Í ársskýrslu Kærunefndar útlendingamála vegna ársins 2017 kemur fram að Útlendingastofnun braut lög ítrekað, við frávísun fólks frá landinu.

Fram kemur að kærunefnd felldi úr gildi 57% ákvarðana Útlendingastofnunar, að hluta eða fullu, vegna umsókna um alþjóðlega vernd frá ríkisborgurum landa á lista yfir svo kölluð örugg upprunaríki árið 2017.

 

 

Trölli.is leitaði til Arndísar Önnu K. Gunnarsdóttur, lögfræðings hjá Rauða krossinum, sem einnig er doktorsnemi í mannréttindum við háskólann í Strassborg í Frakklandi, til að segja okkur aðeins betur frá þessu.

„Segja má að þessar tölur renni stoðum undir gagnrýni okkar á framkvæmd Útlendingastofnunar í flóttamannamálum þar sem yfirgnæfandi hluti þessara ákvarðana voru felldar úr gildi vegna þess að framkvæmd Útlendingastofnunar var ekki talin í samræmi við lögin.

Þá staðfesta þessar tölur einnig þær áhyggjur okkar, sem við höfðum þá og höfum að ákveðnu leyti enn, að Útlendingastofnun fylgi ekki fyrirmælum kærunefndarinnar um túlkun laga um málefni flóttamanna. Kærunefndin er æðra stjórnvald og ber Útlendingastofnun því að fylgja fyrirmælum hennar varðandi beitingu laganna.“

Í skýrslunni er einnig minnst á nýja reglugerð um útlendinga, sem kærunefndin segir að festi að mestu í sessi túlkun kærunefndarinnar, en eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur sú reglugerð einnig sætt þeirri gagnrýni frá Rauða krossinum að tiltekin ákvæði hennar standist ekki lög og séu ekki í samræmi við vilja löggjafans.

 

 

Forsíðumynd: Kristín Sigurjónsdóttir
Frétt: Gunnar Smári Helgason / Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Aðrar myndir: Frá Palmyra, Sýrlandi, teknar tæpu ári áður en átökin í Sýrlandi hófust, fengnar úr ársskýrslu Kærunefndar útlendingamála sem nálgast má hér