Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.
Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).
Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.
Vatn í poka
Þetta er nú leiðinda saga, en segir þó frá því hvað krakkar voru að bauka við.
Sumir stóru strákarnir voru ekta hrekkjalómar og hrekktu allt og alla. konur og kalla. Eitt sinn var ég beðinn um að koma með. Ég var ekki orðinn sjö ára og skíthræddur við stóru strákana.
Heyrðu, sko, þú átt bara að banka á dyrnar og svo hlaupa og fela þig þegar konan kemur til dyra. Þetta gat ekki verið erfitt. Ég gekk að dyrunum og bankaði. Yfir dyrunum á neðri hæðinni var inngangurinn á efri hæðina og þar var handrið beint yfir dyrunum þannig að þegar einhver kom út í dyrnar sást beint niður á höfuðið.
Ég beið aðeins til að sjá hvort konan kæmi til dyra. En það var bara lítill sonur hennar sem stakk höfðinu út. Ég gekk fram og spurði mjög kurteislega: “er mamma þín heima”? og svo hljóp ég fyrir húshornið. Mamman kom til dyra og gekk þetta eina skref út til að sjá betur. Hrekkjalómarnir uppi voru útbúnir með pappírspoka fulla af vatni. Pokarnir héldu vatninu nokkur lengi ef passað var upp á að þeir yrðu ekki fyrir hnjaski. Nú komu fjórir pappírspokar fullir af vatni beint í höfuð konunnar. Hún æpti og formælti og skaust inn til sín. Hrekkjalómarnir hlógu og skemmtu sér vel, en ég hvorki hló né skemmti mér.
Seinna um kvöldið var bankað upp á hjá okkur í kjallaranum á ysta verkamannabústaðnum syðri enda. Við dyrnar stóð konan, sem ég hafði lokkað til dyra fyrr um daginn. Auðvitað hafði sonurinn sagt frá því hver það var sem kom og spurði eftir mömmu sinni. Og nú spurði konan eftir mér.
Ég gat ekki neitað og þegar konan spurði hverjir það voru sem létu pokana detta gat ég ekki heldur sagt ósatt eða sagst ekki muna það eða að ég þekkti þá ekki. Ég sagði því bara rétt og satt frá þessu, að stóru strákarnir hefðu beðið mig um að spyrja eftir konunni sem byggi þarna. Konan þakkaði mér fyrir og bað ekki pabba um að refsa mér eins og stundum gerðist þegar upp komst um prakkarastrik og ég var viðloðinn.
Ég heilsaði konunni alltaf eftir þetta, en það var ekki venjan að krakkar heilsuðu fullorðnu fólki á götunni.
Forsíðumynd/Einar Albertsson