Undanfarnar vikur hafa óprúttnir aðilar reynt að nálgast korthafa með tölvupósti eða sms skilaboðum í nafni þekktra innlendra fyrirtækja og beðið korthafa um að senda persónu- og kortaupplýsingar vegna væntanlegrar endurgreiðslu inn á greiðslukort.
Af því tilefni er rétt að ítreka að almenna reglan er að fyrirtæki og stofnanir biðja ekki um kortaupplýsingar einstaklinga, hvorki í tölvupósti, í gegnum SMS eða með símtali. Fái korthafar slíka beiðni mælum við með að viðkomandi hafi beint samband við viðkomandi fyrirtæki eða stofnun og sannreyni uppruna slíkra beiðna.
Það er mikilvægt að korthafar staldri við þegar þeir fá slík skilaboð, hvort sem er í pósti eða með sms. Í sumum tilvikum eru svikararnir að nýta sér staðfestingarkóda í gegnum Vottun Visa með sms. Í kódanum kemur fram hvaða færslu er verið að biðja um staðfestingu á, söluaðili, upphæð og gjaldmiðill. Ef færsla er staðfest hjá söluaðila með slíkum kóda þá er hún óafturkræf. Því miður eru dæmi um að korthafar hafið tapað háum upphæðum vegna svika af þessum toga.
Bankarnir brýna fyrir korthöfum að smella ekki á hlekkinn sem fylgir skilaboðunum og gefa ekki undir neinum kringumstæðum upp kortaupplýsingar. Hafi fólk brugðist við slíkum skilaboðum eða eru í minnsta vafa um réttmæti upplýsinga sem þeir fá er brýnt að hafa samband strax við viðskipta bankann sinn eða þjónustuver Valitor utan opnunartíma bankans.