Veðurklúbburinn á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra á Dalvík, hefur starfað síðan 1995. Þar koma allt upp í 15 menn og konur saman fyrsta þriðjudag hvers mánaðar og spá í veðrið næsta mánuðinn eða svo. Spárnar byggjast mikið á draumum klúbbmeðlima. Ef menn dreymir hvítar kindur eða auða jörð að vetri til, er það talið vera fyrir vetrarhörku og snjókomu. Tunglkoma og hegðun fulga skiptir líka máli þegar kemur að veðurspá. Spár klúbbsins á Dalbæ hafa vakið athygli víða, og dæmi eru um að bændur í öðrum byggðarlögum hagi búmennsku sinni eftir veðurspám veðurklúbbsins á Dalbæ.

Skjáskot af vedur.is

 

Þriðjudaginn 4. september  komu félagarnir saman til fundar í því skini að huga að veðurhorfum í septembermánuði. Farið var yfir sumarmánuðina og veðurfar þessa mánuði sem veðurklúbburinn var í fríi frá spádómi og fundum – þó svo alltaf spái menn í veðrið.

Nýtt tungl kviknar sunnudaginn 9. september kl. 18:01 í vestri og er það því sunnudagstungl.  Klúbbfélagar höfðu á tilfinningunni að það yrði  hæglætis veður áfram út mánuðinn og engar stórar breytingar. Það horfir vel til veðurs um göngur hér Norðanlands.

“Það var ánægjulegt að koma saman aftur eftir sumarfrí og spjalla og eiga notalega stund.”

Veðurvísa mánaðarins

Í ágúst slá menn engið,
og börnin tína ber
Í september fer söngfugl
og sumardýrðin þver

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir