Afhending skýrslu: Valdbeiting á vinnustað – rannsókn á algengi og eðli eineltis og áreitni á íslenskum vinnumarkaði.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók nýlega á móti og kynnti fyrir ríkisstjórn skýrsluna Valdbeiting á vinnustað – rannsókn á algengi og eðli eineltis og áreitni á íslenskum vinnumarkaði. Þar kemur meðal annars fram að rúmlega tveir af hverjum tíu hafa orðið fyrir einelti á vinnustað og eru konur líklegri en karlar til að greina frá því, eða um 25 prósent kvenna á móti sjö prósentum karla. Þá eru fatlaðir þátttakendur og þátttakendur með skerta starfsgetu mun líklegri til að hafa reynslu af einelti en þátttakendur án skerðingar eða fötlunar, eða 35 prósent á móti 20 prósentum.
Um 16 prósent þátttakenda greina frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni einhvern tíma á vinnuferlinum; 25 prósent kvenna og 7 prósent karla. Fatlaðir þátttakendur og þátttakendur með skerta starfsgetu eru samkvæmt skýrslunni líklegri til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað einhvern tíma á lífsleiðinni en aðrir þátttakendur, eða 21 prósent á móti 15 prósentum.
Þátttakendur með erlent ríkisfang eru síður líklegir til að greina frá kynferðislegri áreitni en aðrir eða 6 prósent á móti 17 prósentum. Eigindlegar niðurstöður gefa þó til kynna að það megi að hluta til rekja til ólíkrar menningarbundinnar upplifunar.
Um einn af hverjum tíu á vinnumarkaði hefur upplifað kynbundna áreitni á vinnuferli sínum; 17 prósent kvenna og 4 prósent karla. Þátttakendur með íslenskt ríkisfang eru líklegri en þátttakendur með erlent ríkisfang til að greina frá henni eða 11 prósent á móti 5,8 prósentum.
Rannsóknin gefur til kynna að þátttakendur með íslenskt ríkisfang upplifi að jafnaði minna álag í starfi, meiri stuðning frá stjórnendum og minna óöryggi í starfi en fólk með erlent ríkisfang. Þá upplifi fatlaðir þátttakendur og þátttakendur með skerta starfsgetu að jafnaði minni stuðning frá stjórnendum og meira óöryggi í starfi en ófatlað fólk og fólk með engar skerðingar.
Alls greindu 4 prósent þátttakenda frá reynslu af kynferðislegri áreitni á núverandi vinnustað. Þegar svör voru greind eftir stærð vinnustaða og tegund starfs kom í ljós að fólk sem starfar á fámennum vinnustöðum (1-9 starfsmenn) er ólíklegra til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni (1 prósent) en fólk á stærri vinnustöðum (4,2 – 5,1 prósent). Sérfræðingar í umönnunarstörfum reyndust mun líklegri en fólk í öðrum störfum til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað eða 13 prósent á móti 1 til 6 prósentum. Þar á eftir kom starfsfólk í þjónustu- og verslunarstörfum eða 5,9 prósent.
Meirihluti þátttakenda eða 72 prósent taldi að #MeToo hreyfingin hafi haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Konur eru jákvæðari í garð hreyfingarinnar en karlar, en 81 prósent kvenna taldi hreyfinguna hafa haft mjög eða frekar jákvæð áhrif á móti 63 prósentum karla.
Rúmlega 41 prósent fulltrúa stjórnenda greindi frá því að unnið sé eftir jafnréttisáætlun á þeirra vinnustað. Um 42 prósent stjórnenda svöruðu því til að á vinnustaðnum hafi verið framkvæmt áhættumat sem tekur til alls vinnuumhverfisins og um 20 prósent greindu frá því að áhættumat hafi verið gert sem tekur til hluta vinnuumhverfisins. Einungis um 7 prósent sögðu að áhættumat hafi náð til sálfélagslegra þátta.
Aðgerðarhópur tekur mið af niðurstöðum nefndar
Ásmundur Einar skipaði í lok febrúar 2018 nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði. Henni var sömuleiðis falið að meta aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál á vinnustöðum. Nefndin var skipuð í kjölfar vitundarvakningar meðal almennings sem kennd er við #MeToo og spratt upp á samfélagsmiðlum haustið 2017, en þar sögðu konur og karlar meðal annars frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni í starfi og þeim vanda sem felst í kerfisbundinni áreitni, mismunun og ofbeldi á íslenskum vinnumarkaði. Verkefni nefndarinnar var þríþætt:
- Að kanna reynslu starfsmanna af kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum sem þolendur, vitni eða gerendur.
- Að kanna meðal vinnuveitenda með hvaða hætti þeir hafa brugðist við kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum. Þar á meðal til hvaða aðgerða hafi verið gripið.
- Að kanna meðal vinnuveitenda hvort þeir hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum sínum. Þar með talið áætlun um forvarnir þar sem meðal annars komi fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum þeirra. Eins til hvaða aðgerða skuli gripið ef slík hegðun á sér stað eða hafi átt sér stað á vinnustöðum þeirra eða ef þeir verða varir við slíkt á vinnustað sínum.
Nefndin ákvað að fela Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að gera rannsókn á ofangreindu og eru niðurstöðurnar kynntar í skýrslunni Valdbeiting á vinnustað – rannsókn á algengi og eðli eineltis og áreitni á íslenskum vinnumarkaði sem er ítarleg og yfirgripsmikil.
Í ágúst 2018 skipaði Ásmundur Einar aðgerðarhóp í því skyni að vinna gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum. Hópurinn var skipaður til tveggja ára og er honum ætlað að koma á fót og fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir að þessir hlutir eigi sér stað. Mun aðgerðarhópurinn meðal annars taka mið af niðurstöðum skýrslu Félagsvísindastofnunar, en í ábendingarkafla hennar kemur fram að:
- bæta þurfi stefnur fyrirtækja í þessum efnum, kynningu og eftirfylgni.
- bæta þurfi verklagsreglur á vinnustöðum.
- efla þurfi fræðslu og leiðsögn.
- auka þurfi meðvitund um stöðu ólíkra hópa á vinnumarkaði.
- bæta þurfi stuðning við þolendur.
- huga þurfi að samspili vinnustaðamenningar og eineltis og áreitni
Myndartexti: Ásta Snorradóttir nefndarformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson, formaður aðgerðarhóps, afhentu Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, skýrsluna, ræddu niðurstöður hennar og þær aðgerðir sem hún kallar á.
Af: stjornarradid.is