Nú á vormánuðum var æðarvarpið á Leirutanga á Siglufirði boðið út. Þrír aðilar fengu að bjóða í verkið eftir að hafa sent inn umsóknir þar sem þeir kynntu bæjarráði framtíðarsýn sína á svæðinu og sýndu fram á hæfni sína til að sinna verkinu að kostgæfni. Tveir af þremur aðilum sendu tilboð og munaði þó nokkru á tilboðum þeirra er buðu og hefði undirritaður viljað mun meiri samkeppni um verkið.

Fyrirtækið Icelandic Eider ehf. vann útboðið og mun borga Fjallabyggð 33,3% hlut af þeim tekjum sem hljótast af varpinu á Leirutanga. Verð útboðsins miðast við meðal söluverð ársins 2020, sem nam rétt rúmum 190.000 kr. á hvert selt kíló af æðardúni skv. gögnum frá Hagstofu Íslands. Til frádráttar á tekjum eru þó verk sem Fjallabyggð felur verkkaupa að sinna og má þar nefna lagningu stígs á svæðinu, smíði fuglaskoðunarskýlis og uppsetningu upplýsingaskilta er segja frá fuglalífi á svæðinu ásamt því að hreinsa rusl og halda svæðinu snyrtilegu.

Það gefur því augaleið að ágóði Fjallabyggðar og íbúa sveitarfélagsins af samkomulagi sem þessu er nokkur. Peningar sem áður hafa runnið óskertir í vasa þeirra er hirt hafa dún í bæjarlandi í áratugi eru heldur nýttir í uppbyggingu og allur hagnaður sem eftir er rennur beint til bæjarins. 

Þegar undirritaður fór að grennslast fyrir um önnur æðarvörp á Siglufirði, svo sem sunnarlega við flugvöllinn og tjörn við Langeyrarveg, kannaðist enginn við að þar væri nokkur maður að taka dún og ekki vitað til þess að samningur væri í gildi um slík verkkaup. Bærinn kallaði eftir því, oftar en einu sinni, að þeir sem hirtu um æðarvarp í bæjarlandi, fyrir áðurnefnt útboð á Leirutanga, létu af því vita en án árangurs. Undirritaður fékk því svæðinu úthlutað sem viðauka við æðarvarpið á Leirutanga á sömu kjörum og áður voru nefnd, enda hagur bæjarins augljós af slíku samkomulagi við Icelandic Eider ehf.

Það kemur svo á daginn að á þessum tveimur svæðum eru þrír mismunandi aðilar að hirða dún án þess að bærinn fái svo mikið sem krónu fyrir. Þessir aðilar sýna svo gamla og rykuga samninga sem gerðir voru á seinni hluta síðustu aldar, þar sem hlunnindi í eigu bæjarbúa hafa verið látin í hendur á mönnum sem hafa hagnast um milljónir á síðastliðnum þremur áratugum. Hversu stór hluti þessa háu fjárhæða hefur skilað sín til sveitarfélagsins? Hvers vegna fá nokkrir útvaldir að hagnast af hlunnindum í eigu bæjarbúa, svo áratugum skiptir, án þess að greiða fyrir?

Ef við gefum okkur það að hvert af þessum þremur vörpum gefi af sér þrjú kíló árlega af fullhreinsuðum æðardúni og tökum meðalsöluverð æðardúns frá árinu 1990 til ársins 2021, með tilliti til verðbólgu, eða um 200.000 kr. fyrir kílóið skv. tölum Hagstofu Íslands, þá eru tekjurnar af þessum þremur vörpum s.l. þrjátíu ár um 54 milljónir króna. Miðað við núverandi samkomulag bæjarins við Icelandic Eider ehf. um umhirðu æðarvarpsins á Leirutanga hefðu slíkar tekjur skilað bænum tæpum 18 miljónum í tekjur yfir áðurnefnt þrjátíu ára tímabil. Athugið þó að þessar tölur taka ekki þau 10-15 kíló sem tínd eru árlega á Leirutanga með í reikninginn og því er heildarupphæðin mun hærri. 

Uppbyggingin á Leirutanga hefur verið töluverð s.l. 20 ár og eiga þeir aðilar sem sinntu þar um hrós skilið fyrir vel unnin störf og vilja til samstarfs við núverandi verktaka. Aðili sem hirt hefur dún norðarlega við flugvöllinn í bæjarlandi tók það að sér að hirða dúninn á Leirutanga árið 2020 eftir að þeir sem sinnt hafa um varpið í 20 ár sáu sér ekki lengur fært um það. Sá aðili sem hirti um varpið árið 2020 hefur fengið um 15 kíló í sinn skerf fyrir. Tekjur Fjallabyggðar af varpinu á Leirutanga árið 2020 hefðu numið um 950.000 kr. ef um sama fyrirkomulag hefði verið að ræða og er þar í gildi í dag.

Jafnvel þótt allir viðkomandi aðilar væru með áratuga gamla og ótímabundna samninga um að hirða dún, gefur augaleið að menn geti ekki verið í áskrift af hlunnindum í eigu bæjarbúa svo áratugum skiptir án þess að greiða fyrir. Hvar er línan dregin og hvers vegna á handfylli af útvöldum hagsmunaaðilum að stinga eignum Fjallabyggðar í eigin vasa? Æðardúnn er talinn fram sem hlunnindi í fasteignaskrá og ber að hugsa um sem slík að öllu leyti. Það er ósk undirritaðs að íbúar Fjallabyggðar átti sig á því fári sem hefur verið við lýði og að sanngirni verði í öndvegi höfð þegar kemur að úthlutun æðarvarpa í sveitarfélaginu. Telst sanngjarnt að einn aðili greiði sinn „hlunnindaskatt“ en sá næsti ekki? 

Árni Rúnar Örvarsson

Til gamans má geta að Icelandic Eider ehf. hefur verið með teymi kvikmyndatökufólks í varpinu á Leirutanga í vor að taka upp efni fyrir stóra heimildarmynd um æðardún og aðrar rótgrónar atvinnugreinar umhverfis hnöttinn, og bænum gerð góð skil í þeirri mynd, ásamt blaðagrein sem birtast munu í tengslum við verkefnið í stóru erlendu tímariti. Það má því ætla að tekjur bæjarins af slíku verkefni, ásamt þeim augljósu tekjum sem renna til Fjallabyggðar vegna títt nefnds samkomulags, verði töluverðar í formi kynningar bæjarins á heimsvísu.

Icelandic Eider sér alfarið um eigin hreinsun, útflutning, markaðssetningu og framleiðslu okkar eigin vara úr æðardúni eins og æðardúnssængum, ásamt því að starfa náið með stærstu útivistamerkjum heims að spennandi verkefnum sem kynnt verða í nánustu framtíð.

Með virðingu og vinsemd,

Árni Rúnar Örvarsson, framkvæmdarstjóri og eigandi Icelandic Eider ehf.