Á vefsíðunni Blika.is er Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur með vangaveltur um veðrið næstu 10 daga. Þar segir Einar meðal annars:

“Við skoðun á hringstreymi norðurhvels upp í 5 km hæð (500hPa) sést áhugaverð þróun. Við getum líka kallað hana framrás haustsins eða vetrarbyrjun í N-Ameríku.

Set upp þrjú kort, öll af sama svæði.  Rauður hringur um Ísland og norðurpóllinn ofarlega til hægri.

Það fyrsta er á miðnætti 31. október.  Kaldasta loftið er einangrað að mestu við Íshafið og aðeins í Síberíu.

Næst er spá 3. nóvember.  Þá er aflögun vindsviðsins orðin greinileg og stefnir í það að verða tvípóla.  Kólnar ört í lofti í N-Kanada og við Baffinsland. Kuldahvirfill er þar í örri mótun.

Þriðja kortið er spá fyrir 7. nóvember.  Kalda svæðið orðið “ílangt” og greinilegur hvirfill vestur af Hudsonflóa. Skarpt drag um austurhluta Bandaríkjanna og Kanada.  Skotvindurinn eflist og fær fjör í lægðamyndanir.

Gangi þetta eftir, sem reyndar allar líkur eru á, hefur það áhrif hér á landi 3 til 5 dögum síðar með fari alvöru lægða.  Og reyndar er einni slíkri spáð strax á laugardag á Grænlandshafi, þ.e. 9. nóvember.

Hvað veldur síðan þessari aflögun í háloftavindinum á aðeins nokkrum dögum ?

Fyrri skýringin er einfaldlega sú sem nefnd var í upphafi, þ.e. framrás haustsins og kólnun stóru meginlandanna.  Þetta gerist oft með áþekkum hætti um þetta leyti, stundum reyndar aðeins síðar. Þá seinni er að finna uppi í heiðhvolfinu.  Hún er langsóttari og flóknari.”

Sjá nánar á blika.is