafa mótað sér sérstaka stefnu um uppbyggingu og aukna fjárfestingu í rannsóknarinnviðum. Víða er litið á slíka stefnu sem mikilvægan hluta af því að efla þekkingarstarfsemi í landinu, bæði í opinberum stofnunum, háskólum og hjá fyrirtækjum í nýsköpun.
Nú er kominn út fyrsti íslenski vegvísirinn um rannsóknarinnviði en þar eru tilgreindir viðamiklir innviðir og innviðakjarnar sem uppfylla kröfur um að styðja við gæði í rannsóknum á Íslandi og samræmast áherslum Vísinda- og tækniráðs. Með því að skilgreina slíka kjarna og huga að uppbyggingu þeirra til framtíðar er markmiðið að sækja fram og auka nýtingu og áhrifrannsóknarinnviða sem byggðir eru upp hér á landi. Vegvísirinn kemur út á íslensku og ensku og er útgáfa hans samvinnuverkefni stjórnar Innviðasjóðs, Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Áherslur Íslands í uppbyggingu rannsóknarinnviða eru:
• að efla uppbyggingu og rekstur rannsóknarinnviða með skýrri framtíðarsýn
• að opna aðgengi að rannsóknarinnviðum og hámarka nýtingu þeirra
• að styrkja innlent sem erlent samstarf um rannsóknarinnviði
Gert er ráð fyrir að vegvísir um rannsóknarinnviði verði endurskoðaður reglulega og til grundvallar muni liggja áherslur stjórnvalda hvers tíma í vísinda- og tæknimálum eins og þær birtast í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, fjármálaáætlun og fjárlögum. Til grundvallar verður einkum litið til faglegs mats á verkefnum og þarfa og sóknarfæra íslensks rannsóknasamfélagsins.
Auglýst verður eftir nýjum verkefnum á uppfærðan vegvísi innan fárra ára og er vísindasamfélagið hvatt til þess að vinna áfram að auknu samstarfi um rannsóknarinnviði, jafnt innan verkefna sem nú hafa stöðu á vegvísi sem og með mótun nýrra verkefna.
Mynd: Magnús Lyngdal Magnússon
Skoða á vef Stjórnarráðsins