Í dag, miðvikudaginn 14. febrúar er Valentínusardagurinn, einnig nefndur Valentínsdagur.
Dagurinn er helgaður ástinni og er haldinn hátíðlegur á messudegi heilags Valentínusar 14. febrúar ár hvert.
Dagurinn á uppruna sinn í Evrópu á 14. öld. Meðal þess sem er hefðbundið að gera þennan dag er að senda sínum heittelskaða/sinni heittelskuðu gjafir á borð við blóm og konfekt og láta Valentínusar kort fylgja með.
Þessar hefðir eiga uppruna sinn í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum en í öðrum löndum gilda aðrar hefðir og sums staðar er dagurinn helgaður vináttu í stað ástar.
Í löndum þar sem ekki er löng hefð fyrir því að halda Valentínusardaginn hátíðlegan hafa bandarískir siðir gjarnan fylgt þegar venjan er tekin upp.
Valentínusardagur hefur orðið meira áberandi á Íslandi hin síðari ár sem dagur elskenda líkt og tíðkast víða um hinn vestræna heim.
Siðurinn er tiltölulega nýr hér á landi en segja má að samsvarandi ástartjáning hafi tíðkast hér frá örófi alda þegar konur gleðja bónda sinn eða elskhuga á fyrsta degi þorra, bóndadeginum, eða þegar karlar færa konu sinni eða unnustu blóm á konudaginn, fyrsta dag góu.