Á laugardagskvöld birtist hér á Trölla pistill eftir Árna Örvarsson þar sem hann vandar okkur, nokkrum siglfirskum „æðarbændum“, ekki kveðjurnar. Þar gætir í raun einnig ákveðinnar gagnrýni á bæjaryfirvöld fyrr og síðar. Við undirritaðir hvetjum samborgara okkar til að kynna sér innihald pistilsins:

Hlunnindi bæjarins í áskrift

Eftir þennan lestur fer maður að hugsa um það hve friðsamt og gott samfélagið er sem við búum í. Við virðum hvert annað þrátt fyrir margvísleg og ólík sjónarmið og lífsvenjur. Við erum meðvituð um hefðir og siði samfélagsins og það tíðkast til dæmis ekki að hnýta í náungann opinberlega án verulegs tilefnis (t.d. að einhver komi ruddalega fram og sýni sjaldgæfa ókurteisi!). Við sinnum ólíkum hlutverkum í daglegum störfum okkar í góðum samhljómi samfélagsins. Við veljum okkur fjölbreytileg áhugamál og frístundastörf óáreitt af aðfinnslum og gagnrýni. Við erum hestafólk og frístundabændur. Íþróttir stundar fjöldinn allur sér til ánægju og heilsueflingar. Margskonar veiðiskapur á hug margra. Aðrir annast hunda og ketti. Fuglaskoðun, ljósmyndun, fjallamennska.

Svo erum við nokkur sem höfum haft það að áhugamáli að annast um villta fugla, hlúa að þeim og vernda fyrir náttúrulegum óvinum. Það hefur síðan leitt til þess að við höfum fengið sérstök leyfi sveitarfélagsins til að taka æðardún og færa okkur í nyt. Nú er það orðið tilefni til fyrrnefnds pistils sem er fullur af ofstopa – eins og ódulbúin árás með þessum ásökunum: „peningar .. hafa runnið óskertir í vasa þeirra …“ Og við að aðhafast eitthvað sem „bærinn fái ekki svo mikið sem krónu fyrir …“. Um hvað er maðurinn að tala? Þjófnaði og skattalögbrot?
Undir svona aðdróttunum getum við ekki setið og sjáum okkur því tilneydda til að svara.

Það eru rétt 40 ár síðan hafist var skipulega handa hér á Siglufirði við að laða að fugla og vernda þá – og það hefur haft í för með sér að óvíða er meira eða fjölskrúðugra fuglalíf við nokkurn þéttbýlistað á landinu, t.d. með eitt þúsund æðarfugla-varpi innan bæjarmarkanna!!!
Að sinna fuglunum og hjálpa þeim er fólgið í því meðal annars að grafa hreiðurskálar og færa þeim hey, búa þeim í haginn. Vakta vörpin með hjálp vina og kunningja. Hreinsa umhverfið árlega, nærliggjandi mýrar og fjörur af plastsorpi. Byggja hólma og fuglaskoðunarhús og leggja í kostnaðarsamar flóðavarnir.
Við komum hver á fætur öðrum inn í þessi umhverfisstörf, sá fyrsti er með undirritað leyfi bæjarstjóra í maí 1991. Annar var svo heppinn að fá skriflegan samning, einnig 1991. Sá síðasti, Ólafur Guðmundsson, fékk leyfi fyrir umönnun og dúntekju á Leirutanga með samtali við þáverandi bæjarstjóra nálægt árinu 2000. Hann bauð helmingaskipti á dúninum og óskaði eftir samningi. Dúnboðinu var hafnað á þeirri forsendu að þetta væri varla mikið og tekjurnar yrðu bara eðlileg laun fyrir vinnu hans. Talað var um að undirrita samning – sem aldrei kom.

Þegar Óli hætti að geta sinnt æðarvarpinu nú fyrir skemmstu var eðlilegt að þessum ágætu hlunnindum af æðarvarpinu væri úthlutað á ný og það höfum við stutt að væri gert á opinn og sanngjarnan hátt. Þó með þeim fyrirvara að miðað við söguna og reynsluna væri eðlilegt að heimamaður fengi umsjón varpsins. Einn okkar (Örlygur) fór á fund Elíasar bæjarstjóra og Ármanns deildarstjóra tæknideildar 28. ágúst í fyrra og afhenti þeim minnispunkta með góðum ráðum um tilhögun varpmálanna á Leirutanga. Þar var einnig þetta á minnisblaðinu:

Mikilvægt að þeir sem hafa leyfi fyrir umhirðu á öðrum æðarvörpum fái að halda þeim en eðlilegt væri að endurnýja þau með formlegum samningum með ákveðnum skilyrðum s.s. hreinsun varplandsins.
Núverandi varplönd:   
Leirutangi, 1000 æðarhreiður – Ólafur Guðmundsson, munnlegt leyfi.
Langeyrarsvæðið, 50-100 hreiður – Hjálmar Jóhannesson, undirrit. samningur.  

Meðfram flugbraut, u.þ.b. 100 hreiður – Ingvar Hreinsson, munnl. leyfi.
Grandi og Áróslón, u.þ.b. 150 hreiður – Örlygur Kristfinnsson, undirritað leyfi.

Öllum ætti að vera ljóst að ekkert hefur skort á upplýsingar um okkur hina sem annast höfum og hlúð að fuglalífi í firðinum um áratugi. Fullyrðingar um að við höfum ekki sinnt kalli bæjarins um að gefa okkur fram eru hrein ósannindi pistilshöfundar eða fyrrgreindum bæjarstjórnendum hafi orðið eitthvað alvarlega á í messunni.

Það er ekki ástæða til að fjölyrða að sinni um fleiri atriði úr pistli Árna – með sínum ruglanda og rangfærslum – hann dæmir sig sjálfur. Við erum ófeimnir að ræða um þann fjárhagslega ávinning sem við höfum af dúntekju.

Eins og fram kom hjá Árna fór hann um önnur varplönd, þau sem við höfum leyfi fyrir og eru í okkar umsjá, síðastliðinn fimmtudag, (bónus við Leirutangasamninginn í umboði bæjarstjórnenda?)  hrifsaði þar allan dún sem hann fann og tók með sér egg og skildi æðarhreiðrin eftir án þess að leggja svo mikið sem eitt sinustrá eftir með eggjunum. Frá upphafi vega hefur verið hefð fyrir því að fara nærfærnum höndum um æðarhreiður og sýna fuglunum fyllstu nærgætni. Og felst það meðal annars í því að færa fuglinum hey eða þurra sinu í stað dúnsins sem tekin er. Búa fuglinum nýtt hreiður. Það er meðal annars fegurðin í þessari sérstæðu sambúð fugls og manns um þúsundir ára.
Þegar að var gáð síðdegis á fimmtudag kom í ljós að Árni hafði skilið eftir eggin án nokkurs umbúnaðar – sumstaðar á berri jörðinni. Við einfalda athugun virðist það sama blasa við á Leirutanga. Meðfylgjandi ljósmynd sýnir þetta.

Það er eins og innrás þegar einstaklingur úr öðru sveitarfélagi kemur inn í friðsamt samfélag okkar með þeim hætti sem Árni gerir. Hann virðist nýgræðingur í þessum dúnmálum með nýstofnað fyrirtæki sér að baki til að styrkja stöðu sína í stríði sem hann vill hefja við okkur heimamenn til að sölsa undir sig varplöndin. Við höfum ekki áhuga á frekara orðaskaki en óskum þess að honum farnist vel í lífinu – hann nái að læra að umgangast náttúruna og náunga sinn af tillitsemi og hógværð. 


Og við bæjarstjórnendur viljum við segja: Við ætlumst til að samningar og formleg leyfi séu virt. Orð skuli standa. Þannig virkar siðaðra manna samfélag. Og svo það sé sagt aftur og nú opinberlega: Við óskum eftir nýjum samningum og erum fúsir að greiða eðlilegt gjald fyrir dúntekju.
 
Þau hlunnindi sem um ræðir eru að miklu leyti til komin vegna umönnunar og gæslu fólks í 40 ár. Og það skiptir megin máli gagnvart varplandinu á Leirutanga að menn vandi sig við að þróa það sem einstaka náttúruperlu. Og eðlilegast hefði verið að skilyrða umönnun og gæslu þar við búsetu í sveitarfélaginu. Þannig mætti helst vænta áhuga og vandvirkni sem til þarf. Og áframhaldandi framtaks heimamanna sem greiða sína skatta og skyldur til samfélags síns.
En náttúran, vernd hennar og sambúð mannsins við hana á ekki að snúast um peninga. Þeir geta að vísu verið aflvaki góðra verka en eru ekki höfuðatriðið.

Hjálmar Jóhannesson
Ingvar Hreinsson
Örlygur Kristfinnsson

Myndir: ÖK