Þann 23. júlí missti ökumaður stjórn á jeppa sínum á Vatnsnesvegi með þeim aðfleiðingum að hann valt. Ökumaður slapp nánast óskaddaður en bíllinn er stórskemmdur. Óhappið má rekja til ástands vegarins sem er vægast sagt ferlegt. Íbúar á Vatnsnesi hafa bent á hættuna svo árum skiptir en úrbætur hafa engar verið.

Hér er myndskeið sem sýnir ástand vegarins í júlí 2018.

 

<iframe src="https://player.vimeo.com/video/282190548?byline=0&portrait=0" width="640" height="360" frameborder="0" webkitallowfullscreen mozallowfullscreen allowfullscreen></iframe>

Vegurinn er mikið keyrður af ferðamönnum sem fara Vatnsneshringinn meðal annars til að skoða ýmsar náttúruperlur eins og t.d. Hvítserk. Auk þess eru nokkur býli og ferðaþjónustu-aðilar á Vatnsnesinu sem hafa enga kosti aðra en þennan veg til að komast leiðar sinnar.

Vegurinn er einbreiður með útskotum á stöku stað, en hann ber engan veginn þá umferð sem um hann fer. Umferðin getur verið mjög þétt á álagstímum og kalla íbúar Vatnsness á tafalausar úrbætur.

Vatnsnesvegur 26. júlí 2018

Stjórn Ferðamálafélags Vestur Húnavatnssýslu sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu 26.júlí 2016 en ekkert hefur áunnist.

“Stjórn Ferðamálafélags Vestur-Húnavatnssýslu harmar viðvarandi og langvinnt sinnuleysi á viðhaldi og uppbyggingu Vatnsnesvegar (nr. 711). Þrátt fyrir ítekraðar ábendingar til þingmanna, ráðherra og Vegagerðarinnar, til margra ára, er ástand vegarins algerlega ólíðandi.

Aukin dreifing ferðamanna um landið er yfirlýst stefna stjórnvalda, og Húnaþing vestra getur vel tekið við fleiri gestum, enda eru hér frábærir möguleikar til afþreyingar, náttúruskoðunar, gistingar, og til að njóta veitinga; svo lengi sem vegurinn um Vatnsnes er boðlegur heimamönnum jafnt og gestum. Ástand vegarins er stærsti hamlandi þáttur áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu á svæðinu, og það sem meira er, orsök mikillar óánægju og óþæginda heimamanna. Um veginn fara vel á annað þúsund manns dag hvern yfir sumarið, og hættan á því að þessir vegfarendur verði fyrir alvarlegu slysi, sökum ástands vegarins, er óásættanleg með öllu.

Við skorum á stjórnvöld að útvega Vegagerðinni nægjanlegt fjármagn til þess að laga veginn án tafar, og leggja fram áætlun um framtíðarlausn hið allra fyrsta”

Stapar á Vatnsnesi. Mynd/Kristín Sigurjónsdóttir

Vatnsnes er hálendur skagi milli Miðfjarðar og Húnafjarðar. Þar er lítið láglendi nema á vesturhlutanum. Hálendi Vatnsness nefnist einu nafni Vatnsnesfjall, en það er nokkuð skorið dölum og eru þeirra stærstir Katadalur og Þorgrímsstaðadalur.

Hæsti hnjúkur Vatnsnesfjalls er Þrælsfell, 895 m.y.s. Þaðan er víðsýnt til allra átta, en sjá má í sjö sýslur í góðu skyggni.

Hringvegur um Vatnsnes er 90 km langur. Meðal áhugaverðra eða sögufrægra staða við Vatnsneshringinn má til dæmis nefna Hamarsrétt, Illugastaði, Tjörn, Hvítserk og Borgarvirki.

Á Vatnsnesi er mikið um sel og gott aðgengi fyrir ferðamenn að skoða seli að Ósum. Í selatalningu í lok ágúst 2007 við Vatnsnes sáust 727 selir. Kauptúnið Hvammstangi stendur á vesturströnd Vatnsness.

 

Íbúar á Vatnsnesi kalla eftir tafarlausum úrbótum á veginum

 

Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og úr einkasafni
Myndbönd: Gunnar Smári Helgason og Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir
Heimild: Wikipedia