Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt Fjallabyggð um úthlutun á 185 tonnum af byggðakvóta, af alls 4623 tonna byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs 2022-2023.

Fjallabyggð fær samtals 3,8% af heildarúthlutun til allra byggðarlaga. Kvótinn skiptist á milli sveitarfélagsins þannig að til Ólafsfjarðar fara 55 tonn, sem er 10 tonnum meira en úthlutað var á síðasta ári, en til Siglufjarðar fara 130 tonn sem er 10 tonnum minna en úthlutað var á síðasta ári. Heildartonnafjöldinn þ.e. 185 tonn sem úthlutað er til byggðarlagsins er sá sami og úthlutað var á síðasta ári.

Bæjarfélaginu er gefinn frestur til 13. janúar nk. að senda ráðuneytinu tillögur um sérreglur.

Á fundi bæjarráðs sem haldinn var 20. desember sl. fól bæjarráð bæjarstjóra að boða hagsmunaaðila til opins samráðsfundar, þar sem aðilum verður gefinn kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri.

Ráðgert er að halda fundinn í Tjarnarborg fimmtudaginn 5. janúar kl. 17:00.

Vegna úthlutunar á byggðakvóta síðasta fiskveiðiárs sendi Fjallabyggð ráðuneytinu eftirfarandi ósk um sérreglur í reglugerð 995/2021 vegna byggðakvóta.

,,Lagt er til að sérreglur í reglugerð hvað varðar Fjallabyggð verði með þeim hætti að heimilt verði að landa afla innan sveitarfélags óháð því í hvoru byggðarlagi bátur fær úthlutun, einnig er lagt til að hámark úthlutunar til hvers skips verði ekki meiri en 80 tonn, að síðustu er óskað eftir sérreglu er varðar skilgreiningu á vinnslu sem fram kemur í 4 mgr. 6. gr þ.e. að henni verði breytt með þeim hætti að slæging bolfisks teljist til vinnslu. Ákvæði reglugerðar nr. 995/2021 gilda um úthlutun byggðakvóta Ólafsfjarðar og Siglufjarðar með eftirfarandi breytingum:

a) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi sveitarfélags á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021, þó að hámarki 80 þorskígildistonn á fiskiskip.

b) Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.

c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2021 til 31. ágúst 2022.

d) Í ákvæði 4. mgr. 6. gr. verði bætt “slægingu á bolfisk” í upptalningu á vinnslu. Hvað varðar rökstuðning vegna stafliða a til c vísast til rökstuðnings fyrri ára. Rökstuðningur fyrir ósk sem fram er sett í staflið d er að nú eru engar starfandi vinnslur í sveitarfélaginu sem hafa hug á að vinna bolfiskafla í samræmi við skilgreiningu 4. mgr. 6. gr. reglugerðar. Breytingar hafa orðið frá fyrra ári enda hefur rekstrarumhverfi smærri fiskvinnsla verið mjög erfitt um langt skeið. Af þeim sökum og þar sem til staðar eru vinnslur sem hafa hug á að kaupa fisk og slægja og að með því skapast störf þá er það mat bæjarstjórnar að staðinn sé vörður um atvinnu í sveitarfélaginu til sjós og lands.